„Sagan lifnar við þegar maður skoðar þessar myndir og manni finnst næstum eins og maður sé kominn í tímavél. Og hér liggur stór fjársjóður órannsakaður,“ segir Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.
„Sagan lifnar við þegar maður skoðar þessar myndir og manni finnst næstum eins og maður sé kominn í tímavél. Og hér liggur stór fjársjóður órannsakaður,“ segir Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í gömlu frystihúsi sem eitt sinn hýsti fiskvinnsluskóla eru verðmæti íslenskrar kvikmyndasögu varðveitt til framtíðar. Forstöðumaðurinn, Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, tók á móti blaðamanni og sýndi honum húsakynnin, ræddi um hlutverk safnsins og lét…

Í gömlu frystihúsi sem eitt sinn hýsti fiskvinnsluskóla eru verðmæti íslenskrar kvikmyndasögu varðveitt til framtíðar. Forstöðumaðurinn, Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, tók á móti blaðamanni og sýndi honum húsakynnin, ræddi um hlutverk safnsins og lét í ljós áhyggjur sínar af framtíð safnsins sem þarfnast fjármagns.

Fjársvelt frá upphafi

Þóra leiðir blaðamann um kaldar geymslur sem geyma filmur í þúsundatali, en þær geymast best í kulda. Í öðrum herbergjum er fólk að störfum, en hjá Kvikmyndasafninu eru níu stöðugildi.

„Hér er frábært starfsfólk, en það er mikið að gera og margt sem bíður, í raun þyrftu að vera hér 16 manns til að sinna því sem þarf að gera,“ segir Þóra og sýnir blaðamanni filmuþvottavél, skanna og gamlar kvikmynda- og sýningarvélar sem nú eru úreltar.

„Nú erum við að vinna að því að setja allt stafrænt efni safnsins á langtímavarðveisluform og tryggja afritun og viðhald efnisins. Það þarf sífellt að huga að varðveisluformum, það er að segja hvernig á að geyma efnið svo það sé áfram aðgengilegt. Nútímatækni er svo hröð að það þarf að huga að jafnvel nýjum varðveisluformum á tíu ára fresti. Megnið af efni safnsins er enn á hliðrænu formi; á filmum eða spólum sem eru úreltar. Við höfum gert stafvæðingaráætlun fyrir allan safnkostinn, þannig að eftir tíu ár verði allt efni safnsins aðgengilegt á rafrænu formi. Hins vegar skortir innspýtingu fjármagns til að hægt sé að byrja af einhverju viti. Kvikmyndasafnið hefur því miður verið fjársvelt alveg frá upphafi og í raun dugar sú fjárveiting sem því er skammtað í raun aðeins fyrir launum og húsnæði, og þá er annar rekstrarkostnaður eftir,“ segir hún og segir að þegar kvikmyndastefna 2020-2030 kom fram hafi safninu verið úthlutað fjörutíu milljónum á ári í þrjú ár, til 2023, til að byggja upp starfsemina.

„En það er af svo mörgu að taka að það dugir ekki til. Og hvað gerist svo? Þetta var þó nóg til að hægt væri að hefja ýmsar endurbætur í tækni-, umsýslu- og öryggismálum. Svo var var skorinn helmingur af þessu í fjárlögum næsta árs hjá okkur eins og öðrum í bransanum. Vandi safnsins liggur þó miklu dýpra en svo að aukaupphæð í þrjú ár bjargi málunum því safnið hefur að sumu leyti staðnað í blankheitum sínum. Stafræn starfsemi krefst mikillar tækniuppfærslu en safnið skiptist í hliðræna og stafræna starfsemi.“

Tugþúsundir heimsókna

Við höldum upp á efri hæð og tyllum okkur á skrifstofu Þóru. Hún hellir vatni í glös og heldur áfram.

„Safnið var stofnað 1978 en þá voru það frumkvöðlar sem höfðu ástríðu fyrir söfnun kvikmynda og skildu mikilvægi þess til framtíðar. Lagalegt hlutverk safnsins er að safna kvikmyndum, varðveita og sýna. Varðveislan felst ekki bara í geymslu heldur þarf að bjarga þeim af einu formi á annað, gera laskaðar filmur upp og svo á þjóðin auðvitað að hafa aðgang að sínum menningararfi. Aðalmiðlun okkar fer í gegnum streymisvefinn islandafilmu.is. Þennan vef settum við upp í samstarfi við dönsku kvikmyndastofnunina en á vefnum blasir við Íslandskort þar sem finna má yfir sex hundruð myndskeið frá öllu landinu. Þarna er að finna stórmerkilegt efni sem segir okkur mikið um sögu lands og þjóðar. Við opnuðum vefinn hátíðlega árið 2020 og fyrstu dagana heimsóttu hann tugþúsundir dag hvern. Fólk hreinlega elskaði þetta gamla efni,“ segir Þóra.

„Ísland á filmu er frábær leið til að miðla þessu áhugaverða efni, aðgangur er ókeypis og opinn fyrir alla. Það er mikilvægt að þjóðin fái að sjá sinn menningararf, og það hefur sannarlega sýnt sig að vefurinn er kærkominn. Við bjóðum þeim sem skoða vefinn að hjálpa okkur að efnisgreina myndefnið og höfum fengið margar góðar ábendingar. Við vonum því að verkefnið fái stuðning til að vaxa og dafna til framtíðar.“

Óttumst að efnið læsist inni

Safnið geymir í dag hundrað og sextíu þúsund filmur, spólur, muni og aukaefni.

„Þetta eru filmur og annað miðlunarform til um það bil til helminga. Við varðveitum um tuttugu mismunandi miðlunarform, bæði mynd og hljóð, en það efni sem er nú í mestri hættu eru svokallaðar U-matic-spólur. Tæki til afspilunar á þeim eru löngu hætt í framleiðslu. Við eigum örfá tæki en þau eru í misgóðu standi og sífellt að bila. Þeir eru vandfundnir sem geta gert við slík tæki, en snillingarnir hjá Myndbandavinnslunni hafa reynst okkur vel. Safnið varðveitir rúmlega tvö þúsund spólur af þessu tagi og þær hafa að geyma sögu ákveðins tímabils. Þetta efni er að skemmast sökum aldurs. Þetta format er því tifandi tímasprengja og við gerum eins og við getum til að koma þessu á rafrænt form.“

Þóra segir brýnt að stafvæða sem mest af efni safnsins á næstu árum og segir það eitt helsta forgangsverkefni safnsins.

„Við erum því miður allt of fá eins og stendur. Stafvæðing filmu er tímafrek. Að skanna eina filmu felur í sér tímafrekt ferli við undirbúning, efnislýsingu og frágang,“ segir Þóra og segir að eðlilega geri menn sem ekki þekkja til sér ekki grein fyrir vinnunni sem liggur að baki. Hún segir að lítill hluti safnkostsins sé efnisgreindur en það felst tækifæri til efnisgreiningar samhliða stafvæðingu því mikilvægt sé að skrásetja allt vandlega fyrir komandi kynslóðir.

„Það skortir svolítið skilning á umfangi vinnunnar í svona safni en hún er allt annars eðlis en á opnum söfnum. Við stöndum raunverulega frammi fyrir þeim möguleika að myndefnið hreinlega læsist inni í forminu,“ segir Þóra og að þar gæti hreinlega orðið menningarslys.

Að fara í tímavél

„Okkur langar mest til að stafvæða alla filmu sem safnið geymir fyrst og sýna þjóðinni, því filman geymir megnið af fjársjóðnum. En við látum það bíða vegna þess að filman er örugg við bestu aðstæður í kælum. Annað efni sem minna er vitað um ástandið á verður því að hafa forgang í bili. En það gerist hægt vegna mannfæðar,“ segir Þóra.

„Við erum í óðaönn að leita styrkja í verkefni okkar, til að geta haldið áfram. Safnið fékk öndvegisstyrk frá Safnasjóði til að ráða rannsakanda í hálft starf í þrjú ár. Þetta er í fyrsta sinn sem safnið er með sérstakan starfsmann í rannsóknum og það hefur komið afar vel út. Rannsóknirnar snúast um fyrstu kvikmyndagerðarmenn landsins og við skönnum allt þeirra filmuefni í tengslum við verkefnið. Það má segja að við séum að gera uppgötvanir nánast daglega. Finna efni sem við vissum ekki að væri til. Rannsakandinn okkar kallar oft í starfsmenn og við hlaupum spennt á milli hæða til að sjá nýtt efni,“ segir hún.

„Sagan lifnar við þegar maður skoðar þessar myndir og manni finnst næstum eins og maður sé kominn í tímavél. Og hér liggur stór fjársjóður órannsakaður. Hálfur maður í rannsóknum er frábært en það væri betra að hafa þá þrjá í fullu starfi, því þessi vinna mun annars taka áratugi,“ segir Þóra.

„Ég er að reyna að efla skilning á þessari brýnu þörf fyrir aukið fjármagn til safnins til að hægt sé að hefja björgunaraðgeðir. Ég veit að það er sífellt verið að kvarta undan fjárskorti, en vandi Kvikmyndasafnsins er að það hefur verið hornreka hvað fjármagn varðar frá upphafi. Það er bara einföld og sorgleg staðreynd sem auðvelt er að sýna fram á. Við þurfum að leggja metnað í að tryggja að þessi merkilega arfleifð okkar glatist ekki.“