— Morgunblaðið/Eggert
Hann hefur löngum þótt heldur tilgerðarlegur, frasinn um að vika sé langur tími í pólitík. Það á jú almennt við um flest í tilverunni þegar eitthvað óvænt gerist án þess að gera boð á undan sér.

Hann hefur löngum þótt heldur tilgerðarlegur, frasinn um að vika sé langur tími í pólitík. Það á jú almennt við um flest í tilverunni þegar eitthvað óvænt gerist án þess að gera boð á undan sér.

En forsætiráðherrann Harold Wilson, sem mun fyrstur hafa haft orð á fyrirbærinu, þótti þetta gott hjá sér og lengi hefur hann verið klappaður upp með það síðan. En aldrei hefur forsætisráðherratíðin liðið hraðar í Bretaveldi en í tilviki Liz Truss núna. Hin elskaða drottning, Elísabet II., notaði sína síðustu krafta á einstaklega langri og velheppnaðri valdatíð til að skipa hana þriðju konuna sem sitja skyldi í öndvegi í Downingstræti tíu, og þarf ekki að minna á, að það var auðvitað Elísabet sem hafði sjálf skipað konurnar þrjár í embætti, enda höfðu valdhafarnir á undan henni, allt frá árinu 1066, aldrei fengið nein tilmæli um slíkt og þvílíkt. Voru tvær konur þó forðum næstum jafn þaulsetnar í hásæti og hin dáða drottning. Elísabet I. sló ekki af, og enn síður Viktoría, langalangamma Elísabetar II., þeirrar sem ríkti lengst þeirra þriggja, og þær þrjár sameiginlega í 180 ár. Sé sú valdatíð svo borin við samanlagt valdaskeið forseta Bandaríkjanna, þá þarf að byrja á forsetatíð George Washington og svo 37 forseta eftir hann, allt til Richards Nixon 1969!

En hvers vegna í ósköpunum fór svona fyrir Liz Truss?

Það gæti verið varasamt að gefa sér niðurstöðuna um það, hvers vegna svo illa fór, á meðan öll kurl eru ekki komin til grafar. Hætt er við að ýmsar kenningar um það verði í besta falli ágiskanir. Valdatíminn stóð í 6-7 vikur eða svo og þriðjungur þess tíma fór í að standa sína plikt við magnþrungna útför Elísabetar II. Ekki varð annað séð en að nýbakaður forsætisráðherrann hefði gert sitt af gætni og prýði og það hjálpaði að hún var ekki í neinu aðalhlutverki þessar fyrstu vikur, enda hafði ekki þýtt í sjötíu ár að keppa um ljósgeislana við Elísabetu II. og það gilti, hvort sem sú góða kona var lífs eða liðin.

En sé leitað afsökunar, eða skýringa, á atburðarásinni sem endaði með því að Liz Truss hrökklaðist svo hastarlega auðmýkt úr hinu háa embætti, þá virðast nokkur atriði blasa við, þótt síðar verði að sökkva sér niður í þau. Það er engin eftiráspeki sem segir okkur nú að þingmenn og flokksmenn, sem völdu Truss að lokum til að taka við af Boris Johnson, sem bolað hafði verið frá með fautaskap, hafi brugðist í sínu vali. Það vita þeir sem fylgdust með þeim slag, sem var lýjandi og reyndi mjög á „keppinautana,“ og einkum þá sem að lokum stóðu tveir eftir. Í einvíginu, sem fram fór eftir að þingflokkur Íhaldsins hafði hent öðrum keppendum út, var leitað endanlegs úrskurðar skráðra félaga í flokknum. Þeir voru sagðir um 200.000 talsins. Þá upplýstist loks að mikill meirihluti flokksbundinna var algjörlega upp á kant við þá þingmenn sem boluðu Boris Johnson frá. Þegar þeir voru spurðir í könnunum um afstöðu til keppinautanna Truss og Sunaks, fyrrverandi fjármálaráðherra, þá var fremur mjótt á munum. En þegar spurt var hvernig þeir myndu greiða atkvæði ef Boris Johnson væri í framboði gegn Truss annars vegar eða Sunak hins vegar voru svörin þessi: B. Johnson 63% og Truss það sem út af stóð, og B. Johnson 65% og Sunak það sem út af stóð. Ekki er útilokað að þessar sláandi tölur hafi breyst eitthvað eftir að Liz Truss féll svona líka slysalega fyrir borð. Það er ekkert nú sem bendir til þess að keppinauturinn Sunak, sem flokksfélagarnir höfnuðu, hefði reynst betur. Vinnubrögðin gagnvart Boris Johnson skildu eftir óbragð í munni almennra flokksfélaga. Og eins má spyrja nú, hvaða máli fyrrnefndar tölur skipta í þeirri ólánlegu stöðu sem breski Íhaldsflokkurinn hefur bersýnilega komið sér í.

Hvað felst í tölunum?

Og svarið er helst það, að þessar tölur geta gefið þeim, sem eru vel læsir á slíkar, gagnlegar upplýsingar. Í fyrsta lagi segja þær að þingflokkurinn var á allt öðru róli en hinir tryggu flokksmenn. Þeir áttuðu sig á hve léttvægt fjas þingflokksins var, sem sá hluti hans, sem hatast við Boris vegna Brexit, ól á og ýtti undir, um hina hræðilegu glæpi, gott ef ekki gegn mannkyninu, þegar Boris fékk sér bjórglas í lokuðum garði hússins nr. 10, þar sem hver einasti maður var a.m.k. þríbólusettur. Vísindamennirnir austan hafs og vestan höfðu margoft gefið það upp sem heilagan alsannleik að væru menn bólusettir, og jafnvel aðeins einu sinni, þá fengju þeir ekki veiruna og það sem meira væri, þeir smituðu ekki aðra. Það var á þessum grundvelli sem Bandaríkjastjórn hóf herferðina ógeðfelldu gegn „óvinum þjóðarinnar,“ sem voru þeir sem neituðu að láta bólusetja sig, m.a. af trúarástæðum. Ungir hermenn, sem neituðu sprautu, voru reknir úr hernum, þeir sömu sem höfðu fylgt samvisku sinni með því að ganga í herinn og fórna vildu lífi sínu, ef það þyrfti, fyrir land sitt og þjóð. Með því að neita sprautu voru þeir, að sögn sjálfs forseta Bandaríkjanna, hættulegustu óvinir þjóðarinnar! Stjórnmálamennirnir öpuðu flestir gagnrýnislaust eftir misvísandi yfirlýsingar „vísindamanna“ sem fæstir mótuðu sér sjálfstæða skoðun, en endurtóku fullyrðingar háttsettustu gauranna á girðingunni, hvort sem þeir voru hjá WHO, með sitt vafasama álit, eða voru í ól dr. Faucis, sem ráðskast hefur með öll þessi mál vestra í áratugi! Bandaríkjamenn hafa enn tilhneigingu til að horfa til forseta síns og það þótt þeir fylgi ekki pólitískri leiðsögn hans við kjörborðið. Allar yfirlýsingar Bidens forseta voru hafðar upp úr æðstuprestum vísindanna um að bólusettum væri óhætt. Þeir fengju ekki fárið og þeir smituðu ekki. Nú hefur Biden, sem þetta tuggði í tíma og ótíma, fengið veiruna vondu sennilega fjórum sinnum og hefur verið sprautaður oftar en það. Hvorki hann né „vísindamennirnir,“ sem hann byggði allt sitt á, hafa beðið nokkurn mann afsökunar á að hafa hvað eftir annað farið með fleipur og haft almenning fyrir rangri sök.

Stóra málið var gervismíð

Þingmennirnir í flokki Borisar, „viðþolslausir af öfund“ út í sigur hans í Brexit, eru engir bjálfar. Þeir vissu hver og einn að atvikið í lokuðum garði þinghússins var hreint aukaatriði til að koma klofbragði á Boris. Það dugði. Þeir náðu honum með því. Æðstu prestar og helstu útsendarar klíkunnar, sem á ekkert annað pólitískt markmið í lífinu en að koma Bretlandi löskuðu á ný, með takmarkað fullveldi ofan í Brussel-fenið, gátu vart hamið gleði sína. Einn veikasti forsætisráðherra úr röðum Íhaldsflokksins á síðari tímum, John Major gat tekið gleði sína á ný með niðurlægingu Borisar, þótt það þýddi ekki endilega að læða mætti Stóra-Bretlandi inn í ESB.

Svo svarað sé spurningunni um það, hvers vegna svör flokksbundinna Íhaldsmanna geti skipt sköpum við þessar óvenjulegu aðstæður, sem uppi eru í flokki þeirra nú, skal þetta nefnt: Tíminn sem flokkurinn hefur er mjög naumur, og býður ekki upp á nýjar burtreiðar keppenda úr þingflokknum og því síður kappræður á milli þeirra tveggja sem einir standa loks frammi fyrir flokksbundna fólkinu sem á síðasta orðið. Það „apparat“ innan flokksins sem ákveður hvernig haga skuli kjöri leiðtoga hans og þar með forsætisráðherra (eins og á stendur) við þessar einstæðu aðstæður, segir að flokkurinn hafi viku til að velja sér nýjan formann!

Það dugi til að láta þingflokkinn kjósa. En reglugerðarmenn vita að þeir komast ekki upp með að gefa almennum flokksmönnum fingurinn á ný, með sérlega ósvífnum hætti. Það yrði aldrei fyrirgefið. Því ákveða reglurnar nú að fái aðeins einn þingmaður 100 atkvæði eða fleiri í þingflokkskjöri, þá telst sá hinn sami réttkjörinn leiðtogi og verði forsætisráðherra daginn eftir. Fái fleiri en einn þingmaður 100 atkvæði eða fleiri þá muni fara fram netkosning á milli þeirra tveggja og þar kjósa flokksbundnir einir. Lítill vafi var á hvernig slagur á þeim vettvangi hefði farið ef Boris hefði verið í kjöri gegn öðru hvoru, Truss eða Sunak, þegar hún var kjörin. Enn þykir mörgum félögum flokksins að Boris hafi verið illa svikinn. „Hann bjargaði Brexit fyrir okkur,“ segja þeir. „Hann knúði fram óvæntar kosningar,“ bæta þeir við. „Og Boris er fæddur sigurvegari. Það sanna dæmin. Þess vegna höfum við svona öflugan þingmeirihluta núna, sem við höfðum ekki haft frá því að frú Thatcher var og hét.“

Þörfin fyrir sigurvegara mikilvægust

Eftir tilræðið við Boris og það sem gerðist nú síðast, er það haft í flimtingum að nýjasta könnun bendi til þess að ekki sé útilokað að Íhaldsflokkurinn fengi aðeins EINN þingmann kjörinn væri kosið í Bretlandi nú! Bréfritari hefur ekki séð þá könnun eða aðra slíka. En hann hefur séð að stuðningsmönnum flokksins er víða enn heitt í hamsi.

Þingmennirnir sem fóru í leiðtoga flokksins þegar að hann hafði enginn tök á að hverfa heim frá mikilvægum alþjóðlegum erindum, höfðu uppi þær sakargiftir að sá væri ólíkindatól sem skapaði óróleika innan flokks og veikti tiltrú flokksins út á við. En áköfustu stuðningsmenn Borisar svöruðu á móti að þetta væru sömu frasarnir og flokkseigendafélagið hafði lengst af haft á móti – já hverjum? – Winston S. Churchill!

En hinir „viðþolslausu“ í þingflokki Borisar hafa sýnt á spilin sín. Fréttaskýrendur telja einsýnt að Boris muni fá yfir 100 atkvæði í þingflokknum. Þá er „boltinn“ hjá almennum flokksmönnum. Og fáir efast um úrslitin þegar almennir flokksmenn eiga síðasta orðið. Jafnvel hatursmenn Borisar í þingflokknum telja það skömminni skárra að tryggja að einungis Boris fái meira en 100 atkvæði þar. Þá yrði Boris sjálfkrafa leiðtogi og forsætisráðherra á ný. En niðurlæging andstæðinga hans í þingflokknum yrði enn verri ef hinn almenni flokksmaður tæki völdin af þingflokknum og endurreisti sinn fallna foringja. Þá neyddust andófsmenn í þingflokki til að hafa sig hæga. En ítreka skal, að þótt því sé haldið á lofti að „vika sé langur tími í pólitík“ þá er ekki útilokað að 4-5 dagar geti verið það líka. Því er rétt að ganga út frá því að allt geti gerst.