Harpa Björgunarráðstefna og -sýning fer fram í Hörpu um helgina.
Harpa Björgunarráðstefna og -sýning fer fram í Hörpu um helgina. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og verndari Slysavarnafélagsins Landsbjargar, setti í gær ráðstefnuna Björgun sem fram fer í Hörpu.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og verndari Slysavarnafélagsins Landsbjargar, setti í gær ráðstefnuna Björgun sem fram fer í Hörpu.

Víðir Reynisson flutti síðan opnunarfyrirlestur um umhverfi almannavarna, stöðuna í dag og hvert stefnir í áskorunum til framtíðar.

Alþjóðlegir gestir

Um þúsund manns sækja ráðstefnuna og koma víðsvegar að svo sem Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum, að því er fram kemur í tilkynningu Landsbjargar. Björgun22 er á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og taka þátt í henni yfir 50 innlendir sem erlendir fyrirlesarar með þekkingu á leit og björgun.

Ráðstefnan hefur verið haldin á tveggja ára fresti frá árinu 1990 og er því haldin í 14. skiptið í ár. Aflýsa þurfti ráðstefnunni sem var á dagskrá árið 2020.

Fram kemur í tilkynningunni að ráðstefnan er haldin í fjórum sölum, ýmist á íslensku eða ensku, og samhliða fyrirlestrunum er viðamikil vörusýning með um 50 fyrirtækjum.

Styrktarsamningar

Skrifað var undir tvo samninga á ráðstefnunni Björgun22 í Hörpu í dag. Undirritaður var aðalstyrktarsamningur við Olís sem felst bæði í fjárhagslegum stuðningi og verulegum afslætti af eldsneyti og öðrum vörum. Jafnframt var undirritaður samningur um leit og björgun við stjórnvöld.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd stjórnvalda og var honum boðið ásamt fjölmiðlafólki í siglingu á Þór, nýju björgunarskipi Vestmannaeyinga. Þetta er fyrsta skipið af þremur sem Landsbjörg hefur fest kaup á. Stefnt er að því að endurnýja allan björgunarskipaflota félagsins á næstu árum, alls þrettán skip.

Sjóvá styrkti skipakaupin um 142,5 milljónir króna. Ríkissjóður leggur að öðru leyti til helming þess fjár sem skipið nýja kostar. Áætlað er að viðbragðstími skipa Landsbjargar styttist um allt að helming með nýjum skipum.