Uppstokkun Matvælaframleiðendur í íslenskum landbúnaði hafa sagt skilið við Samtök iðnaðarins og vilja beina aðild að Samtökum atvinnulífsins.
Uppstokkun Matvælaframleiðendur í íslenskum landbúnaði hafa sagt skilið við Samtök iðnaðarins og vilja beina aðild að Samtökum atvinnulífsins. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Tuttugu íslensk fyrirtæki í matvælaframleiðslu hafa sagt sig úr Samtökum iðnaðarins.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Tuttugu íslensk fyrirtæki í matvælaframleiðslu hafa sagt sig úr Samtökum iðnaðarins. Það gerðu þau í kjölfar þess að þau stofnuðu með sér nýjan hagsmunagæsluvettvang sem hlotið hefur heitið Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL). Í hópi þessara fyrirtækja eru stærstu matvælaframleiðendur landsins, s.s. Mjólkursamsalan, Kjarnafæði Norðlenska, landbúnaðarsvið Kaupfélags Skagfirðinga, Reykjagarður og landbúnaðarsvið Sláturfélags Suðurlands. Þá á Sölufélag garðyrkjumanna einnig aðild að samtökunum.

Formaður SAFL er Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS. Hann ræddi stofnun samtakanna í viðtali við Morgunblaðið þann 9. júní síðastliðinn og sagði þar að íslenskir bændur byggju við verri starfsskilyrði en starfsbræður þeirra í öllum öðrum löndum Evrópu og að samtökin hefðu sett sér það markmið að standa vörð um hagsmuni þeirra.

Gengu út frá aðild að SA

Í viðtalinu í júní kom fram að gert væri ráð fyrir því að SAFL myndu heyra undir Samtök atvinnulífsins, eins og á við um aðrar stórar greinar á borð við sjávarútveg, ferðaþjónustu og iðnað. Heimildir Morgunblaðsins herma að það hafi verið ein af forsendum þess að sumir stofnfélaga SAFL gengu til liðs við samtökin og sögðu um leið skilið við Samtök iðnaðarins, sem eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins.

Nýverið gengu forsvarsmenn SAFL á fund stjórnar Samtaka atvinnulífsins og kynntu starfsemi sína og áherslur en samtökin hafa sent inn formlega beiðni um aðild að SA.

Heimildir Morgunblaðsins herma að stjórn SA hafi enn ekki tekið afstöðu til beiðni SAFL en að mjög skiptar skoðanir séu um mögulega aðild þeirra. Ekki er gert ráð fyrir því í samþykktum SA að aðildarsamtök þess séu fleiri en þau sex sem fyrir eru á fleti, þ.e. auk SI, Samorka, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ).

Litlar líkur á beinni aðild

Viðmælendur blaðsins innan vébanda SA segja litlar líkur á því að SAFL muni fá aðild að samtökunum. Með því verði opnað fyrir frekari uppstokkun á því kerfi sem byggst hefur upp á löngum tíma. Heimildir Morgunblaðsins herma t.a.m. að áhrifafólk innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafi tekið fálega í umsókn SAFL á þeim forsendum að það opnaði fyrir þann möguleika að laxeldisfyrirtæki stofnuðu með sér sérstök samtök utan SFS og óskuðu inngöngu í SA. Sömu sögu megi segja um Bílgreinasambandið sem nýverið gekk í SVÞ en hefði við breytt fyrirkomulag einfaldlega getað sótt um beina aðild.