Landsleikur Karólína Lea Vilhjálmsdóttir einbeitt á svip í leik Íslands og Ítalíu á Evrópumótinu í sumar. Hún hefur ekkert spilað frá þeim tíma.
Landsleikur Karólína Lea Vilhjálmsdóttir einbeitt á svip í leik Íslands og Ítalíu á Evrópumótinu í sumar. Hún hefur ekkert spilað frá þeim tíma. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Ólafur Pálsson oap@mbl.is Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Bayern München í þýsku 1.

Fótbolti

Ólafur Pálsson

oap@mbl.is

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Bayern München í þýsku 1. deildinni, hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið og var hvorki í leikmannahópi íslenska kvennalandsliðsins í síðustu leikjum riðils Íslands í undankeppni HM í september né í umspilsleiknum gegn Portúgal 11. október síðastliðinn.

Blaðamaður spjallaði við Karólínu Leu sem sagði að nýlega hefði endurhæfing hennar skilað þeim árangri að það færi að styttast í endurkomu hennar á völlinn.

„Það eru tveir mánuðir síðan tekin var sameiginleg ákvörðun um að ég færi í sérendurhæfingarhóp. Þetta gekk ágætlega til að byrja með en það getur tekið tíma að jafna sig á svona krónískum meiðslum. Ég er búin að vera að glíma við þessi meiðsl í um það bil ár en ég vonast til að geta farið að æfa aftur með liðinu eftir um það bil mánuð til viðbótar.“

Karólína sagði um meiðsli aftan í læri að ræða sem hefðu ekki truflað hana svo mikið í fyrstu þar sem hún fann ekki mikið til. Hún sagðist þó hafa þurft að hlífa sér frá sprettum á fullum hraða en hefði komist upp með það inni á vellinum því hún væri teknískur leikmaður.

„Vandamálið er í festinni við rassvöðva og aftanverðan lærvöðva. Það var vökvi og bólga á því svæði. Svo þegar liðið taldi mig geta æft af fullum krafti en taldi mig ekki leikhæfa þá ræddum við málið og ákváðum að ég myndi fara í skipulagða endurhæfingu vegna meiðslanna. Maður er í fótbolta til að spila leiki og því var þetta eina vitið,“ sagði Karólína.

Fljót að komast í leikhæft ástand

Karólína segir að í Þýskalandi sé lenskan að meiddir leikmenn séu látnir æfa meira og segist hún verða farin að æfa tíu sinnum í viku þegar hún verður aftur komin inn í æfingahópinn með liðinu og verði þannig tiltölulega fljót að koma sér aftur í leikhæft ástand.

Karólína Lea segir að sér hafi gengið vel að aðlagast lífinu hjá þýska stórliðinu. Hún hafi þroskast mikið, bæði sem leikmaður og manneskja.

„Ég hefði auðvitað viljað spila meira en það hjálpar að æfa með einu besta félagsliði í heimi. Eins er borgin sjúklega falleg svo það er ekki undan miklu að kvarta.“

Alexander Straus tók við þjálfun kvennaliðs Bayern München í sumar og sagði Karólína að sér litist vel á nýja þjálfarann.

„Ég hlakka mikið til að ná mér góðri af meiðslunum og sanna mig fyrir nýjum þjálfara, ég hef ekki fengið margar mínútur hjá liðinu en ég veit að ég hef þroskast á æfingum. Ég vil auðvitað spila sem mest og hjálpa liðinu,“ sagði Karólína.

Vonandi fleiri tækifæri

Talið barst að íslenska kvennalandsliðinu. Karólína sagði það hafa verið erfitt að sitja heima og geta ekki haft áhrif þegar liðið lauk keppni fyrir HM nýlega. Hún sagðist vera stolt af liðsfélögum sínum í landsliðinu sem gáfu allt í leikina.

„Þetta einhvern veginn átti bara ekki að gerast núna. Mér fannst spilamennskan í seinni hálfleik gegn Hollendingum fín og maður átti ekki von á að liðið fengi á sig mark þarna undir lok leiksins. Það var erfitt að fá það í andlitið. Þá var mikið áfall þegar Áslaug Munda var rekin út af í leiknum gegn Portúgal. Þetta fór eins og það fór. Mér finnst sérstaklega leiðinlegt að vita til þess að margar okkar eru á síðustu árum ferils síns og kannski var þetta þeirra síðasta tækifæri til að komast á HM en ég og fleiri erum enn ungar og munum vonandi fá fleiri tækifæri í framtíðinni,“ sagði Karólína Lea.

Aðspurð um framtíðina segir Karólína Lea að hún muni einbeita sér að því að koma sterk til baka af meiðslunum og komast í þá stöðu að fá að spila meira með félagsliði sínu og hjálpa landsliðinu í komandi verkefnum.

Vonast til að vinna titla

„Ef ég held áfram á þessari braut þá veit ég að það gerast góðir hlutir. Ég vonast til að vinna titla með Bayern, við erum með mjög sterkt lið og nýjan góðan þjálfara. Ég vona að við getum sýnt það á þessu tímabili hvað við erum sterkar. Þá hlakka ég til að spila aftur með landsliðinu, þótt það sé langt í mikilvægan leik vona ég að við fáum tækifæri sem fyrst til að vinna hug og hjarta þjóðarinnar á ný,“ sagði hinn skemmtilegi leikmaður Karólína Lea Vilhjálmsdóttir. Vonandi nær hún sér góðri af meiðslunum sem allra fyrst og við sjáum hana leika listir sínar á vellinum brátt með bæði Bayern München og íslenska landsliðinu.