Guðmundur Tryggvi Jakobsson fæddist 18. febrúar 1958. Hann lést 10. október 2022. Útför hans fór fram 20. október 2022.

Elsku bróðir. Nú ertu farinn frá okkur, allt of snemma. Þú sem varst með fullt af skemmtilegum plönum, ætlaðir að gera svo margt skemmtilegt á landinu þínu í Flóanum og ýmislegt fleira.

Síðastliðið ár áttir þú í mjög svo erfiðri baráttu við krabbameinið. Mikið sem þú varst duglegur og tókst á við veikindin af miklu æðruleysi. Þrátt fyrir mörg og stór áföll í þessari baráttu náðir þú að halda í vonina og barðist fram á síðasta dag.

Það er aðdáunarvert hvernig dætur þínar og Krissa hugsuðu um þig fram á síðustu stundu og fyrir það erum við afar þakklát. Það er þeim að þakka að þú gast verið heima í faðmi þeirra sem þér þótti vænst um allt þar til yfir lauk. Þú varst líka svo óendanlega þakklátur fyrir alla þá hjálp sem þú fékkst frá þeim og fleirum.

Þú varst svo stoltur af flottu stelpunum þínum sem voru alltaf tilbúnar að berjast fyrir því að þú fengir það besta sem völ var á í sjúkdómsferlinu.

Já, það er svo sárt að þurfa að kveðja þig og svo sárt fyrir háaldraða foreldra okkar að þurfa að sjá á bak syni sínum.

Við söknum þín sárt.

Hvíldu í friði elsku bróðir.

Þín systkini,

Ingigerður,

Jón Már, Hildur,

Helgi og Jóhanna.

Með sorg í hjarta þarf ég að kveðja kæran vin og mág minn, Guðmund Jakobsson eða Lilla eins og fjölskyldan kallaði hann. Lilli er ekki orð sem lýsir honum rétt því hann var stór persóna, alltaf var hann til staðar fyrir sína nánustu og gerði allt sem í hans valdi stóð til að hjálpa til og hvetja áfram. Hann unni fjölskyldu sinni, var stoltur af dætrum sínum og barnabörnin Tryggvi og Elísabet voru gullmolar afa síns, hann var einstakur barnakarl. Það verður söknuður að heimsóknum hans til okkar, þar sem heimsmálin voru oftar en ekki leyst með mörgum og sterkum orðum. Það var mikið sem við áttum eftir að gera saman, það verður að bíða betri tíma og hlakka ég til að hitta hann í Sumarlandinu og bralla eitthvað saman.

Kæra fjölskylda Krissa, Birna, Sara og fjölskyldur, ég votta ykkur innilega samúð og þúsund þakkir fyrir ykkar hjálp þetta erfiða ár sem Lilli barðist við þetta ólæknanlega krabbamein.

Hjalti Guðmundsson.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi í lífinu að fá vinnu hjá Isavia við farþegaakstur á gamals aldri. Þar kynntist ég mörgum góðum einstaklingum en verð að viðurkenna að einn þeirra bar af, enda stór og stæðilegur og hlýddi því merkilega nafni Grendi.

Ég ákvað að leggja svolítið á mig til að kynnast þessum merka manni, sem á augnabliki gat hleypt rólegu spjalli upp í hávaðarifrildi. Þegar lætin stóðu svo sem hæst leit hann í kringum sig, stóð upp og sagðist því miður þurfa að fara því einhver þyrfti að vinna hjá þessu fyrirtæki.

Að kynnast Grenda, manninum með verulega stóra og góða hjartað, var ekki flókin barátta. Frásagnaglaður var hann og snillingur að hnika sögunni aðeins til svo frásagnargildi hennar varð meira.

Hér er því miður ekki hægt að segja frá öllu sem ég upplifði með Grenda á þeim þó stutta tíma sem okkar kynni ná yfir. Ég verð þó að minnast á ferðina okkar á eyjuna góðu Gran Canaria. Ferðin er ógleymanleg og áttu ferðirnar á eyjuna fögru eftir að verða miklu fleiri. Ef segja ætti frá öllu því sem við Grendi upplifðum þessar vikur saman á Kanarí yrði Mogginn að gefa út aukablað.

Það var heiður að kynnast þessum höfðingja og sorglegt að sjá hvernig veikindin tóku hann til sín hægt og sígandi en bjartsýnin brást honum þó aldrei. Jákvæður kvaddi hann umvafinn þeim sem hann elskaði mest.

Kristbjörg, Birna og sérstaklega Sara Dögg, takk fyrir allt nammið á góðu stundunum í Grenidalnum.

Samúðarkveðjur,

Þorvaldur.