Horst Hrubesch vinnur skallaeinvígi við Ítalann Fulvio Collovati í úrslitaleik HM 1982.
Horst Hrubesch vinnur skallaeinvígi við Ítalann Fulvio Collovati í úrslitaleik HM 1982. — AFP/Robert Delvac
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig er það, lagsi, eru menn alveg hættir að gefa svipmiklum knattspyrnumönnum þessa heims viðurnefni?“ spurði sparkelskur maður félaga sinn á dögunum, þegar fundum þeirra bar saman á förnum vegi

Hvernig er það, lagsi, eru menn alveg hættir að gefa svipmiklum knattspyrnumönnum þessa heims viðurnefni?“ spurði sparkelskur maður félaga sinn á dögunum, þegar fundum þeirra bar saman á förnum vegi. „Hver man til dæmis ekki eftir Slátraranum frá Bilbao?“ bætti hann við og félaginn svaraði um hæl: „Nú, eða Skallaskrímslinu.“

Þessa ágætu sparkendur þekkja vitaskuld allir lifandi menn en ég er ekki eins sannfærður um að þið munið skírnarnöfnin. Við erum auðvitað að tala um Spánverjann Andoni Goikoetxea og þýska tröllið Horst Hrubesch. Goikoetxea var óvenjulega harður í horn að taka á velli og er frægastur fyrir fólskulegt brot sitt á Diego heitnum Maradona í viðureign Athletic Bilbao og Barcelona haustið 1983 sem raunar er eitt það alræmdasta í gjörvallri sparksögunni. Það varð til þess að enski blaðamaðurinn Edward Owen gaf Goikoetxea viðurnefnið Slátrarinn frá Bilbao sem dugði honum út ferilinn og gott betur.

Hrubesch, sem lengst af lék með Hamburger SV, var á hinn bóginn „skalli góður“, eins og Bjarni Fel. myndi orða það, og gekk lengi undir viðurnefninu Das Kopfball-Ungeheuer sem hljómar margfalt betur á íslensku: Skallaskrímslið.

Það er mikið til í þessu hjá félögunum sem vitnað var til hér í upphafi. Það var mun algengara í gamla daga að svipmiklir sparkendur hefðu viðurnefni. Það átti ekki síst við um hörkutólin sem kölluðu ekki allt ömmu sína á velli. Í ensku knattspyrnunni var að finna Leggjabítinn ellegar Leggjabrjótinn, Norman „bites yer legs“ Hunter hjá Leeds United og Brytjarann, Ron „Chopper“ Harris hjá Chelsea. Þegar sá síðarnefndi hljóp út á Stamford Bridge var sagt að hitastigið í Lundúnum hefði samstundis hækkað um fjórar gráður. Seinna var Stuart Pearce, bakvörður Nottingham Forest, harðasti naglinn í Englandi. Hann var viðurnefndur Geðsjúklingurinn eða Psycho.

Ef við förum lengra aftur má nefna sovéska landsliðsmarkvörðinn Lev Yashin sem gjarnan var kallaður Svarta kóngulóin. Hann virtist vera með óteljandi arma þegar hann fleygði sér á eftir knettinum.

Það var ekki alltaf leikstíllinn sem réð viðurnefninu, eins og í tilviki Jacks Charltons, annars Leedsara, sem sjaldan var kallaður annað en Stóri gíraffinn eða einfaldlega Gíraffinn. Nóg er að líta á ljósmynd af manninum til að skilja af hverju.

Guðdómlega taglið er annað tamt viðurnefni sem tengist útliti. Muniði hver hlaut það? Jú, rétt, Ítalinn Roberto Baggio. Ávallt óaðfinnanlega til fara sá ágæti kappi. Til hárs og klæða. Annar Ítali með geggjað viðurnefni er markvörðurinn Massimo Taibi. Það kom þó ekki til af góðu en eftir martröð hans á örstuttum ferli hjá Manchester United var hann aldrei kallaður annað en Blindi Feneyingurinn.

Senegalinn Papa Bouba Diop heitinn nældi sér líka í gott viðurnefni meðan hann lék á Englandi, með Fulham og fleiri liðum, Fataskápurinn. Það var vegna þess hversu stæðilegur hann var á velli.

Fas manna hefur líka getið af sér góð gælunöfn. Frægastan má líklega telja Keisarann sem var óskoraður leiðtogi manna á löngum og glæstum ferli með Bayern München og þýska landsliðinu. Franz Beckenbauer var hann skírður. Þjóðverjar eru gjarnan virðulegir í þessum efnum, samanber samtímamann Keisarans, markakónginn Gerd Müller, sem kallaður var Bomber der Nation eða bara Der Bomber, það er Sleggjan eða Þjóðarsleggjan.

Ungverjinn Ferenc Puskás er af mörgum talinn einn fremsti sparkandi sögunnar. Hans viðurnefni er í sama dúr, Majórinn valhoppandi.

Piltsleg ára er yfir öðrum, eins og Böðlinum með barnsandlitið og Piltinum eða El Niño. Það eru frændi okkar frá Noregi Ole Gunnar Solskjær, sem lengi lék með Manchester United, og Spánverjinn Fernando Torres, sem lék með Atlético Madrid, Liverpool og Chelsea.

Annar spænskur miðherji með gott viðurnefni er Emilio Butragueño sem sjaldan var kallaður annað en Gammurinn eða El Buitre vegna marksækni sinnar. Nú blóta allir Danir sem eru að lesa blaðið mér í sand og ösku fyrir að dusta rykið af honum. Þið munið HM 1986!

Svo er það Litla Baunin eða Chicharito, Mexíkóinn Javier Hernández, sem enn er að í Bandaríkjunum. Flestir muna þó best eftir honum hjá Manchester United. Sagan bak við það nafn er ekki flókin, faðir hans og alnafni var kallaður Baunin eða Chícharo meðan hann umgekkst tuðrur heima í Mexíkó. Þar af leiðir Litla baunin.

Hulk er víða

Dæmi eru um að menn hafi sjálfir gefið sér viðurnefni sem er sterkur leikur áður en aðrir grípa til sinna ráða, ekki síst ef þeir eru illa innrættir. Sergio Agüero, miðherji Manchester City og argentínska landsliðsins til fjölda ára, er einn af þeim en hann tók sér sem kunnugt er viðurnefnið Kun eftir japanskri teiknimyndapersónu sem hann dáðist að í bernsku.

Hulk er önnur teiknimyndahetja sem spyrt var við sparkanda enda þótt ekki sé vitað til þess að hann hafi komið þar að málum sjálfur. En sláandi voru þeir líkir, félagarnir. Ég tek hatt minn ofan fyrir þeim lesendum sem eru með skírnarnafn Brasilíumannsins knáa á hreinu. Það er Givanildo Vieira de Sousa. Við skrif þessarar greinar komst ég að því að til er annar knattspyrnumaður sem kallaður er Hulk. Sá er einnig brasilískur og heitir í raun og sann Carlos Gabriel Moreira de Oliveira. Það mun vera vegna þess að hann líkist kollega sínum Hulk frekar en ofurhetjunni. Ekki er öll vitleysan eins!

Frakkinn Nicolas Anelka hlaut á sínum ferli gælunafn sem var tilbrigði við Hulk. Sulk kölluðu Bretar kappann sem aldrei hefur þótt með hressari mönnum.

Loks má geta að sum viðurnefni eru meira að segja útúrsnúningur. Nægir þar að nefna Englendinginn Fitz Hall sem lék meðal annars með Crystal Palace og Queens Park Rangers. Gárungarnir kölluðu hann One Size eða Ein stærð. Hvers vegna í ósköpunum? Því verður bara svarað á ensku: One Size Fitz Hall!