Guðjón Hreinn Hauksson er formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðjón Hreinn Hauksson er formaður Félags framhaldsskólakennara.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef mikla unun af að lesa. Ómissandi finnst mér að lesa helst kortér til hálftíma uppi í rúmi fyrir svefninn og oft kemur fyrir að við hjónin fáum að trufla lestur hvort annars með því að deila einhverju áhugaverðu sem við erum að lesa hverju sinni

Ég hef mikla unun af að lesa. Ómissandi finnst mér að lesa helst kortér til hálftíma uppi í rúmi fyrir svefninn og oft kemur fyrir að við hjónin fáum að trufla lestur hvort annars með því að deila einhverju áhugaverðu sem við erum að lesa hverju sinni. Það finnst mér dásamlegt.

Síðustu skáldsögurnar sem ég hef verið að lesa eru bækurnar Inngangur að efnafræði eftir Bonnie Garmus, Vanessa mín myrka eftir Kate Elizabeth Russell og Kjörbúðarkonan eftir Sayaka Murata.

Þetta eru mjög ólíkar bækur en allar fjalla þær um baráttu kvenna í samfélagi sem er þeim óvilhallt. Þessar bækur höfðuðu allar mjög sterkt til mín og ég get ekki annað en mælt með þeim öllum. Inngangurinn að efnafræðinni er mjög fyndin frásögn en undirtónninn er þó mjög alvarlegur. Kjörbúðarkonan er alger veisla að lesa; dásamlega margræð og vel þýdd. Mín myrka Vanessa er mjög strembin og miskunnarlaus lesning sem dregur upp átakanlega mynd af sálarangist þolanda kynferðislegs ofbeldis og glímunni við að halda uppi heillegri sjálfsmynd.

Bækur um félagsleg málefni, menntun, málefni kynjanna, stjórnmál, sögu og heimspeki hafa þó haft yfirhöndina undanfarið, bæði á pappír og í hljóðbókarformi.

Þar vil ég nefna bókina Human Kind, þar sem Rutger Bregman færir margvísleg sannfærandi rök fyrir því að mannskepnan sé í sínu dýpsta eðli góðviljuð, finni til samúðar og að hjálpsemi sé henni í blóð borin; nokkuð sem er aldeilis dýrmætt að hafa í huga um þessar mundir.

Næst bendi ég á bókina The Constitution of Knowledge eftir Jonathan Rauch. Þar heldur Rauch uppi mjög sterkum vörnum fyrir sannleikann og samfélög sem vilja byggja á gagnreyndum staðreyndum frekar en falsfréttum og afneitun staðreynda á þeim grunni að þær geti grafið undan göfugum hugsjónum.

Bókin Cynical Theories, þar sem Helen Pluckrose og James Lindsay takast á við áhrif póstmódernískra kenninga á jafnréttisbaráttu nútímans og fræðasamfélagið er einnig mjög áhugaverð.

Nú bíð ég spenntur eftir bókinni The Rediscovery of Teaching eftir Gert Biesta með póstinum. Biesta er einn virtasti menntunarheimspekingur nútímans og mér þykja sjónarmið hans um kennslu og hlutverk kennara sérlega mikilvæg í samfélagi sem lítur sífellt meir á skóla sem þjónustustofnanir.