Skotarnir tveir fara að örvænta þegar raddstýrða lyftan skilur hvorki á hvaða hæð þeir ætla sér að fara, né að þeir vilji komast út.
Skotarnir tveir fara að örvænta þegar raddstýrða lyftan skilur hvorki á hvaða hæð þeir ætla sér að fara, né að þeir vilji komast út.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ósvöruðu símtölin, sem um árabil hafa glóð á farsímaskjáum landsmanna, eru til dæmis málfarslegur þvættingur, sem aldrei hefði átt að sjást opinberlega. Á íslensku er hringingum mögulega svarað – jafnvel (látið) ósvarað, en lýsingarorðið ósvaraður er jafnfráleitt og þegar orðið símtal er haft um samtal sem átti sér einmitt ekki stað.

Málferlar

Lára Magnúsardóttir

larama@gmail.com

Á netinu hefur í nokkur ár verið hægt að finna bráðfyndinn einþáttung, þar sem tveir Skotar koma inn í raddstýrða lyftu og ætla báðir á elleftu hæð. Þeir reyna að líkja eftir enskum og bandarískum hljóðum af bestu getu, en allt kemur fyrir ekki, því að lyftan skilur ekki skoskan framburð á ensku. Verður þetta mönnunum til sífellt meiri skapraunar og á endanum hafa þeir sameinast í trylltum þjóðernisrembingi.

Lyftan opnast

Mér vitanlega eru ekki enn til raddstýrðar lyftur á Íslandi, en í nýrri húsum lýsa sumar atburðarás, sennilega í þeim tilgangi að auðvelda aðgengi fyrir sjónskerta. „Hurð lokast“ segir lyftan þegar búið er að ýta á takka og „hæð sex“ þegar komið er á hæðina þar sem tannlæknastofan er. „Hurð opnast“ heyrist þá og farþegi með máltilfinningu prísar sig sælan að komast út.

Við þessar aðstæður verður ýmsum hugsað til þess, sem segir í málfarsbanka Árnastofnunar og flestir áhugamenn um málið vita: Hurð er „einhvers konar fleki sem nota má til að loka opinu, innganginum“, en dyr er orðið sem notað er fyrir opið. Þess vegna er mælt með því að „tala um að opna og loka dyrunum […] Síður skyldi segja: „opna hurðina, loka hurðinni“.“ Býsna algengt er að hurðum sé lokað og þær opnaðar í daglegu tali og verður þess vegna ekki fullyrt að það sé rangt við slíkar aðstæður, en leiðbeiningarnar frá Árnastofnun gagnast þeim sem hafa áhuga á málinu og langar að vanda sig, sem og þeim sem ætla að tjá sig opinberlega eða formlega.

Leiðbeiningar þessar eiga hins vegar aðeins við þegar um er að ræða dyr og hurð, en á lyftu er hvorugt, ekki frekar en á poka, kistu, kassa, píanói, glugga, bók eða Sesam. Það er lyftan sjálf sem opnast og lokast og í tilkynningu um það á íslensku er eðlilegt að hafa ákveðinn greini: Lyftan opnast – lyftan lokast. Af þessum sökum er hægt að fullyrða að lyftan fari með rangt mál þegar hún segir að dyr opnist og lokist. Í ofanálag er hæð sex markleysa og um það þarf ekki einu sinni sérstaka grein í málfarsbankanum, enda myndu bæði sjáandi og blindir alltaf segja sjötta hæð. Þar af leiðir að aðeins eitt af fjórum orðum er rétt í rununni: Hæð sex. Hurð opnast, því að eðlilegt væri að lyftan segði: Sjötta hæð. Lyftan opnast. Atriði af þessu tagi væri verðugt að íhuga áður en raddstýring verður sett í hérlendar lyftur.

Á skoska gríninu, sem nefnt var hér að framan, má skilja að lyftuframleiðendur hafi aðeins viljað spara sér kostnað við að kenna hugbúnaði í lyftunni að skilja staðbundin blæbrigði í framburði á ensku, en á Íslandi hefur sambærilegur aðili á hinn bóginn ekki sýnt sérstaka fjárhagslega fyrirhyggju. Einhver hefur verið á kaupi við að setja saman tilkynningu fyrir íslenska notendur, útbúa hljóð og koma því inn í búnaðinn. Líklega hefur sá síðastnefndi haft próf upp á að kunna að eiga við hugbúnað í tölvu, enda er ábyrgðarhluti að selja og reka lyftur.

Vannýttir fagmenn

Hér er hið augljósa verst, að enginn sem að þessari framkvæmd kom hefur haft snefil af áhuga á verkefninu; ekki virðist liggja fyrir lágmarksþekking á íslensku umfram talmál og sá sem samdi textann fletti greinilega engu upp. Mestri furðu sætir að undirstöðuþekking á tungutaki um lyftur skuli ekki vera til inni í fyrirtæki sem hefur höndlað með þær í áratugi. En hvers vegna ætli tíðkist ekki að leita til fagmanna þegar kemur að tungumáli, sem þykir þó sjálfsagt í öðrum greinum? Af því eru margvíslegar afleiðingar, smáar og stærri. Til dæmis er klúðursleg stafsetningarvilla fyrir ofan aðalinnganginn í Bauhaus, þar sem stendur AÐAL INNGANGUR.

Um þessar mundir stendur íslenskri tungu sennilega einna mest ógn af stuttum setningum, sem eru þýddar úr ensku og birtast í stafrænu umhverfi. Ósvöruðu símtölin, sem um árabil hafa glóð á farsímaskjáum landsmanna, eru til dæmis málfarslegur þvættingur, sem aldrei hefði átt að sjást opinberlega. Á íslensku er hringingum mögulega svarað – jafnvel (látið) ósvarað, en lýsingarorðið ósvaraður er jafnfráleitt og þegar orðið símtal er haft um samtal sem átti sér einmitt ekki stað. Hliðstæð dæmi eru í mörgum forritum, sem þó á þó að heita að séu á íslensku.

Þetta gæti verið séríslenskt fyrirbæri, því að þrátt fyrir allt er erfitt að sjá fyrir sér að stafsetningarvilla stæði lengi við aðalinngang á Bauhaus í Þýskalandi, en sannleikurinn er þó að umræða um sambærileg atriði á sér stað víða um heim. Til dæmis fárast margir á netinu yfir orðalaginu „your call will be answered in the order it was received“, sem á íslensku hefur verið útlagt „símtölum verður svarað í þeirri röð sem þau berast“. Þar tekur einkum til máls fólk sem vill bæta sig í meðferð tungunnar og telja sumir að betur færi á því að segja „in which it was received“, en aðrir færa málfræðileg rök fyrir orðalaginu „your call will be answered in the order that it was received“.

Hér á landi stendur til boða ráðgjöf um málfar hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og einstaka fyrirtæki eins og Textastofan og Stílvopnið auglýsir þannig þjónustu. Þessu er lítið haldið fram og fáir virðast til dæmis vita að prófarkalestur er fag og atvinnugrein. Getur verið að þjónustan láti of lítið yfir sér og sé of kvenleg, ekki nógu tæknileg eða of ódýr? Yfirlega yfir því sem kann að virðast smáatriði í texta er auðvitað ekki hress vinna – má jafnvel vera að málfræðingar þyki leiðinlegir. Það væru auðvitað fordómar, en kannski er samt við okkur sjálf að sakast, sem gerðum íslensku að sérgrein okkar og starfsvettvangi, ef við greinum ekki nægilega vel á milli þess að banna og leiðbeina. Því gæti líka verið öfugt farið; að (mögulegum) viðtakanda finnist okkar lausnamiðuðu tillögur vera niðurrif.

Andstæða við samsæri

Ég er hér að reyna að leiða mál mitt að einkennilegu áhugaleysi, eins konar andstæðu við samsæriskenningar, sem ekki má rugla saman við raunveruleg samsæri. Samsæriskenning er hugtak sem er ætlað að ná yfir tilhneigingu til að skýra atburði og fyrirbæri með því að valdamiklir aðilar stýri heiminum bak við tjöldin og hafi illt eitt í huga. Samsæriskenningar standa óhaggaðar í huga þeirra sem aðhyllast þær óháð því hvort traustar upplýsingar liggja fyrir um annað og hvaðeina er raunar talið sönnun á samsærinu. Rökræður um gögn, upplýsingar eða önnur lögmál geta þess vegna ekki haft önnur áhrif en að herða afstöðuna.

Umræðu um íslensku er þveröfugt farið, því að öllum er vel við hana og engum dettur í hug að áhrifamenn hafi áhuga á henni. Á hinn bóginn er það sameiginlegt með samsæriskenningum að næsta ómögulegt virðist að ræða um íslenska tungu, fagurt mál og unað af því. Þar er hver höndin ekki beinlínis upp á móti annarri, en flest það sem vitrænt er sagt og opinberlega verður einhvern veginn að engu. Umræðuvettvangurinn er ekki til, hvorki um tungu né raunar um önnur menningarmál og þar með er skýrum upplýsingum um efni og álitamál ekki beinlínis miðlað. Við þær aðstæður er ekki hægt að leggja neitt til málanna – málefnin eru varla til – og enginn viðtakandi er heldur til að leiða umræðuefni áfram. Því má ekki gera ráð fyrir að skáld og rithöfundar, fræðimenn og óbreyttir áhugamenn muni leiða þróun tungumálsins. Það verða lyftufyrirtæki og appeigendur, án þess að hafa þó nokkurn tímann sýnt málefninu hinn minnsta áhuga. Eins og grínið um Skotana tvo sýnir er því miður meiri hætta á að það leiði til angurs en yndis.

P.s.

Eftir að þetta greinarkorn var skrifað má segja að innihaldið hafi sannast með dæmi. Það var þegar fjallað var um þá hugmynd eins og hvern annan brandara í frétt, að fyrirtæki réði þjálfaðan prófarkalesara í verkefni sem tengjast útgáfu á ritmáli (mbl.is 6.10. 2022). Undir fyrirsögninni „Prófarkalesari Ísorku var grín“ er því haldið fram að „annálaður íslenskumaður og málfarshaukur innan fyrirtækisins“ sé betur fallinn til slíkra verka. Annálar þykja raunar varhugaverðar heimildir, en það skiptir litlu hér, því að þunginn í rökfærslunni liggur í öðru atriði: „Blaðamaður fellst á að [prófarkalesari] skæri sig líklega rækilega úr innan um alla rafvirkjana.“