Meðlög Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur innheimt þau.
Meðlög Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur innheimt þau. — Morgunblaðið/Golli
Ríkisendurskoðun leggur til að ábyrgð á innheimtu meðlaga verði endurskilgreind og að innheimtumönnum ríkissjóðs verði falin ábyrgð á verkefninu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um úttekt á Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Ríkisendurskoðun leggur til að ábyrgð á innheimtu meðlaga verði endurskilgreind og að innheimtumönnum ríkissjóðs verði falin ábyrgð á verkefninu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um úttekt á Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Auk þess verði innheimtumönnum ríkissjóðs falið að meta þau verðmæti sem felast í kröfusafni stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun telur rétt að kröfusafnið í heild flytjist til ríkisins með samkomulagi við eigendur Innheimtustofnunar. Endanlegt uppgjör vegna kröfusafnsins fari fram að tilteknum tíma liðnum.

Þá er lagt til að gerð verði sérstök greining á gagnagrunni núverandi innheimtukerfis, sem og þeim kerfum sem til staðar eru hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Það verði eftir atvikum gert í samstarfi við Tryggingastofnun ríkisins.

Loks er lagt til að viðtökuaðili verkefnanna, í samráði við ráðuneyti, marki stefnu um framkvæmd innheimtu meðlaga með skilgreindum mælikvörðum um árangur. Í því sambandi þarf m.a. að endurskoða lagaumhverfi meðlagsinnheimtu, skjalfesta verklagsreglur og koma á tilhlýðilegu gæðakerfi. Niðurstöður úttektarinnar á Innheimtustofnun sveitarfélaga voru kynntar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær.

Sem kunnugt er vakti Ríkisendurskoðun athygli innviðaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga á meintri háttsemi stjórnenda IS meðan á vinnslu skýrslunnar stóð. Ný stjórn stofnunarinnar vék viðkomandi stjórnendum frá störfum og kærði málið til lögreglu. Málið er nú til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. gudni@mbl.is