Opnun Þau klipptu á borðann á nýju brúnni, Einar Freyr Elínarson, Bergþóra Þorkelsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Anton Kári Halldórsson.
Opnun Þau klipptu á borðann á nýju brúnni, Einar Freyr Elínarson, Bergþóra Þorkelsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Anton Kári Halldórsson. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Nú, þegar nýja brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi hefur verið tekin í notkun, er engin einbreið brú á hringveginum frá Reykjavík og austur fyrir Kirkjubæjarklaustur.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Nú, þegar nýja brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi hefur verið tekin í notkun, er engin einbreið brú á hringveginum frá Reykjavík og austur fyrir Kirkjubæjarklaustur. Jökulsá, sem stundum er kölluð Fúlilækur, er eina brúin á þessari leið sem eftir var að breikka. Brúin var formlega tekin í notkun í gær með því að innviðaráðherra ók fyrstur yfir og næstur kom Hörður Brandsson sem fyrstur ók yfir gömlu brúna þegar hún var byggð á árinu 1967.

Vígsluathöfnin fór fram á nýju brúnni. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar, Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri Rangárþings eystra og Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps klipptu á borða því til staðfestingar.

Komst fyrstur yfir

„Ég var hjá Vegagerðinni, við vorum að vinna þarna við að gera allt klárt. Ég komst fyrstur yfir,“ segir Hörður Brandsson sem er fæddur og alinn upp í Vík en faðir hans, Brandur Stefánsson, var annar tveggja verkstjóra við smíði brúarinnar. Hörður var nítján ára og ók yfir á bíl með númerinu Z 25 sem er enn einkanúmer hans.

Ekki var getið um þetta þjófstart Harðar í blöðunum þegar sagt var frá vígslu brúarinnar í lok október 1967. Vegna stórrigninga var ekki hægt að hafa athöfnina á brúnni en Ingólfur Jónsson samgöngumálaráðherra, eins og embættið hét þá, ók fyrstur bíl sínum yfir nýju brúna með langri lest bíla á eftir og athöfnin fór síðan fram í skála vegagerðarmanna.

Brúin sem nú hefur verið tekin í notkun er þriðja brúin á Jökulsá á Sólheimasandi. Fúlilækur var afar varasamur yfirferðar og heimtaði fjölmörg líf áður en hann var brúaður. Fyrsta brúin var byggð á árinu 1921 og þjónaði til ársins 1967.

Þrátt fyrir ótrúlega erfiðleika við aðdrætti efnis tók aðeins nokkra mánuði að byggja Jökulsárbrúna 1921. Brúargerðin 1967 tók fimm og hálfan mánuð. Aftur á móti tók 21 mánuð að byggja brúna sem nú hefur verið tekin í notkun en umferð var hleypt á hana 26. september sl. Hún er lítið lengri en eldri brúin en vitaskuld miklu meira mannvirki þar sem hún er tvíbreið.

Metra hærri en sú eldri

Nýja brúin er 163 metra löng, steinsteypt og eftirspennt bitabrú í fimm höfum. Hún liggur rúmum metra hærra en eldri brú en vegurinn vestan brúarinnar hefur verið lækkaður til að beina flóðvatni frá sjálfri brúnni. Einnig var vegurinn beggja vegna, tæpur kílómetri, endurgerður.

ÞG Verk annaðist smíði brúarinnar en tilboð fyrirtækisins hljóðaði á sínum tíma upp á 743 milljónir króna.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðhera, fór í ræðu sinni, við vígsluathöfnina, yfir fækkun einbreiðra brúa. „Fyrir fjórum árum síðan voru 37 brýr á Hringveginum einbreiðar, nú eru þær 32 og verða 31 við opnun nýrrar brúar í dag. Og það er ekkert lát á framkvæmdum. Ég er vongóður um að okkur takist að fækka þeim niður í 29 strax fyrir árslok því það stendur til að opna nýjar brýr á Hverfisfljóti og Núpsvötnum síðar á árinu.“