Hjónin Astrid Lelarge og Birgir Þ. Jóhannsson eru afar sátt við að búa í litla sæta timburhúsinu sínu á Vesturgötu sem nú er komið í upprunalegt horf eftir mikla vinnu.
Hjónin Astrid Lelarge og Birgir Þ. Jóhannsson eru afar sátt við að búa í litla sæta timburhúsinu sínu á Vesturgötu sem nú er komið í upprunalegt horf eftir mikla vinnu. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er skemmtilegt að takast á við bæði að búa til eitthvað nýtt og eins að varðveita það gamla. Það þarf að vega og meta hvað er vert að varðveita og ég vil að við varðveitum gömul hús sem eru hluti af okkar menningararfleifð.

Hjónin Birgir Þ. Jóhannsson, arkitekt hjá Alternance, og sagnfræðingurinn Astrid Lelarge keyptu húsið á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs árið 2012, en húsið er byggt 1881 og því yfir 140 ára gamalt. Þar búa þau ásamt sonum sínum tveimur og vilja hvergi annars staðar vera. Hjónin settust niður með blaðamanni einn morgun í vikunni til að ræða um heimilið sitt fallega en þau hafa staðið í ströngu við að koma húsinu í upprunalegt form. Kötturinn og músabaninn Leó heilsar upp á gestinn en forðar sér svo í burtu.

Heimili fjölskyldu Cartoon Charlie

Í húsinu hafa líklega búið hundruð manna í gegnum tíðina og synd að veggirnir geti ekki talað. Sögur af lífi fólks í húsinu í heila öld og fjörutíu árum betur eru margar hverjar gleymdar, þó hefur Birgir eitthvað getað grafið upp með grúski.

„Hér hefur búið alls konar fólk, fjölskyldur og eins var hér sjúkraheimili fyrir börn um aldamótin 1900. Í upphafi bjuggu tuttugu og fjórir í húsinu á tveimur hæðum og í kjallara hefur verið eldhús og geymsla fyrir sjógalla. Fjaran var hér rétt fyrir neðan og þar var róið út. Hér fyrir utan voru stakkstæði þar sem fiskur var þurrkaður,“ segir Birgir og bendir út um gluggann.

„Sá sem byggði húsið var múrari og tómthúsmaður að nafni Stefán Þórðarson en hann bjó hér ásamt konu sinni Sigríði Þórarinsdóttur og syni. Kannski hlóð hann hér kjallarann eða vann við að hlaða Alþingishúsið, en það var einmitt hlaðið á sama tíma. Fjölskyldan flutti svo til Vesturheims í kringum 1887. Þau komu sér fyrir í Gimli í Kanada og þar varð hann bæjarstjóri. Þau eignuðust þrjá syni til viðbótar og varð einn alþingismaður og annar teiknari hjá Walt Disney. Sá hét Karl og var kallaður Cartoon Charlie og teiknaði Kalla kanínu, Dúmbó og Mjallhvíti, en fyrirmynd hennar var íslensk stúlka að nafni Kristín,“ segir hann og segir húsið sennilega hafa verið byggt í Noregi og flutt hingað ósamansett. Númeraðir bitar víðs vegar um húsið bera þess merki.

Að varðveita hið gamla

„Húsið var hér allt hólfað niður þegar við keyptum það og spónaplötur úti um allt, teppi og plastparket, en undir því var þetta gamla gólf,“ segir Birgir og segir loftið einnig hafa verið klætt spónaplötum. Þegar þær voru teknar niður kom í ljós upprunalega loftið.

„Ég hef alltaf haft áhuga á sögu. Það er skemmtilegt að takast á við bæði að búa til eitthvað nýtt og eins að varðveita það gamla. Það þarf að vega og meta hvað er vert að varðveita og ég vil að við varðveitum gömul hús sem eru hluti af okkar menningararfleifð. Við eigum ekki svo mikið af gömlum húsum,“ segir hann.

„Þetta snýst ekki bara um götusýnina, heldur líka um hvað var inni í húsunum og sögu fólksins.“

Birgir segir þau hafa farið rólega af stað í endurbótunum til að sjá hvað mætti varðveita af hinu gamla. Eftir rannsóknarvinnu fundu þau að það var mikið gott eftir í húsinu og því væri hægt og mjög áhugavert að gefa því sem næst upprunalegt útlit.

„Ég sá að þakið var í fínu standi og timburverkið gott. Þetta er ekki bindingshús heldur byggt með massífu timbri sem lagt er lóðrétt. Hér eru upprunalegt gólf og veggir og klæðningin að utan líka, sem er tjörguð,“ segir Birgir og segist hafa verið með góðan smið, en hann vann einnig mikið sjálfur að endurbótunum.

Kynntust í keramík

Birgir lærði arkitektúr í Belgíu og þar kynntist hann konu sinni Astrid en þau bjuggu þar í miðbæ Brussel. Hingað til landsins fluttu þau árið 2008.

„Við kynntumst á keramíknámskeiði,“ segir Astrid og brosir.

„Og það er merkilegt að hér í húsinu var í mörg ár keramíkverslun,“ segir hún og segist enn vera að fást við keramík í kjallaranum.

„Ég vildi endilega búa í miðbænum af því að mér finnst sá hluti bæjarins svo fallegur og einstakur. Það er varla hægt að bera miðbæinn saman við neinn annan. Hér er þorpsbragur og myndrænar götur með sveigðum götum og timburhúsum,“ segir hún.

Góð orka og kósí

Á miðvikudag hlutu hjónin fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar fyrir vandaðar endurbætur.

„Það eru tvö hús á ári sem fá viðurkenningu fyrir góða endurgerð. Það er jákvætt að fá viðurkenningu fyrir það sem maður hefur gert. Fólkið í götunni er almennt mjög ánægt með húsið,“ segir Birgir og Astrid bætir við að gaman sé fyrir Birgi að fá viðurkenninguna því hann hafi lagt mikla vinnu í húsið.

„Ég er ánægð fyrir hans hönd og fyrir hönd hússins. Þetta er hans fag en auðvitað er húsið mitt líka og ég elska það. Hér er góð orka og mjög kósí,“ segir hún og segja þau bæði góðan anda í húsinu.

„Hér eru auðvitað óteljandi verkefni, en þetta hús hefur breyst rosalega mikið síðan við keyptum það. Íbúar á undan okkur voru farandverkamenn og þar á undan var húsið í niðurníðslu og hýsti útigangsmenn. Það vantaði glugga og það hefur verið reynt að kveikja í því. Hér eru för eftir bruna,“ segir Birgir.

Langelsta gata Reykjavíkur

Húsið keyptu hjónin af Landsbankanum, en áform voru um að byggja þarna háhýsi.

„Það var í raun kreppan sem bjargaði því að það var ekki gert. Ef kreppan hefði ekki verið hefði húsið verið rifið og hér væri blokk,“ segir hann og segist hafa áhyggjur af lóðinni á móti þar sem hús brann 2020; bruni sem kostaði þrjú mannslíf. Birgir segir áform vera um að reisa þar stórhýsi, en íbúar hverfisins eru margir hverjir alls ekki sáttir við það. Þeir hafa nú sent áskorun til borgarstjóra um að lóðin verði nýtt íbúum til góðs þannig að bygging þar myndi ekki stinga í stúf við umhverfið.

„Við myndum nú vilja sjá að götumyndin yrði varðveitt, enda er þetta ein af langelstu götum borgarinnar. Fjárfestirinn sem keypti lóðina vill byggja sem mest en við viljum sjá eitthvað sem hentar íbúum hverfisins og aðlagast byggðarmynstrinu.“