Enn eru rúmir tveir mánuðir til jóla, en þau koma víst senn, eins og sjá mátti af því þegar borgarstarfsmenn hófu að strengja upp jólaskraut í miðbæ Reykjavíkur í vikunni. Jólabækur eru farnar að koma út og jólavarningur í stöku búð.
Enn eru rúmir tveir mánuðir til jóla, en þau koma víst senn, eins og sjá mátti af því þegar borgarstarfsmenn hófu að strengja upp jólaskraut í miðbæ Reykjavíkur í vikunni. Jólabækur eru farnar að koma út og jólavarningur í stöku búð. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þingmenn í undirnefnd, sem fer yfir umsóknir um ríkisborgararétt, andæfðu því að þeir hefðu kastað til höndunum við verkið, en vildu ekki heldur ræða um veitingu þingsins á ríkisborgararétti til nokkurra einstaklinga

15.10-21.10

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þingmenn í undirnefnd, sem fer yfir umsóknir um ríkisborgararétt, andæfðu því að þeir hefðu kastað til höndunum við verkið, en vildu ekki heldur ræða um veitingu þingsins á ríkisborgararétti til nokkurra einstaklinga. Sumar þeirra ákvarðana höfðu sætt mikilli gagnrýni.

Fram kom að innan Útlendingastofnunar væri nokkur kergja vegna vinnubragða þingsins, sem veitt hefði ríkisborgararétt fólki, sem áður hefði verið synjað á málefnalegum forsendum, og jafnvel til afbrotamanna, en einn var á leið í afplánun.

Vandræði voru með samgöngur til Vestmannaeyja vegna bilana og viðhalds á Herjólfi IV., en Herjólfur III., sem sigldi í það kjölfar, ristir dýpra og Friðarhöfn oft ófær.

Gæsluvarðhald var framlengt um fjórar vikur yfir tveimur mönnum, sem grunaðir eru um undirbúning hryðjuverks, en þeir eru þó ekki lengur í einangrun.

Flugfélagið Niceair á Akureyri mun senn kynna sumaráætlun sína, en ráðgert er að fljúga oftar til meginlands Evrópu en áður.

Bændur deila um hvað gera skuli við ágangi búfjár á jörðum annara, en umboðsmaður Alþingis og innviðaráðuneytið greinir einnig á um hvernig túlka beri lög þar að lútandi.

Til stendur að uppfylla loftslagsmarkmið með því að senda 50 Íslendinga flugleiðis með þrýstiloftsflugvélum úr áli, sem brenna jarðneytaeldsneyti, til Danmerkur til þess að kynna sér vindorkunýtingu.

Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti komandi landsfund í næsta mánuði og vekur athygli að myndmálið er afskaplega orkuþrungið.

Landstjóri Kanada, Mary Simon, var gestur við Hringborð norðurslóða og sagði mikilvægt að rödd frumbyggja fengi að heyrast. Eyjarskeggjar gerðu góðan róm að máli hennar.

Þrír 14 ára piltar voru handteknir á laugardagskvöld í miðbæ Reykjavíkur eftir að hafa ráðist á fólk með ofbeldi á a.m.k. þremur stöðum og öldungis tilefnislaust. Þeir ógnuðu því líka með hnífum.

Fram kom að ríkisskuldir hefðu aukist um 130 milljarða króna á þessu ári, en þar mun kostnaður vegna heimsfaraldurinn vega þungt. Útgáfa ríkisskuldabréfa hefur gengið vel.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sendi orðsendingu til trúnaðarráðs félagsins og sagði stöðu þess innan Alþýðusambandsins óbreytta og að engin bandalög hefðu enn verið mynduð með öðrum stéttarfélögum í aðdraganda kjarasamninga. Málefni ASÍ yrðu tekin fyrir eftir samninga.

Tökur hófust á þáttaröðinni True Detective, sem sagðar eru marka kaflaskil í kvikmyndagerð hér, enda framleiðslan umfangsmikil og kostnaðarsöm. Stór hluti af skattgreiðslunum verður endurgreiddur til framleiðandans, en ekki verður hægt að horfa á þættina hér á landi, þar sem HBO lokar á Ísland.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, hætti við að bjóða sig aftur fram til embættisins á komandi landsfundi flokksins. Guðmundur Árni Stefánsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, lýsti hins vegar yfir framboði sínu.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins býður nú gjafabréf til kaups, sem vafi leikur á um að standist áfengislög. Þau kveða á um að markmið þeirra og þar á meðal með einokunarverslun ríkisins sé að „vinna gegn misnotkun á áfengi“.

Jómfrúin færir senn út kvíarnar með útibúum í bæði Leifsstöð og Borgarleikhúsinu.

Aukin skjálftavirkni mældist í Mýrdalsjökli og vildu jarðvísindamenn hvorki útiloka að á bresti jökulhlaup né eldgos á þeim slóðum.

Í sama mund var haldin á Húsavík ráðstefna um jarðskjálfta á Norðurlandi, þar sem menn töldu að hafnarbylgja eða tsunami gæti myndast við jarðskjálfta á Skjálfanda.

Karitas H. Gunnarsdóttir, fv. skrifstofustjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, lést 62 ára.

Atvinnulífið virðist skjótt hafa komist yfir heimsfaraldurinn, en velta helstu atvinnugreina landsins hefur aukist um tugi prósenta milli ára. Þá hefur hátt álverð ekki sakað.

Forysta Kirkjuþings gerði athugasemdir við að í fjárlagafrumvarpinu sé enn gert ráð fyrir lækkun sóknargjalda til sóknanna, en ríkissjóður heldur meira eftir. Eru þó um 30 sóknir sagðar „tæknilega gjaldþrota“.

Bylting í gerð snjallsíma og ör þróun á þeim vettvangi hefur orðið til þess að þeir úreldast hratt, en við endurvinnslu þeirra má endurheimta fágæta málma og gera spilliefni óvirk. Sárafáir símar eru endurunnir hér á landi þó snjallsímanotkun sé óvíða meiri.

Barna- og menntamálaráðherrann Ásmundur Einar Daðason boðaði viðamiklar breytingar á menntakerfinu án þess þó að þar mætti finna tillögur um breytingar á menntun. Virðist helst sem hann vilji breyta ráðuneytinu í félagsmálaráðuneyti barna.

Hlutfall erlendra ríkisborgara í Reykjavík er nú um 20%, en aðflutningur til útlendinga landsins ber uppi íbúafjölgun. Íbúar hér eru um 380 þúsund talsins, þar af um 55 þúsund erlendir borgarar.

Fjórar kærur hafa borist vegna fyrirætlana um þörungaverksmiðju í Stykkishólmi, annars vegar vegna þess að deiliskipulag liggi ekki fyrir og hins vegar hafa einhverjir áhyggjur af hljóði og lykt þaðan. Ískrið í hjólum atvinnulífsins ætlar suma að æra.

Kynnt var skýrsla verkfræðistofunnar Eflu, sem telur að efnahagslegur ávinningur orkuskipta sé um 1.400 milljarðar króna og munar víst um minna.

Dæmi eru um að hælisleitendur, sem synjað hefur verið um hæli, komi aftur til landins með ný skilríki og nýtt nafn og sæki aftur um vernd.

Tveir stjórnarandstöðuþingmenn sögðu augljóst að ríkisstjórnarsamstarfið væri örðugra en áður og bentu sérstaklega á útlendingamál og orkumál því til staðfestingar.

Af einhverjum ástæðum var Dagur breytingaskeiðsins haldinn hátíðlegur.

Fyrirætlanir Reykjavíkurborgar um stóreflis auglýsingaskilti á Klambratúni mættu litlum fögnuði íbúa þar í kring.

Sauli Niinistö Finnlandsforseti kom í opinbera heimsókn og var hvarvetna fagnað.

Alls hefur fundist mygla í 24 skólum í Reykjavík, 14 leikskólum og 10 grunnskólum. Fimm skólar eru lokaðir að hluta eða í heild af þessum sökum.

Til stendur að leggja síðasta bókabíl Borgarbókasafnsins fyrir fullt og fast, Kjalnesingum til armæðu.

Kópavogur vill henda móttökustöð Sorpu á Dalsvegi, sem bæjaryfirvöld telja að falli illa inn í umhverfið, en auk þess er mikil þörf á byggingarlóðum í bænum.

Um þriðjungur bílaflota landsmanna er innan við fimm ára gamall.

Jólaskraut var sett upp í miðbæ Reykjavíkur.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra greindi frá því að vinda yrði ofan af vanda ÍL-sjóðs, en við honum blasir botnlaust tap næstu áratugi og jafnvel gjaldþrot, sem skattgreiðendur munu þola að óbreyttu. Til stendur að leita samninga við lánardrottna, sem sparað gæti ríkissjóði 150 milljarða króna. Ella þurfi að hefja slitameðferð sjóðsins.

Lítið var talað fyrir samfélagsbönkum þann daginn.