Sveitarstjórnirnar í uppsveitum Árnessýslu hafa áhyggjur af skerðingu á þjónustu sem íbúar verða fyrir vegna áforma Lyfju um breytingar á lyfjaafgreiðslunni í Laugarási. Hvetja oddvitar sveitarfélaganna og einstakar sveitarstjórnir til þess að lyfjaafgreiðslan verði með óbreyttu sniði enda sé þetta mikilvæg þjónusta fyrir alla íbúa svæðisins.
Lyfja rekur útibú í tengslum við heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) í Laugarási. Þótt þar starfi ekki lyfjafræðingur getur starfsmaðurinn afgreitt lyf í samvinnu við lyfjafræðinga fyrirtækisins og fólk, sem fær ávísað lyfjum hjá lækni á heilsugæslustöðinni, getur fengið lyfin í sömu ferð. Lyfja hefur leitað eftir samningi við HSU um að lyfjaafgreiðslan færist inn í heilsugæsluna og í hendur starfsfólks þar.
Grefur undan stöðinni
Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, segir að með því skipulagi sem Lyfja leggi til geti fólk sem vitjar læknis ekki fengið lyfseðilsskyld lyf í sömu ferð, heldur verði að koma síðar, þegar lyfjaafgreiðslan hefur pantað og fengið lyfin, eða sótt þau í apótek á Selfossi. Það er þessi þjónustuskerðing sem oddvitar og sveitarstjórnir hafa áhyggjur af. Einnig óttast sveitarfélögin að það muni grafa undan heilsugæslunni í Laugarási ef þjónustan skerðist. Íbúar muni frekar leita til læknis á Selfossi, ef þeir þurfa hvort sem er að sækja lyfin þangað. Tekið skal fram að hægt er að kaupa lausasölulyf í Krambúðinni á Laugarvatni og Flúðum.
Lyfjaafgreiðsla í neyð
HSU er með litlar lyfjaafgreiðslur í tengslum við heilsugæslustöðvar en aðeins þar sem brýn nauðsyn er talin bera til, vegna fjarlægðar frá lyfjaverslun. Það á við Kirkjubæjarklaustur og Vík í Mýrdal. Athugað hefur verið hvort annað apótek væri tilbúið að setja upp útibú í Laugarási en ekki er vitað til þess að niðurstaða sé komin í það mál.helgi@mbl.is