Rosa Parks árið 2001. Hún lést fjórum árum síðar, 92 ára að aldri.
Rosa Parks árið 2001. Hún lést fjórum árum síðar, 92 ára að aldri. — AFP/Jeff Kowalsky
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Árið 1980 birtust þrjár þeldökkar eldri konur með gleraugu á skjáum bandarísku þjóðarinnar og sögðust allar sem ein heita Rosa Parks. Þátturinn var To Tell the Truth og gekk út á að finna hver þeirra væri að segja satt og hverjar tvær að skrökva. Til að finna út úr því voru fjórir spyrlar í salnum. Einn þeirra sagði sig strax frá verkefninu enda hefði hann marserað með hinni réttu Rosu Parks til að berjast fyrir mannréttindum svartra í borginni Selmu í Alabama á sjöunda áratugnum. „Frú Rosa Parks er þrír metrar á hæð, hún er goðsögn og hetja í lýðræðissögu Bandaríkjanna, ekki bara meðal þeldökkra,“ sagði hann áður en hann dró sig í hlé. Ekki dugðu þessar upplýsingar þó vel en aðeins einn af hinum þremur sem eftir stóðu bar kennsl á hina raunverulegu Rosu Parks. Ætli það sé ekki lýsandi, margir þekkja nafnið en fáir konuna í sjón.

17 ár verða á morgun liðin frá andláti Parks, í hárri elli, en það er fyrst nú sem gerð hefur verið heimildarmynd um hana. The Rebellious Life of Mrs Rosa Parks nefnist hún og hefur það yfirlýsta markmið að kynna betur konuna á bak við atburðinn. Engin leið sé að ramma heilt lífshlaup inn með einni fyrirsögn: Neitaði að standa upp í strætó, eða eitthvað í þá veru. Hafi menn ekki áttað sig á því þegar þá er Rosa Parks blökkukonan sem neitaði að láta hvítum manni eftir sætið sitt í Montgomery í Alabama veturinn 1955, þvert á viðtekna venju og lög þar um slóðir. Hún var handtekin fyrir vikið en varð á augabragði holdgervingur mannréttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum.

Hreint engin tilviljun

Þegar hún féll frá voru eftirmæli dagblaðsins The New York Times á þann veg að Parks hefði fyrir tilviljun orðið móðir mannréttindahreyfingarinnar. Í heimildarmyndinni kemur á hinn bóginn fram að ekkert við Rosu Parks hafi verið tilviljunarkennt; þvert á móti hafi hún verið aktívisti inn að beini og það löngu áður en hún steig um borð í strætisvagninn. Þá hafi hún verið tengd Malcolm X, Martin Luther King og svörtum stjórnmálamönnum í Washington órofa böndum.

Annar leikstjóri heimildarmyndarinnar, Yoruba Richen, segir í samtali við breska blaðið The Guardian að To Tell the Truth-myndskeiðið, sem getið var um hér að ofan, segi sína sögu um arfleifð Parks. „Hún kemur fram í þessum þætti þar sem allir kannast við nafnið en enginn þekkir hana í sjón.“

En hvað var hún að gera í þessum þætti yfirhöfuð? „Sennilegasta skýringin er sú að hún hafi þurft á peningunum að halda,“ segir Richen. „Það er hlutur sem við skoðum í myndinni, fjárhagsleg óvissa hennar megnið af lífinu.“

Hinn leikstjórinn, Johanna Hamilton, bendir í samtali við sama blað á að ekki séu til mörg viðtöl við Parks þar sem farið er á dýptina. Allir sem tóku hana tali hafi spurt um það sama, atvikið í strætisvagninum. Fyrir vikið hafi hún verið dregin í dilk og setið föst í tíma.

„Þrátt fyrir að hún sé alltaf til staðar er hún hulin fyrir augum svo margra. Nóg er að færa myndavélina til hliðar og hún er úti í jaðri rammans í göngunni frá Selmu til Montgomery með MLK [Martin Luther King] og öllum hinum á myndinni frægu en maður sér hana samt sjaldan af því að hún er ekki fyrir miðju.“

Parks fæddist í Tuskegee í Alabama 1913 og óx úr grasi undir aðskilnaðarstefnunni djúpt í suðurríkjunum. Fjölskylda hennar var flæmd af landi sínu, rifjaði hún einhverju sinni upp, og sem barn þurfti hún að fela sig fyrir Ku Klux Klan til að verða ekki drepin.

Sagnfræðingurinn Francis Gourrier segir í heimildarmyndinni að þetta skeið í sögunni hafi verið lágpunkturinn fyrir blökkumenn í Bandaríkjunum, jafnvel verra en þrælahaldið, að mati sumra.

Parks mun hafa áttað sig á því sex ára gömul að hún væri ekki frjáls manneskja. Hún vakti alla nóttina með afa sínum, sem var með byssu við höndina til að geta varist Klaninu. Einu sinni var haft eftir henni: „Það var afi sem innrætti móður minni að maður sætti sig ekki við illa meðferð af hálfu nokkurs manns. Það viðhorf var látið ganga áfram, eins og það væri í genunum.“

Einu sinni skrifaði Parks: „Frekar vil ég vera tekin af lífi án dóms og laga en að vera misþyrmt og að mega ekki segja „ég kann ekki við þetta“.“

Frændi hennar, Lonnie McCauley, segir í myndinni að fólk verði að gera sér grein fyrir því að konan hafi verið hermaður frá fyrstu tíð. „Og hún var reiðubúin að berjast við þig.“

Á fullorðinsárum átti Parks aðild að samtökum blökkumanna sem kalla sig National Association for the Advancement of Colored People (NAACP). Hún gekk að eiga Raymond Parks, pólitískt virkan rakara, og hjálpaði honum að skipuleggja vörn Scottsboro-nímenninganna sem ranglega voru sakaðir um að nauðga hvítri konu í Alabama.

En það var morðið á Emmett Till, 14 ára gömlum svörtum pilti, og sýkna þeirra sem að því stóðu, sem var kornið sem fyllti mælinn í huga Parks og margra annarra.

Hamilton leikstjóri rifjar upp í samtalinu í The Guardian að Parks hafi verið meðvituð um að verið væri að fleygja svörtum konum en líka körlum út úr almenningsvögnum vítt og breitt um landið. „Bara í Montgomery hafði gamall hermaður verið skotinn og hent út vegna þess að hann neitaði að eftirláta sætið sitt. Lögregla var kölluð til. Hún vissi þetta allt. Það staðfestir hugrekkið. Eins og hún sagði sjálf þá hafði hún ekki hugmynd um hvað myndi gerast meðan hún beið eftir lögreglunni.“

Parks reit seinna: „Búið var að tugta mig og toga alla tíð og á þessu augnabliki fannst mér ég ekki geta sætt mig við það lengur. Þegar ég spurði lögreglumanninn hvers vegna stöðugt væri stuggað við okkur kvaðst hann ekki vita það. „Lög eru lög. Þú ert handtekin.“ Ég streittist ekki á móti.“

Þessi gjörningur leiddi til sniðgöngu strætisvagnakerfisins í Montgomery í 381 dag sem varð til þess að hæstiréttur Bandaríkjanna bannaði aðskilnað í almenningssamgöngum í landinu.