Litli munkurinn, í sínum gamla, síða munkakyrtli sem bundinn var um hann miðjan með reipi, hafði fært sig nær vinkonunni. Þar hafði hann í frammi ósæmilega tilburði, svokallað skak, svo ég noti pent orð yfir það sem ég sá vera að gerast.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Oft hafa verið sagðar sögur af kynferðisáreitni, misalvarlegri. Flestar konur hafa því miður upplifað slíkt eða heyrt sögur frá vinkonum sem lent hafa í óþægilegum atvikum eða hreinlega orðið fyrir perraskap. Oftast nær eru slíkar sögur ekkert gamanefni, en í einstaka tilviki er ekki annað hægt en að hlæja. Ég get sagt ykkur eina sögu, því það sem gerðist einn heitan eftirmiðdag í Palestínu árið 1989 gleymist seint. Við vorum tvær vinkonur á ferðalagi og lögðum leið okkar að Klaustri freistinganna. Það var byggt inn í gulbrúnt bergið en í Biblíunni segir að þarna hafi Jesús hitt djöfulinn sem hafi komið til hans þrisvar að freista hans. Þyrstar og þreyttar komum við að risastórum dyrum klaustursins. Stórir og gamlir járnhringir voru á hvorri hurð. Við ákváðum að berja að dyrum. Dyrnar opnuðust og fyrir innan stóð munkur; einn minnsti og elsti maður sem við höfðum augum litið.

„Welcome,“ sagði hann mjóróma og hleypti okkur inn. Hann var með grátt, rytjulegt skegg og hrjúfa og hrukkótta húð. Við litum hvor á aðra og lyftum aðeins brúnum en eltum svo þennan litla skrítna munk inn í klaustrið. Hann leiddi okkur inn í herbergi sem var byggt í kringum helli en þar átti Jesús að hafa dvalið. Á veggjunum voru málverk og litli munkurinn talaði stanslaust um verkin. Verst var að við skildum ekki eitt einasta orð en létum ekki á neinu bera og kinkuðum kolli. Eiginlega að springa úr hlátri.

Í miðri ræðu karlsins þurfti ég á salerni og pikkaði í hann. „Toilet?“ spurði ég. Jú, hann hélt það nú, og benti mér leiðina með litlum kræklóttum fingri. Þegar ég kom til baka blasti við mér undarleg sjón. Litli munkurinn, í sínum gamla síða munkakyrtli sem bundinn var um hann miðjan með reipi, hafði fært sig nær vinkonunni. Þar hafði hann í frammi ósæmilega tilburði, svokallað skak, svo ég noti pent orð yfir það sem ég sá vera að gerast. Vinkonan var að vonum hissa á svip, en hristi munkinn af sér, enda, þrátt fyrir þennan perraskap, hættan lítil þar sem við hefðum getað snúið þennan pínulitla mann niður á augabragði. En þarna vildum við ekki vera mínútu lengur og rukum í hendingskasti út í sólina. Við hlupum niður stíginn og þegar við vorum komnar spölkorn frá klaustrinu hentum við okkur á jörðina til að kasta mæðinni. Við ætluðum aldrei að geta hætt að hlæja. Klaustur freistinga stóð svo sannarlega undir nafni.