Marta Lovísa Noregsprinsessa og Durek Verrett eru trúlofuð. Hann er heilari og samband þeirra fellur ekki í kramið hjá Norðmönnum.
Marta Lovísa Noregsprinsessa og Durek Verrett eru trúlofuð. Hann er heilari og samband þeirra fellur ekki í kramið hjá Norðmönnum. — AFP/Lise Åserud
Ósló. AFP. | Prinsessan talar við engla og elskar sjálfskipuðan heilara, sem selur lækningamyntir. Þau eru ekki í neinum vafa um samband sitt, en gengur treglega að vinna hugi og hjörtu Norðmanna

Ósló. AFP. | Prinsessan talar við engla og elskar sjálfskipuðan heilara, sem selur lækningamyntir. Þau eru ekki í neinum vafa um samband sitt, en gengur treglega að vinna hugi og hjörtu Norðmanna.

Marta Lovísa er 51 árs, fráskilin dóttir norsku konungshjónanna. Líf hennar hefur tekið nýja stefnu eftir að hún tók saman við Durek Verret, sem er vinsæll gúrú í Hollywood. Meðal viðskiptavina hans og fylgjenda eru stjörnur á borð við Gwyneth Paltrow og Antonio Banderas.

Í júní tilkynntu þau trúlofun sína og fengu blessun Haralds konungs. Norðmenn hafa hins vegar átt erfitt með að kyngja sambandi þeirra. Ein ástæðan er sú að Verret gefur í skyn í bók sinni Spirit Hacking að krabbamein sé val. Hann hefur einnig mælt með æfingum fyrir konur til að fjarlægja „ummerki“ af kynfærum sínum um fyrri elskhuga.

Þá selur hann á heimasíðu sinni myntir – fyrir 222 dollara – sem kallast „andamagnarar“ og hann heldur fram að hafi hjálpað sér að komast yfir kórónuveiruna.

Norðmenn eru þekktir fyrir að vera jarðbundnir og finnst lítið til alls þessa koma.

„Hann er svikari, loddari og glæpamaður,“ segir dálkahöfundurinn og grínistinn Dagfinn Nordbo.

Í könnun, sem gerð var í september, kom í ljós að velþóknun á konungsfjölskyldunni hefur dregist saman um 17 prósentustig og sögðu nánast allir að ástæðan væri prinsessan og seiðmaðurinn.

Þessi gagnrýni sprettur fram á sama tíma og deilt er um hlutverk konungdæma víða í Evrópu og konungshirðir í nokkrum löndum hafa lýst yfir fyrirætlunum um nútímavæðingu og sparnað.

Skorið hefur verið niður í Danmörku og Svíþjóð og hermt er að Karl Bretakonungur sé í sömu hugleiðingum.

Konungsfjölskyldan í Noregi hefur notið víðtæks stuðnings og er það að miklu leyti rakið til þess hvað hún er jarðbundin. Haraldur konungur, sem nú er 85 ára, kvæntist konu sem ekki er af kóngaættum og er þekktur fyrir að vera í takti við þau gildi sem eru ríkjandi meðal Norðmanna.

Verrett segist skilja að trú sín og skoðanir falli ekki kramið, en kveðst vera fórnarlamb rasisma. Verrett er svartur og hefur málflutningur hans þótt minna á kvartanir Meghan Markle eftir að hún giftist inn í bresku konungsfjölskylduna.

„Hvítt fólk skrifar allt þetta hatur og dauðahótanir og allt þetta dót af því að við erum saman því að … það vill ekki sjá svartan mann í konungsfjölskyldunni,“ sagði hann í myndskeiði sem sett var á Instagram 9. júní.

Marta Lovísa segir að hún hafi orðið fyrir „verulegu áfalli“ að sjá hvernig komið er fram við hann, „svart fólk og litt fólk“.

Fabian Stang, fyrrverandi borgarstjóri Óslóar, er einn af þeim fáu sem lýst hafa yfir stuðningi við parið. „Það er of langt gengið að selja myntir sem eiga að bæta heilsuna … en það er undarlegt að svo margir af þeim sem hata Durek höfðu ekkert á móti Snasa-manninum,“ skrifaði hann á Facebook og vísaði þar til frægs, norsks trúarheilara sem lést í fyrra. „Ættum við árið 2022 ekki að taka Durek opnum örmum og bjóða honum til alvarelgra umræðna um mörkin milli vísinda og pretta?“

Hvað sem því líður er rúmlega helmingur Norðmanna á því að Marta Lovísa eigi að afsala sér prinsessunafnbótinni, ef marka má nýlegar kannanir.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Marta Lovísa, sem er fjórða í krúnuröðinni í Noregi á eftir bróður sínum Hákoni krónprins og börnum hans tveimur, vekur deilur.

Hún er gefin fyrir náttúrulækningar og kveðst geta átt samtöl við engla. Þeirri gáfu hefur hún deilt með almenningi í bókum og á námskeiðum og hagnast eitthvað um leið.

Hún hefur ekki verið ávörpuð „yðar konunglega hátign“ frá 2002 er hún dró sig í hlé frá konunglegum skyldum til að vera miðill. 2019 samþykkti hún að hætta að nota prinsessunafnbótina í ábataskyni.

„Konungsfjölskyldan á að vera sameiningarafl. Vandinn er að Martha Lovísa og Durek Verret eru hið gagnstæða: umdeild og sundrandi með grunsemdum um loddaraskap,“ sagði Trond Noren Isaksen sagnfræðingur. „Flestir Norðmenn fyrirlíta að hægt sé að græða peninga á því sem þeir telja rugl og sé með stimpil prinsessu.“

Samkvæmt slúðurblöðum hafa Haraldur konungur, Marta Lovísa og Hákon krónprins haldið neyðarfundi um það hvort prinsessan eigi að halda titli sínum. Konungurinn hefur hingað til lítið viljað segja um tilvonandi tengdason sinn, en hefur notað orðið „menningarárekstur“.

Isaksen segir að konungshjónin þurfi að láta tvennt ganga upp, annars vegar að vera foreldrar „sem vilji að börn þeirra lifi hamingjusömu lífi“, hins vegar að „verja krúnuna svo hún muni áfram skína skært önnur þúsund ár“.