— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Segðu mér frá þessum óperukvöldverði? Fjórir ungir söngvarar stofnuðu félagsskapinn Kammeróperuna og fengu þessa hugmynd að slá saman óperu og kvöldverði. Þau fengu mig til að leikstýra, staðfæra og þýða

Segðu mér frá þessum óperukvöldverði?

Fjórir ungir söngvarar stofnuðu félagsskapinn Kammeróperuna og fengu þessa hugmynd að slá saman óperu og kvöldverði. Þau fengu mig til að leikstýra, staðfæra og þýða. Fyrir valinu varð Cosí fan tutte og mér leist vel á það.

Hvernig útfærir þú verkið?

Fólk kemur í Iðnó í kvöldverð og við erum stödd í upphafi tuttugustu aldar. Söngvarar leika staðarhaldara og starfsfólk Iðnó. Við aðlögum þannig hinn raunverulega söguþráð Cosí fan tutte að Íslandi á síðustu öld, en söguþráðurinn, sem er mjög spaugilegur, snýst frekar um persónur og hvernig þær haga sér en stað og stund.

Er óperan þá flutt á meðal gesta?

Við nýtum bæði sviðið og salinn meðan á sýningu stendur. Áhorfendur verða hluti af sýningunni og það verður sungið úti um allan sal. Þetta verður allt öðruvísi upplifun en við leyfum bæði sögunni sjálfri og Mozart að njóta sín.

Mun eitthvað koma á óvart?

Án þess að segja of mikið, þá verður líka farið í tímaflakk. Söngvarar birtast í dulargervi frá framandi tíma.

Þurfa ekki gestir að koma klæddir í stíl við tíðarandann í upphafi 20. aldar?

Þeir þurfa þess ekki en við tökum sérstaklega vel á móti þeim gestum.

Óperukvöldverður í Iðnó – Così fan tutte eftir Mozart er fyrsta óperuuppfærsla Kammeróperunnar, haldið í Iðnó 26. og 27. október kl. 19 (húsið opnað 18.15). Bjarni Thor Kristinsson leikstýrir sýningunni og Gísli Jóhann Grétarsson er hljómsveitarstjóri. Söngvarar eru Unnsteinn Árnason, Eggert Reginn Kjartansson, Kristín Sveinsdóttir, Lilja Guðmundsdóttir, Jón Svavar Jósefsson og Jóna G. Kolbrúnardóttir. Miðar fást á tix.is.