Stíflan Rússneskir hermenn sjást hér á vakt við Kakhovka-stífluna í maí sl.
Stíflan Rússneskir hermenn sjást hér á vakt við Kakhovka-stífluna í maí sl. — AFP/Olga Maltseva
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í ávarpi sínu við Evrópuráðið í fyrrakvöld að Rússar hefðu komið fyrir sprengiefni við Kakhovka-stífluna í Kerson-héraði og sakaði hann Rússa um að ætla sér að sprengja stífluna í loft upp, en flóðin sem gætu hlotist af því gætu leitt af sér miklar hörmungar í héraðinu. Áætlaði Selenskí að rúmlega 80 þéttbýlisstaðir, þar á meðal Kerson-borg, myndu verða fyrir flóðinu og hundruð þúsunda manna gætu orðið fyrir áhrifum af því.

Stíflan er hluti af vatnsorkuverinu í Kakhovka, sem er um 57 kílómetrum frá Kerson-borg, einu héraðshöfuðborginni sem Rússar hafa náð á sitt vald í innrásinni til þessa, en hersveitir Úkraínumanna eru sagðar nálgast borgina jafnt og þétt.

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War, ISW, hefur einnig varað við því að Rússar kunni að sprengja upp stífluna, þar sem slík aðgerð gæti hjálpað þeim að skýla sér á flótta frá héraðinu, nú þegar gagnsókn Úkraínumanna að Kerson-borg er hafin á ný.

ISW sagði í skýrslu sinni að nýleg ummæli Sergeis Súróvíkin, yfirhershöfðingja Rússa í Úkraínu, þar sem hann sakaði Úkraínumenn um að undirbúa árásir á stífluna, bentu til þess að Rússar ætluðu sér að sprengja hana upp sjálfir og kenna Úkraínumönnum um.

Leppstjórar Rússa í Kerson-héraði hafa hins vegar neitað ásökunum um að þeir hafi í hyggju að sprengja stífluna í loft upp, en lónið sem stíflan myndar er hluti af vatnskerfi Krímskaga og geymir um 85% af vatnsforða skagans.

Þá sagði Kírill Stremousov, varaleppstjóri Rússa í Kerson-héraði, að Kerson-borg væri nú að vígbúast líkt og virki til varnar gegn yfirvofandi árás Úkraínumanna.

Stremousov sakaði einnig Úkraínumenn um að hafa skotið á Antonivskí-brúna í héraðinu, en fjórir Rússar eru sagðir hafa fallið í árásinni, þar af tveir blaðamenn.

Vill eftirlitsmenn að stíflunni

Selenskí hefur óskað eftir því að vesturveldin vari Rússa við afleiðingum þess, auk þess sem hann óskaði eftir viðveru alþjóðlegra eftirlitsmanna við stífluna til þess að koma í veg fyrir skemmdarverk á henni.

Denís Smígal, forsætisráðherra Úkraínu, tók undir þær óskir í gær og sagði að alþjóðlegir sérfræðingar þyrftu að rannsaka orkuverið hið fyrsta. Þá varaði Smígal við því að ef stíflan brysti gæti það einnig haft áhrif á kælikerfin í kjarnorkuverinu í Saporísja-héraði, sem enn er á valdi Rússa.

Shoígú og Austin tala saman

Varnarmálaráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna, þeir Sergei Shoígú og Lloyd Austin, ræddust við í síma í gær. Er það einungis í annað sinn sem ráðherrarnir ræða saman frá upphafi stríðsins.

Hvorugt ríkið gaf mikið upp um innihald samtals þeirra, en þó kom fram í fréttatilkynningum beggja að ráðherrarnir hefðu rætt ástandið í Úkraínu. Lagði Austin áherslu á mikilvægi þess að halda samskiptalínum opnum á milli ríkjanna tveggja.

Ráðherrarnir ræddu síðast saman í maímánuði og skoraði Austin þá á Rússa að hefja þegar í stað vopnahlé. Ekki kom fram hvort hann hefði endurtekið þá beiðni nú.