[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir á að hyggja segja hjónin tímann á Hólmaströnd hafa verið eins og samfellt sumarfrí í þrjú ár, þannig að hugurinn leitaði alltaf út aftur enda þótt þeim liði ljómandi vel á Íslandi.

Skömmu eftir efnahagshrunið 2008 voru hjónin Sandra Vestmann og Magnús Magnússon stödd í veislu úti í bæ ásamt níu ára gamalli dóttur sinni, Telmu Björk. Nokkur barlómur var í veislugestum, enda hafði mikið gengið á, og fólk sagði upp til hópa farir sínar ekki sléttar; þessi var að missa húsið, hinn bílinn og þar fram eftir götunum. Litla samfélagsrýninum, Telmu Björk, ofbauð þetta og á leiðinni heim mælti hún stundarhátt við foreldra sína: „Ég nenni þessu ekki lengur! Það eru allir svo neikvæðir hérna á Íslandi.“

Þetta varð til þess að foreldrar hennar fóru að velta vöngum. „Heyrðu, þetta er alveg rétt hjá stelpunni. Neikvæðnin ræður hér ríkjum.“ Niðurstaðan varð sú að að þau settu húsið sitt á leigu og fluttu til Noregs. Nánar tiltekið til bæjarins Holmestrand eða Hólmastrandar við Óslóarfjörð.

„Sjálf höfðum við ekki misst neitt, margir höfðu það verra en við, og vorum ekki að flýja neitt nema andrúmsloftið sem orðið var verulega þrúgandi. Við erum í grunninn ævintýrafólk, sérstaklega þegar ég er í maníu,“ útskýrir Sandra hlæjandi.

„Það þarf smá ADHD til að halda manni lifandi,“ bætir Magnús við sposkur.

– Hvers vegna Noregur?

„Tvær æskuvinkonur mínar búa þar; ætli það hafi ekki ráðið mestu,“ svarar Sandra en þau höfðu rætt þessa hugmynd áður, löngu fyrir hrun.

Bæði voru fljót að fá vinnu ytra; hann sem vélstjóri og hún við aðhlynningu á hjúkrunarheimili. Hvorugt þeirra talaði tungumálið en samt var auðvelt að aðlagast. „Okkur var strax leiðbeint með allt sem við þurftum. Öll réttindi, skattamál og annað slíkt. Það var greinilegt að fólk vildi fá okkur. Það munar mikið um þannig viðmót þegar maður kemur á nýjan stað,“ segir Sandra og Magnús bætir við: „Það var vel tekið utan um okkur.“

Fyrstu tvö árin er aðlögunarskattur svokallaður. Fólk greiðir þá 20% skatt af launum og eingöngu vextina af húsnæðisláninu og lánið stendur í stað, engar verðbætur eða verðtrygging á lánið þessi tvö ár. „Maður hafði aldrei heyrt um slíkt,“ segir Magnús og bætir við að Norðmönnum þyki margt undarlegt við lánakerfið á Íslandi. „Er þessi verðtrygging virkilega lögleg?“ spyrja þeir upp til hópa.“

Dóttirin var eins og svampur

Sandra ákvað fljótlega að ljúka hárgreiðslunámi sem hún hafði hafið hér heima og eftir það opnaði hún hárgreiðslustofu ásamt íslenskri vinkonu sinni. Þá var norskan orðin henni þokkalega töm. Magnús var líka farinn að geta bjargað sér og Telma Björk altalandi. „Hún var eins og svampur,“ segir Magnús. „Hún eignaðist líka strax vini og leið mjög vel.“

Öll fundu þau sig vel ytra en viðurkenna þó að þau hafi saknað fjölskyldu og vina heima á Íslandi. „Aðallega foreldra okkar,“ segir Sandra. „Við systir mín erum líka mjög nánar en það er bara ár á milli okkar.“

Skjótt skipast hins vegar veður í lofti. Á ferðalagi í Frakklandi árið 2010, innan við ári eftir að þau fluttu út, fór Sandra að finna fyrir óþægindum í hálsi. Þegar heim til Hólmastrandar var komið var hún svo greind með krabbamein. Meðal lækna sem meðhöndluðu hana var Íslendingurinn Birgir Briem. „Þetta er krabbamein sem er algengt meðal reykinga- og drykkjufólks en ég hafði hvorki reykt né drukkið í 30 ár.“

Við tóku bæði lyfja- og geislameðferð sem Sandra svaraði strax ágætlega. Hún kveðst aldrei hafa þurft að taka upp veskið í sambandi við krabbameinsmeðferðina og henni var meira að segja boðinn ókeypis leigubíll til Óslóar, en þangað þurfti hún að fara nokkra daga í viku í hálfan annan mánuð. Á því þurfti hún hins vegar ekki að halda vegna þess að Magnús ók henni alltaf. „Ég var rosalega heppin að þurfa ekki að leggjast inn meðan á meðferðinni stóð,“ segir Sandra.

Eins og samfellt sumarfrí

Enda þótt meðferðin gengi vel fór Sandra að velta fyrir sér að betra væri að vera nær stórfjölskyldunni í veikindum sem þessum og hugsaði þá sérstaklega til dóttur sinnar sem hefði þá traustara bakland. Það varð öðru fremur til þess að fjölskyldan flutti aftur heim árið 2012 en einnig spilaði inn í að foreldrar bæði Magnúsar og Söndru voru orðnir fullorðnir.

„Telma var að vísu ekkert hrifin af þessu, kunni svo vel við sig úti, en við seldum henni hugmyndina með því að lofa að flytja aftur út fljótlega ef við fíluðum okkur ekki á Íslandi,“ segir Sandra. „En hún er eins og kameljón; aðlagaðist strax heima.“

Eftir á að hyggja segja hjónin tímann á Hólmaströnd hafa verið eins og samfellt sumarfrí í þrjú ár, þannig að hugurinn leitaði alltaf út aftur enda þótt þeim liði ljómandi vel á Íslandi.

Eftir stúdentspróf 2019 fór Telma að líta í kringum sig eftir framhaldsnámi og óhætt er að segja að engum hafi brugðið þegar hún sótti um leiklistarskóla í Ósló. Hún komst inn og er þar nú á lokaári.

Telma er komin með kærasta frá Larvík, nágrannabæ Hólmastrandar, Ísak að nafni, og fjölskylda hans mun vera mjög ánægð með þjóðerni hennar; með afa Ísaks fremstan í flokki. „Foreldrar hans ætluðu að koma til Íslands núna í október til að heimsækja okkur,“ segir Sandra.

Óhagstætt gengi KR

Já, ætluðu. Sandra og Magnús ákváðu nefnilega í millitíðinni að flytja aftur til Hólmastrandar. Við sitjum saman í Reykjavík tveimur dögum fyrir brottför.

„Við erum búin að fá nóg af veðrinu á Íslandi; ég meina það fauk bátur upp í fjöru í Keflavík í fárviðrinu í september,“ segir Magnús. „Það er líka önnur ástæða.“

– Nú?

„Gengi KR.“

– Ha, KR?

„Já, þeir eru alveg búnir að gera upp á bak.“

Hann glottir.

Magnús er sumsé grjótharður KR-ingur og góðu vanur gegnum tíðina. Vinnufélagar Söndru misskildu þetta að vísu eitthvað. „Já, auðvitað. Þið eruð búin að fá nóg af gengi íslensku krónunnar,“ gall í þeim en Knattspyrnufélag Reykjavíkur og krónan eru sem kunnugt er skammstöfuð með sama hætti.

Svo skemmtilega vill til að knattspyrnufélagið á Hólmaströnd klæðist nákvæmlega eins búningum og KR, röndóttum svarthvítum.

Að öllu gríni slepptu þá er það auðvitað dóttirin sem togar öðru fremur í foreldra sína en þau sjá fyrir sér að hún verði áfram í Ósló eftir útskrift úr leiklistarskólanum. Þá eru foreldrar Magnúsar og Söndru nú látin, mæður þeirra dóu í fyrra, og ekki eins mikið sem heldur lengur í.

Fjölskyldan fékk sér þrjá ketti í Noregi á sínum tíma sem fylgdu henni til Íslands. Ekki ná þeir þó að snúa heim aftur enda nýbúnir að kveðja.

Með trufluðu útsýni

Að þessu sinni ákváðu þau að selja íbúðina sína á Íslandi, 128 fm að stærð, og fengu fyrir hana 90 milljónir króna. Í staðinn keyptu þau 220 fm timburhús á Hólmaströnd á 58 milljónir króna. „Það þýðir að við munum eiga húsið skuldlaust og erum með nóg fé til að gera það upp,“ segir Sandra en húsið þarfnast nokkurrar andlitslyftingar. „Við erum hæstánægð með húsið enda er það á æðislegum stað með trufluðu útsýni,“ segir Sandra en þau keyptu húsið án þess að skoða það á staðnum. Það reyndist standa undir væntingum. Og rúmlega það. Það staðfesta þau síðar við Sunnudagsblaðið.

Smærri íbúð með sérinngangi er á neðri hæð hússins sem hjónin ætla að leigja út. Þau segja skattaumhverfið hagstætt í því sambandi því ekki er greiddur skattur af leigutekjum í Noregi ef innan við 50% af eigninni eru leigð út.

Þau segja verð á matvöru svipað í Reykjavík og á Hólmaströnd en margt sé ódýrara ytra. Þannig fann Magnús nýverið veggjaskanna frá Bosch á 12.000 kr. í Noregi en sama græja ku kosta 60.000 kr. hér. „Hvernig er hægt að réttlæta þetta?“ spyr hann.

Greiðvikni er Norðmönnum líka í blóð borin og sem dæmi má nefna að bílasalinn sem seldi Söndru bíl mun keyra í fjóra tíma til að afhenda henni bílinn á Gardermoen-flugvelli.

– Þarftu nokkuð að skutla honum til baka?

„Það vona ég ekki.“

Hún hlær.

Loka á mínútunni

Norðmenn eru þó stífari en Íslendingar þegar kemur að yfirvinnu og lokun verslunar og þjónustu á daginn. „Maður fær ekki afgreiðslu rétt fyrir lokun á kaffihúsum. Við komum á kaffihús með Telmu rétt fyrir lokun á Þorláksmessu en það var ekki að ræða að afgreiðslukonan myndi afgreiða okkur. Norðmenn hætta alltaf á slaginu og ekki séns að þeir vinni yfirvinnu,“ segir Sandra. „Við vorum með opið frá 8-19 á hárgreiðslustofunni en það þekkist ekki í Noregi.“

Magnús rak Retró Café vestur á Granda og hjónin hafa að auki frá 2005 flutt inn kaffi og kaffivélar. „Við erum mjög mikið kaffifólk,“ segir Sandra.

– Er góð kaffimenning í Noregi?

„Hún var léleg en er að skána,“ svarar Magnús.

Sandra vann sem fasteignasali og mun gera áfram. „Við erum að flytja inn hús frá Titanica og ég get hæglega sinnt starfi mínu áfram frá Noregi,“ segir Sandra sem er 59 ára að aldri.

Magnús er níu árum eldri og ætlar bara að fara að leika sér ytra, eins og hann orðar það. „Hann er kominn …“ byrjar Sandra og Magnús botnar setninguna: „… á grafarbakkann.“

Þau hlæja en sennilega hefur hún ætlað að segja „á eftirlaunaaldur“.

„Ég þarf að byrja á því að gera við húsið,“ segir Magnús.

– Þú getur það sjálfur?

„Já, hann getur mjög margt,“ svarar Sandra fyrir hans hönd, „sérstaklega þegar ég leiðbeini honum.“

Þau skellihlæja.

Stónsari inn að beini

Annars óttast Magnús ekki að sér komi til með að leiðast enda plötusafnið með í för. Hann er Stónsari fram í fingurgóma. „Það er það sem heldur mér lifandi,“ segir hann og færist allur í aukana. KR er líka Keith Richards og MJ bæði Mick Jagger og Maggi júníor. Þetta voru fyrirmyndirnar.“

Hann fæddist KR-ingur en þakkar bróður sínum, sem er fjórum árum eldri, fyrir að hafa kynnt sér Stones. „Það var það besta sem hann hefur gert fyrir mig.“

Þegar þau Sandra gengu í heilagt hjónaband 9. mars 1996 lék Szymon heitinn Kuran Stoneslagið Angie á fiðlu í athöfninni. Á efnisskrá þann góða dag voru líka Ísland er land þitt eftir Magnús Þór Sigmundsson og Wonderful Tonight eftir Eric Clapton.

Þau kynntust 1988. „Maggi bauð mér í bíó og skutlaði mér heim á eftir. Ég hef ekki losnað við hann síðan,“ segir Sandra létt í bragði.

Hús í gamaldags stíl

En aftur til Noregs. Bæjarstæði Hólmastrandar við sjávarsíðuna er heillandi og kyrrðin næstum áþreifanleg. Hólmaströnd fékk kaupstaðarréttindi árið 1752 en þar hefur verið höfn frá því á miðri sextándu öld, sem þjónaði því hlutverki að flytja út timbur til fjarlægra landa. Hólmaströnd er við Óslóarfjörð og bæjarmörkin liggja að Tønsberg í suðri, Larvík í suðvestri og Viken í vestri og norðri. Á Hólmaströnd er að finna stærsta stöðuvatn Noregs, Eikeren, og hæsta tind landsins, Vestfjellet.

Mikið er um gömul hús á Hólmaströnd og ný hús eru gjarnan byggð í gamaldags stíl sem hjónunum þykir heillandi.

Sandra og Magnús voru dugleg að aka til nálægra landa síðast þegar þau voru á Hólmaströnd og gera ráð fyrir að halda uppteknum hætti nú. Þau gera ráð fyrir að versla talsvert í Svíþjóð, eins og margir Norðmenn gera. Það er um klukkutíma ferðalag.

Þau voru með bát síðast og reikna með að fá sér annan núna enda fallegt að sigla á firðinum. „Það verður þó ekki alveg strax,“ segir Sandra og Magnús bætir við: „Ekki fyrr en í næstu viku.“

Þau hlæja.

Eru bæði hvatvís

Hjónin verða áfram í góðu sambandi við sitt fólk á Íslandi en Magnús á hér þrjú börn af fyrra hjónabandi og fjögur barnabörn. „Við tökum bara einn dag í einu. Hugmyndin er að vera í Noregi alla vega næstu árin en við gætum alveg átt eftir að flytja aftur heim. Við sjáum bara til,“ segir Magnús. „Þetta er í raun og veru bara eins og að flytja innanlands.“

Þau segjast bæði vera hvatvís. „Okkur finnst ekkert mál að gera hluti. Það er þó meira ég, stundum segir Maggi: Nei, nú er nóg komið!“ segir Sandra sposk á svip.

Hann brosir.

Bæði eru þau þó hæstánægð með sína nýjustu ákvörðun, að flytja aftur til Noregs, og eru sannfærð um að þar komi þeim til með að líða vel.

Dóttirin ánægð með að fá foreldra sína út

Mamma vill vera nálægt mér

„Það er voðalega gaman að vera búin að fá mömmu og pabba út,“ segir Telma Björk Magnúsdóttir gegnum símann frá Ósló núna í vikunni. Hún hefur verið þar við nám í leiklist í hálft þriðja ár og sá lengst af lítið af foreldrum sínum vegna heimsfaraldurins og allra þeirra vegtálma sem honum fylgdu. „Núna geta þau komið og horft á það sem ég er að gera í skólanum og gaman verður að geta fengið þau reglulega í mat og eins að borða hjá þeim.“

Hún er hæstánægð með að foreldrar hennar hafi komið sér fyrir á Hólmaströnd enda er bærinn henni afar kær eftir dvölina þar á sínum tíma. „Það er yndislegur bær og voða gott að geta heimsótt þau þangað.“

Telma Björk er komin með norskan kærasta og búa þau saman í Ósló. Þá eru þau búin að fá sér hvolp sem er skuldbinding til lengri tíma. „Nákvæmlega,“ segir hún létt í bragði, „þannig að ég verð hérna í Noregi næstu árin. Það er klárt mál.“

Eins og fram kemur í viðtalinu við foreldra hennar þá vildi Telma Björk ekki flytja aftur til Íslands á sínum tíma og þegar hún ákvað að sækja um nám í leiklist var Noregur efstur á blaði. Hún komst inn og var ekki lengi að pakka í ferðatösku. „Það var gaman að koma aftur til Noregs og ég stóð líka vel að vígi gagnvart náminu vegna þess að ég tala tungumálið. Þess utan var það spennandi áskorun og búa ein og bjarga mér í stórri borg eins og Ósló.“

– Varstu búin að suða í foreldrum þínum að koma aftur út?

„Nei, alls ekki. En ég átti frekar von á því að það myndi gerast fyrr en síðar. Mamma vill alltaf vera nálægt mér. Við erum mjög nánar.“

– Hvað er svona spennandi við Noreg?

„Gott sumar náttúrlega,“ flýtir Telma Björk sér að segja og þarf auðvitað ekki að rökstyðja það. Kom sumarið yfirhöfuð á Íslandi í ár? Man ekki eftir því.

„Samfélagið er líka stærra og tækifærin þar af leiðandi fleiri.“

– En fólkið? Hver er munurinn á Íslendingum og Norðmönnum?

„Ég veit það ekki. Hann er ekki mikill. Annars er fólkið hér eins misjafnt og það er margt, eins og annars staðar. Það er meira svona smáatriði í kúltúrnum. Hér er til dæmis engin pása í bíó.“

– Og Norðmenn loka verslunum á slaginu, ekki satt?

„Jú, alveg rétt,“ segir Telma Björk hlæjandi. „Norðmenn vinna minna en Íslendingar og það er minna stress hérna. Maður finnur það.“

Telma Björk útskrifast á næsta ári og vonast í framhaldinu til að geta unnið við leiklist. „Vonandi fæ ég tækifæri til þess hérna í Noregi en kæmu upp tækifæri heima á Íslandi þá myndi ég án efa stökkva á þau líka. Það yrði gaman að leika þar.“

– Heldurðu að foreldrar þínir séu nú sestir að í Noregi?

„Já, ég geri frekar ráð fyrir því. Nú förum við bara að vinna í því að ná restinni af fjölskyldu og vinum hingað út.“

Hún hlær.

Hamhleypa til verka

Árni Sæberg ljósmyndari er vinur Magnúsar og Söndru og þegar hann frétti að þau væru að flytja til Noregs datt honum í hug að fylgja þeim eftir. „Ég sá þetta strax myndrænt fyrir mér og langaði að gera grein sem lýsti flutningunum frá upphafi til enda,“ segir Árni sem fylgdi Magnúsi yfir hafið með Norrænu en Sandra kom flugleiðis. Hann byrjaði að mynda meðan þau voru að pakka föggum sínum á Íslandi og þegar upp var staðið voru myndirnar orðnar fjögur þúsund. „Það var ekki auðvelt að velja,“ segir Árni sposkur.

Myndafrásögnin hafði algjöran forgang og Árni gat fyrir vikið lítið hjálpað til við framkvæmdirnar ytra enda ómögulegt að hafa ljósmyndarann undir vaskinum þegar besta mótífið knýr dyra. „Ég fékk vinnuvettlinga við komuna út en þeir eru ónotaðir.“

Ekki svo að skilja að það hafi skipt sköpum. „Sandra er hamhleypa til verka og Elmar bróðir hennar sömuleiðis. Eftir að hafa fengið sér tvo kaffibolla einn morguninn vatt Sandra sér í að rífa niður hurðina á herberginu sem ég svaf í, enda þótt ekkert lægi á því. Ég fékk bara gardínu í staðinn,“ segir Árni hlæjandi. „Þetta lýsir henni vel. Ég dáist að því hvað framkvæmdirnar gengu hratt og vel fyrir sig.“

Magnús fór með sendibíl utan en í honum voru dýnur til að sofa á, verkfæri og að sjálfsögðu sjónvarp til að horfa á Manchester United. Búslóðin er væntanleg með skipi.

Eftir að hafa verið úti kveðst Árni skilja hjónin vel; Hólmaströnd sé heillandi staður og bátamenningin skemmtileg. „Ég gleðst fyrir þeirra hönd en það verður samt skrýtið að geta ekki lengur drukkið kaffi með Magga og rætt við hann um Rolling Stones,“ segir Árni sem strax er farinn að hlakka til að heimsækja vini sína í vor þegar Sandra heldur upp á sextugsafmæli sitt.