Aðspurður hvort Rúmenía og Moldóva ættu að sameinast á ný segir Albu-Comanescu þá hugmynd hafa lengi verið uppi, en þar takist á rómantík og raunsæi. Hann bendir á að Moldóva hafi fyrst verið aðskilin frá Rúmenum árið 1812 þegar Alexander 1.

Aðspurður hvort Rúmenía og Moldóva ættu að sameinast á ný segir Albu-Comanescu þá hugmynd hafa lengi verið uppi, en þar takist á rómantík og raunsæi. Hann bendir á að Moldóva hafi fyrst verið aðskilin frá Rúmenum árið 1812 þegar Alexander 1. Rússakeisari tók hluta héraðsins undir Rússland. „Þeir eyddu nærri 110 árum í rússneska keisaradæminu áður en ríkin sameinuðust aftur í lok fyrri heimsstyrjaldar í Rúmeníu, og tuttugu árum síðar voru þeir aftur orðnir hluti af Sovétríkjunum.“ Moldóvar hafi því í tvær aldir verið nær hinum „rússneska heimi“ en Rúmeníu.

„Þannig að hugmyndin um sameiningu er eins og fallegur draumur fyrir mörgum,“ segir Albu-Comanescu en bætir við að sá draumur sé ekki að fullu raunhæfur af ýmsum ástæðum. „Raunsæismennirnir spyrja hvernig eigi að gera þetta. Þeir benda á að Rúmenía hafi gengið í gegnum langa umbreytingu og sé ekki einn af ríkustu meðlimum Evrópusambandsins.“ Hann bætir við að fordæmi Þýskalands sýni að það myndi þurfa mikla fjármuni til að styðja við nýju landsvæðin og nútímavæða þau.

Þá séu einnig minnihlutahópar, bæði í Gagaúsíu og í Trans-Nistríu, sem séu hallir undir Rússa, og Gagaúsar hafi jafnvel réttinn til að lýsa yfir sjálfstæði frá Moldóvu. Þá yrðu einnig minnihlutahópar bæði Úkraínumanna og Rússa, sem myndu bætast við hóp 1,5 milljóna Ungverja sem þegar eru í Rúmeníu, og kallaði á spurninguna hvernig ætti að aðlaga þessa hópa hinu nýja ríki.

„Og í þriðja lagi væri spurningin um sjálfa sameininguna. Búum við til sambandsríki? Tökum við Moldóvu inn sem héruð í Rúmeníu? Finnum við aðrar leiðir? Þetta mun kosta ýmislegt, og þess vegna er almenna tilfinningin í Rúmeníu frekar hófsöm,“ segir Albu-Comanescu og bendir á að stuðningur við sameiningu mælist venjulega í um 35% í Rúmeníu, og í kringum 32% í Moldóvu. Þó hafi það gerst í vor í kjölfar innrásarinnar að um 50% Rúmena hafi lýst yfir stuðningi við sameiningu. Hann segir að Rúmenar vilji gera sitt allra besta til að tryggja öryggi Moldóvu, þó að rúmenski herinn sé ekki sá sterkasti í Evrópu.