Það er hvorki viðunandi að opna landið vegna afleiðinga sósíalisma í Venesúela né með því að taka fjögur ár til að rannsaka og dæma um fölsuð ferðaskilríki.

Umræðan um hælisleitendur hefur verið hættuleg og skaðleg að undanförnu,“ sagði Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, á alþingi mánudaginn 17. október. Hvers vegna vill þingmaðurinn ekki að viðruð séu ólík sjónarmið í þessum málaflokki eins og öðrum?

Upplýst er að Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og Sigríður Hagalín, fréttamaður á ríkisútvarpinu, héldu að hingað streymdu hælisleitendur frá Venesúela af því að Ísland væri fyrsta Schengen-landið fyrir þetta fólk „að vestan“. Fólkið kemur þó hingað frá meginlandi Evrópu, langflest í gegnum Madrid.

Upplýst er að úrskurðarnefnd útlendingamála veitir Venesúelum sérstaka stöðu, í landi þeirra sé „alvarlegt efnahagsástand þar sem laun [dugi] ekki til að uppfylla grunnþarfir almennings í landinu, skortur á hreinu drykkjarvatni, há glæpatíðni ...“

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður sagði 14. október í Morgunblaðsgrein að með úrskurðinum tæki nefndin „sér bæði lagasetningar- og fjárveitingavald“. Efnahagsvandi heimsins yrði ekki leystur, ekki einu sinni minnkaður, með því að skilgreina efnalítið fólk sem flóttamenn. Og vandi flóttamanna ykist auðvitað með útþynningu hugtaksins. Það sæi hver maður með heila hugsun.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að við veitum Venesúelum „viðbótarvernd og göngum miklu lengra en nokkur önnur Evrópuþjóð því viðbótarvernd er vernd til fjögurra ára með miklu meiri félagslegum réttindum en nokkur önnur þjóð í Evrópu veitir. Meiri en Spánn sem veitir vernd á grundvelli mannúðarmála til eins árs með miklu takmarkaðri réttindum“.

Ákvörðun úrskurðarnefndarinnar hefur ýtt undir stjórnleysi í málaflokknum þótt það sé rétt hjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að stofnanir og nefndir starfi í samræmi við lögbundið skipulag.

Það gerir réttarkerfið líka. Undir lok september 2022 var kveðinn upp héraðsdómur í máli sem hófst í október 2018 þegar Sýrlendingur afhenti fölsuð skilríki við komu til landsins. Eftir málavafstur í fjögur ár var hann dæmdur sekur, hlaut 30 daga skilorðsbundna fangavist.

Þetta ófremdarástand er næsti bær við stjórnleysi.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sótti fund flóttamannanefndar Evrópuráðsins í Grikklandi. Hann fræddi alþingismenn 19. október um að embættismaður Sameinuðu þjóðanna teldi flóttamannabúðir í Grikklandi standast evrópska staðla. Hafnaði hann með öðrum orðum hryllingssögum íslenskra þingmanna um stöðu flóttamanna í Grikklandi.

Birgir lýsti heimsókn í móttökustöð þar sem flóttamenn dvelja í þrjá til fjóra daga þar til þeir fá skilríki. Þaðan fara þeir í aðrar búðir í þrjá til 12 mánuði meðan mál þeirra eru til skoðunar. Þar ríkir ferðafrelsi. Telur Birgir „eftir þessa upplýsandi ferð að flóttamenn í Grikklandi búi við mannsæmandi aðstæður“.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði um útlendingastefnu Dana eftir kynningarfundi þeirra: „Því miður fannst mér það einkenna allt þeirra tal um málaflokkinn, eins og það væri verið að bjarga dýrahjörð en ekki að taka á móti manneskjum.“ Hún móðgar hiklaust bæði Dani og þá sem leita hælis hjá þeim.

Ný borgaraleg ríkisstjórn í Svíþjóð boðar stefnu í útlendingamálum að danskri fyrirmynd.

Jyllands-Posten segir í leiðara ekki skrýtið að Svíar taki sér tak í málaflokknum. Tíðni morða í Svíþjóð sé meiri en annars staðar í Evrópu. Glæpagengi, aðlögunarvandi innflytjenda og skautun ríki nú í þjóðfélagi sem áður var talið öruggt sem folkehemmet . Hreinræktuð glæpamennska sé hin hliðin á sænsku medalíunni sem allt of lengi hafi verið fegruð með lygum, einnig af fjölmiðlum. Einu besta og einsleitasta samfélagi í heimi hafi verið unnið tjón af stjórnmálamönnum sem þurftu ekki sjálfir að gjalda fyrir að gera tilraun með Svíþjóð sem mannúðlegt stórveldi. Af einskærri góðmennsku hafi venjulegum Svía verið leyft að súpa seyðið af því.

Þeir sem tala nú eins og leita eigi fyrirmyndar íslenskrar útlendingastefnu og löggjafar í úreltum reglum í Svíþjóð ættu að færa sig inn í samtímann.

Sigmar Guðmundsson spurði Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, á alþingi 17. október „hvort honum hugnist hugmyndir um harðari innflytjendastefnu að danskri fyrirmynd“.

Viðreisnarþingmanninum bauð við dönsku stefnunni en Sigurður Ingi sagði framsóknarmenn þeirrar skoðunar að við ættum að horfa til Norðurlandanna í þessu efni, að vera með sambærilegt regluverk og þar. Það væri „skynsamlegt til þess að við séum með sambærilegar niðurstöður“. Hann vildi þó ræða málið nánar áður á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Sigmar sagði móðgaður í þingsalnum 18. október: „Ég spurði svo formann Framsóknarflokksins um afstöðu hans til málsins í gær og fékk ákaflega framsóknarlegt svar sem var efnislega svohljóðandi: Ég svara því seinna.“

Helga Vala tók undir orð Sigmars sem „auðmjúkur þingmaður“ og leitaði „ásjár forseta“ vegna óljósra svara formanns Framsóknarflokksins.

Í Dagmálum Morgunblaðsins 19. október var Sigmar spurður hvað Íslendingar gætu tekið á móti mörgum hælisleitendum og hvað það mætti kosta. Því vildi hann ekki svara þar og þá. Hann fór að dæmi Sigurðar Inga sem hann hafði þó fordæmt.

Þeir sem hafa illa grundaðan málstað kvarta undan umræðum um útlendingamál. Þannig er komið fyrir Viðreisn, Pírötum og Samfylkingu. Stuðningur við málflutning Jóns Gunnarssonar eykst, það er hvorki skaðlegt né hættulegt.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is

Höf.: Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is