[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fátt er betra á köldum vetrardegi en alvöru íslensk kjötsúpa. Nú eða einhvers konar útgáfa af henni, en viðmælendur Sunnudagsblaðsins segja að kjötsúpan hafi þróast með árunum. Þau eru óhrædd við að krydda eða bæta við grænmeti eftir hentugleika og segja um að gera að leika sér við kjötsúpugerðina

Fátt er betra á köldum vetrardegi en alvöru íslensk kjötsúpa. Nú eða einhvers konar útgáfa af henni, en viðmælendur Sunnudagsblaðsins segja að kjötsúpan hafi þróast með árunum. Þau eru óhrædd við að krydda eða bæta við grænmeti eftir hentugleika og segja um að gera að leika sér við kjötsúpugerðina.

Dásemdin ein

Fyrstur á línunni var Albert Eiríksson sem heldur úti vinsælum matarvef undir nafninu Albert eldar.

„Á mínu æskuheimili var gjarnan kjötsúpa, en við vorum sjö systkini. Okkur fannst súpan dásemdin ein og þetta var þægilegt fyrir mömmu að elda. Öllu skellt í pottinn og þetta var uppáhaldsmatur hjá mörgum okkar,“ segir Albert.

„Ég er úr sveit og man að það var alltaf kjötsúpa eftir smalamennsku og þá bragðaðist hún enn betur en venjulega, enda allir banhungraðir!“ segir hann.

„Kjötsúpa er vanmetin og við eigum að borða hana oftar. Hún er til í ýmsum myndum í mörgum löndum og margir tala um að kjötsúpa sé betri daginn eftir; það er kannski galdurinn á bak við góða kjötsúpu,“ segir Albert og nefnir að við geymslu yfir nótt náist meiri kraftur úr beinunum.

Kjötsúpa má þróast

„Ég er alinn upp við að hafa í súpunni bæði hrísgrjón og haframjöl en mér finnst það núna of mikið. Við lifum á þeim tímum að kolvetni eru ekki í tísku þannig að það er fínt að sleppa því. Það sem ég hef alltaf eru súpujurtir, því þær gefa bragð og stemningu,“ segir hann.

„Svo nota ég í raun það grænmeti sem til er, það skiptir ekki öllu máli. Ég nota alltaf gulrætur og rófur, en það má nota alls konar, eins og sellerí og sætar kartöflur. Kjötsúpan má alveg þróast og fólk á að leika sér. Mér finnst æskilegt að íslenskur matur þróist aðeins og það má setja krydd út í slátrið til að mynda,“ segir Albert og segist ætla að elda kjötsúpu við fyrsta tækifæri því löngunin kviknaði við samtalið.

„Hver er með sína útgáfu af kjötsúpu. Ég vil hafa hana þannig að kjötið sé mjög vel soðið, þannig að það detti af beinunum.“

Matarmikil og bragðmeiri

Næst sló blaðamaður á þráðinn til Perlu Rúnarsdóttur, eiganda Café Loka, en þar á bæ eru búin til tíu tonn af kjötsúpu á ári, hvorki meira né minna.

„Súpan okkar er mjög matarmikil og ég held að lykillinn að góðri súpu sé gæðahráefni. Við viljum hafa okkar kjötsúpu með bragði og við höfum alveg fengið Íslendinga til okkar sem segja þetta ekki ekta íslenska kjötsúpu. En við viljum hafa hana bragðmeiri og setjum því kjötkraft, smá paprikuduft til að fá smá lit, salt og pipar. Við notum blaðlauk og það eru skiptar skoðanir á því hvort það passi, en kokkur sagði við mig að í kjötsúpu ætti að fara það grænmeti sem væri til hverju sinni,“ segir Perla og er ánægð með útkomuna.

„Mér finnst okkar útgáfa betri en mamma gerði.“

Húnvetnsk sauðkind

„Á Café Loka seljum við um það bil tíu tonn af kjötsúpu á ári. Það er rosalega mikið, enda erum við alltaf með kjötsúpu á matseðlinum. Útlendingarnir elska hana,“ segir hún og segir þau selja svo mikið að hún nái varla að verða dagsgömul.

„En ég er alveg sammála því að hún er betri daginn eftir,“ segir hún og nefnir hvað þau noti í súpuna.

„Við setjum smá grjón, rófur, gulrætur, kartöflur, hvítkál, blaðlauk og lauk,“ segir hún.

„Og svo notum við gæðalambakjöt af húnvetnsku sauðkindinni sem ég er mjög ánægð með því ég er úr Húnavatnssýslunni,“ segir hún og hlær.