Eyþór Baldursson fæddist 21. janúar 1945. Hann lést 10. október 2022. Útför hans fór fram 20. október 2022.

Kær vinur og vinnufélagi hvarf í kjölfar lífsins.

Sannarlega reiðarslag, hann var sjálfum sér líkur þegar við hittumst síðast, hress og kátur.

Eyþór var gleðigjafi og afar gaman að umgangast hann, úrræðagóður og jákvæður persónuleiki. Hann sigldi á vit ævintýra um allan heim og að verða samferða honum voru forréttindi.

Við erum mörg sem minnumst þessa höfðingja en með þessum fáeinu orðum vil ég þakka honum vinskapinn og fylgdina.

Ég votta ykkur öllum, fjölskyldu hans og vinum, mína dýpstu samúð.

Þorsteinn

Kristmannsson.

Eyþór kom úr krakkamengi hússins númer 25a við Öldugötu, húsinu sem afi okkar Þorgeir og amma Jódís reistu sér og börnum sínum fjórum. Dæturnar voru þrjár og í fyllingu tímans eignuðust þær eiginmenn og samtals fjórtán börn. Í endurminningunni er allt krökkt af krökkum í leikjum sem nú eru orðnir sagnfræði, svo róttæk breyting hefur orðið á landslagi götunnar þegar bíll var nægilega sjaldgæf sjón til að sumir krakkar stunduðu að skrá bílnúmerin niður jafnóðum og þau birtust og halda til haga í sérstakri blokk. En við fyrstu snjóa voru bæjarstarfsmenn á vörubíl mættir með vegartálma sem á stóð „Sleðagata“ og um leið var tekið fyrir umferð annarra en barna (sæju menn þetta í anda gerast í dag?).

Á sumrin skipti um þegar haldið var í Birkilaut, sumarbústaðinn við Laugarvatn sem þá tók bróðurpartinn úr degi að nálgast, enda voru ferðirnar bara tvær, í byrjun sumars og svo heimferðin um haustið. Bústaðurinn var lítill kofi sem er lyginni líkast að hafi rúmað öll þessi börn, það sem út af stendur hlýtur að skrifast á hlýviðraskeiðið sem veðurmælingar sýna að hafi einmitt verið við lýði á þessum árum.

Þetta var samansúrraður hópur og fyrir vikið ekki hlaupið að því að aðgreina einstaklingana, það voru sömu leikir, sömu leikföng, sömu myndir, sömu bækur, sami skóli ... og ekki fyrr en þau Baldur og Sigga flytja með börnin sín fimm í Sigtúnið að myndin tekur að skýrast af Eyþóri sem þá var orðinn að skellinöðrugæja með öllu sem tilheyrir. Hann var töffari af guðs náð, sem þó birtist ekki í neinum djöfulgangi heldur þvert á móti yfirmáta rólegheitum, kannski í ætt við James Dean, skærustu kvikmyndastjörnu þessara ára.

Eyþór var tveimur árum eldri en ég og fyrirmynd sem því nam, en á meðan hann keypti sér skellinöðru fyrir fermingarpeningana sína keypti ég mér folald fyrir mína. Á jólavertíðinni unnum við í Bókhlöðunni, en þaðan var stutt að hlaupa yfir í prentsmiðjuna Odda á Grettisgötu þar sem allt var á suðupunkti, en þeir bræður Baldur og Villi sáu um að héldi sjó. Í húsinu á móti bjó svo afasystir okkar með eiginmanni og fullum skúr af rollum, þetta var þá.

Þetta og ótal margt fleira (ég sleppi tilraunum með kínverja, rakettur og tóbak) var sá höfuðstóll minninga sem við Eyþór áttum sameiginlegan og endurnýjaði sig í hvert sinn sem við hittumst, ýmist af tilviljun eða í árlegu jólaboði. Það hjálpaði upp á sakirnar að það var eins og tíminn hefði gleymt Eyþóri, það var varla að hann breyttist hætishót með aldrinum, hann hélt sínu hári og fasi ævina út. Og ævinlega sólbrúnn, hvernig sem það mátti vera á 63° norðlægrar breiddar.

Það var Eyþóri líkt að kveðja þegjandi og hljóðalaust í svefni. Ég veit að aðrir munu fjalla um flugmanninn, eiginmanninn, föðurinn og afann en kýs að ljúka þessum fátæklegu kveðjuorðum með tilvitnun í Hamlet eftir Shakespeare :

„Nú brast gott hjarta; hvíl vært, kæri prins;

og englasveimur syngi þig til náða.“

(Þýð. Helgi Hálfdanarson)

Pétur Gunnarsson.

Það var síðla í september árið 2004 að níu manna áhöfn lagði upp í 25 daga hringferð um hnöttinn með farþega Loftleiða í fyrstu lúxusheimsreisuna.

Leiðangursstjórinn var Eyþór Baldursson flugstjóri.

Öll þekktum við hann þá, mismikið þó, eftir samstarf í fluginu til lengri eða skemmri tíma.

Í svona verkefni, þar sem farið er á fjarlægar slóðir og tímanum varið saman öllum stundum, hvort sem er utan vinnu eða í, myndast óhjákvæmilega mikil nánd og vinátta sem aldrei verður rofin.

Þannig galdur varð til í þessari ferð og síðan var Eyþór sannur vinur okkar allra.

Hann var einstakt ljúfmenni, sem alltaf sá lausnir í stað vandamála. Hann sá líka fegurðina alls staðar í kringum sig, bar virðingu fyrir ólíkum siðum og menningu annarra þjóða og naut þess að upplifa og vera til.

Hann smitaði frá sér einhverjum óútskýrðum krafti, það var alltaf eitthvað spennandi og skemmtilegt um að vera þar sem Eyþór var. Hann elskaði lífið, elskaði starfið sitt og fólkið sitt og gerði sér far um að lifa alla sína daga til fullnustu. Naut þess að ferðast, sigla, skíða, drakk í sig lífsins lystisemdir og leit alltaf út eins og táningur.

Hann var stríðinn og alltaf stutt í glettnislega brosið hans og einlægan hlátur.

Eyþór hafði ekki tíma til að deyja, það var í huga okkar óhugsandi að hann félli einhvern tímann frá, þessi birta og gleði sem stafaði frá honum virtist óslökkvandi.

Þess vegna er svo fallegt að hann kvaddi þetta dýrmæta líf sitt í svefni. Þurfti ekki að glíma við veikindi og kvíða, heldur fékk hann að skila sínu fallega lifaða lífi áreynslulaust og friðsællega.

Það er mikill missir að þessum öðlingi, þessum kæra vini og samstarfsfélaga.

Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til aðstandenda og þökkum fyrir að hafa fengið hann lánaðan í ferðina okkar góðu.

Sigurlaug Halldórsdóttir (Dillý), Jenný L. Þorsteinsdóttir, Kjartan Guðmundsson, Sæmundur Guðmundsson, Una Hannesdóttir,

Beverly Ellen Chase,

Guðrún Fríður Hansdóttir,

Einar Sigurjónsson,

Jón B. Hjartarson.

Fallinn er frá kær vinur. Við söknum í senn góðs vinar og allra ógleymanlegu stundanna sem við deildum saman í Laugardalnum. Eyþóri leið alltaf vel í sveitinni enda átti hann þar sterkar rætur.

Við byggðum okkur sumarhús á svipuðum tíma í dalnum fagra. Lóðirnar lágu saman og því stutt að fara á milli. Fljótlega tókst með okkur traust og náin vinátta.

Eyþór hafði einstaklega þægilega nærveru. Hann var yfirvegaður, rólegur og röddin lágstemmd. Hann var vel að sér og þekkti hverja þúfu í sveitinni. Hann var heimsmaður og naut þess að ferðast. Hann var allt í senn; handlaginn, bóngóður og vandvirkur. Það lék allt í höndunum á honum.

Í kringum Eyþór var alltaf gleði og gaman enda naut hann lífsins með fjölskyldu og vinum. Aldrei dauð stund. Það stóð alltaf eitthvað til.

Það kom fljótt í ljós hversu mikill listakokkur Eyþór var. Hann naut þess að undirbúa og elda girnilegar máltíðir og í matarboðunum var alltaf stutt í glens og grín. Þá sátum við ófáar stundirnar úti á palli á fallegum sumarkvöldum og skipulögðum gönguferðir eða aðrar uppákomur.

Okkur er minnisstæður dagurinn þegar Eyþór kom fljúgandi á lítilli eins hreyfils flugvél sem hann lenti á túninu fyrir neðan þjóðveginn í Laugardalnum. Við flugum yfir sveitina í blíðskaparveðri og dýrðin blasti við. Ógleymanlegur dagur.

Sveitin okkar verður ekki sú sama við brotthvarf Eyþórs. Við munum ætíð minnast hans af hlýhug og virðingu og þökkum samfylgdina. Hans verður sárt saknað. Við vottum fjölskyldunni samúð okkar og megi minningin um góðan dreng lifa.

Magnús og Birgitta.

Eyþór Baldursson var hugljúfur, yndislegur maður, sem naut lífsins.

Hann lýsti upp umhverfi sitt með hlýju viðmóti og bjartsýni. Hann var lánsamur maður og elskaður.

Baldur, sonur hans og Gyðu, og Salvör, dóttir hans og Brynju, voru mjög náin föður sínum og sólargeislar í lífi hans.

Eyþór var góður afi og hlúði vel að barnabörnunum.

Hann átti alltaf í góðu sambandi við sínar fyrrverandi eiginkonu og sambýliskonu og þeirra fjölskyldur, það var til fyrirmyndar!

Ástin leiddi þau Halldóru Dódó og Eyþór saman. Þau áttu mörg sameiginleg áhugamál og bjuggu saman síðustu árin.

Eyþór var mikill matgæðingur, öll matarboðin sem við nutum saman voru ævintýraferðir!

Traustur, blíður, skemmtilegur, nærgætinn og ákveðinn maður.

Ógleymanlegur fagmaður og góður samstarfsfélagi.

Stundaði skíðaíþróttina, gekk á fjöll til rjúpna og elskaði að ferðast.

Lífið er oft óréttlátt, það á við núna. Hann átti nóg eftir af lífsneistanum, að okkar mati. Við minnumst Eyþórs, okkar góða vinar, með þakklæti, þín er sárt saknað. Megi Guð og englarnir geyma þig.

Öllum ástvinum Eyþórs sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Blessuð sé minning Eyþórs Baldurssonar.

Þínir vinir,

Ingi Olsen, Halldór Þorlákur Sigurðsson, Guðrún Valgarðsdóttir og Björg Jónasdóttir.

Ég var nýbúinn að hitta vin minn Eyþór í kaffiboði hjá FÍA, stéttarfélagi okkar, hinn 3. október sl. og við áttum gott spjall saman og hann lét mjög vel af sér og sínum högum. Forlögin réðu því að við ólumst upp hvor sínum megin við sömu götu í Vesturbænum, Öldugötuna. Hann bjó í stóru fjölskylduhúsi en ég í litlu einbýlishúsi hinum megin götunnar. Við lékum okkur oft saman í stórum hópi barna þótt þriggja ára aldursmunur væri á okkur, en ég er jafnaldri Þorgeirs bróður hans. En tíminn leið hratt og við hittumst svo sem áhugasamir ungir menn hjá Flugfélagi Íslands eftir að hafa lært að fljúga og verið svo lánsamir að hafa fengið ráðningu hjá því ágæta flugfélagi. Við sáumst oft í starfi okkar sem flugmenn en flugum ekki saman því við vorum á svo líkum aldri, en fjölskyldur okkar hittust oft og var alltaf glatt á hjalla. Þegar Flugfélag Íslands gaf Landgræðslunni DC-3-vélina Gljáfaxa og henni var breytt svo hún gæti dreift áburði og fræi fórum við Eyþór að fljúga heilmikið saman. Það var mjög gaman að vinna með honum og hann var frábær flugmaður og naut þess að starfa fyrir Landgræðsluna eins og ég sjálfur. Það samstarf varði í áratugi en nú hefur þessu dreifingarflugi verið hætt fyrir alllöngu. Við Eyþór vorum einnig í mörg ár meðlimir í Flugklúbbnum Þyt og áttum þar margar ánægjustundir tengdar flugi á litlum flugvélum. Hann var einnig mjög virkur í öllu félagsstarfi Þyts sem auk flugsins byggðist m.a. á árlegum flughátíðum í sumarbústað okkar hjóna í Birkilaut og á flugvelli í Haukadal og þar var kokkurinn góði Eyþór ómissandi. Ein þessara flugvéla var hin merka sjúkraflugvél Björns heitins Pálssonar TF-HIS Cessna 180 en þeirri vél hafði Eyþór flogið á meðan hann starfaði fyrir fyrirtæki Björns áður en hann var ráðinn til Flugfélagsins. Þessi merka sjúkraflugvél var í eigu Þyts í mörg ár og var nefnd eftir Birni Pálssyni við hátíðlega athöfn í flugskýli Þyts á Reykjavíkurflugvelli. Hún er nú í eigu og vörslu Flugsafns Íslands á Akureyri með aðstoð Þyts og Icelandair. Eyþór átti mjög farsælan feril sem flugmaður og flugstjóri þar til hann lauk störfum vegna aldurs hjá Icelandair árið 2010. Mig setur hljóðan þegar ég hugsa til þessa óvænta fráfalls frábærs vinar míns og konu minnar Halldóru. Við sendum öllum aðstandendum Eyþórs okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Bliknaðu ekki þó blási hvasst

og bregðist þér heilar álfur.

En knýðu vængina og flugið fast

og fljúgðu til himins sjálfur.

(Davíð Stefánsson)

Páll Stefánsson og

Halldóra Viktorsdóttir.

Hann var alltaf glæsilegur á velli flugstjórinn Eyþór, vinur okkar, sem tók upp á því að kveðja þennan heim og halda á vit nýrra ævintýra. Það setti að manni beyg, þegar maður heyrði um fráfall hans fyrr í þessum mánuði. Eyþór gaf engan fyrirvara og allir voru sammála að hann hefði verið hreystin uppmáluð, athafnasamur fram á síðustu stundu og ávallt tilbúinn að rétta hjálparhönd, þar sem hennar var þörf. Þessi broshýri vinur okkar er horfinn og alltof fljótt. Nú má ætla að meðalhraðinn á skíðahópnum lækki verulega, því Eyþór var alltaf á fullri ferð niður svartar brekkur hvar sem var í Ölpunum. Minningar um hann á kafi í snjósköflum er hann skíðaði á alltof miklum hraða í þoku í Frakklandi eða er hann týndist endalaust í ferðum okkar, því hann nennti ekki þessu hangsi. Það er stórt skarð höggvið í vinahópinn.

Þó Eyþór hafi hætt að starfa sem atvinnuflugmaður fyrir rúmum tíu árum, heyrði maður ávallt samstarfsfólk hans tala vel um hann og hans starfsferil.

Elsku Dódó, hugur okkar er hjá þér á þessum tímum. Þið voruð svo glæsileg saman og góðir vinir. Þér, börnum, barnabörnum og systkinum Eyþórs og fjölskyldum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigríður Hrönn (Sissa) og Jónas Ingi.