Uppfærsla Síðustu handtökin í viðgerð hjá Bílastjörnunni í Reykjavík á Unimog-trukki Ísólfs á Seyðisfirði.
Uppfærsla Síðustu handtökin í viðgerð hjá Bílastjörnunni í Reykjavík á Unimog-trukki Ísólfs á Seyðisfirði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Þetta er okkar mikilvægasta tæki í barningi við Fjarðarheiðina og fleiri staði og við hlökkum til að fá hann aftur austur í notkun,“ segir Helgi Haraldsson, formaður Björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði, um öflugasta björgunarbíl sveitarinnar, af gerðinni Mercedes Benz Unimog, sem sýndur er við Hörpu um helgina í tilefni af ráðstefnunni Björgun.

Trukkurinn skemmdist mikið í aurskriðu sem skall á Seyðisfjörð skömmu fyrir jólin 2020. Einn björgunarsveitarmaður var í eftirlitsferð á bílnum þegar flóðið féll og flaut þetta öfluga ökutæki eina 70 metra með aurnum. Unimoginn er rúm fimm tonn að þyngd, á 50 tommu dekkjum, og segir Helgi mikla mildi að ekki hafi farið verr. Björgunarsveitarmanninn sakaði ekki.

„Þetta hefði ekki endað eins vel hefði minni bíll orðið fyrir flóðinu. Í rauninni er það ótrúlegt að engir íbúar hafi slasast í þessu mikla flóði og margar tilviljanir sem réðu því að fólk var annars staðar en það var vant að vera,“ segir Helgi.

Framendi trukksins fór illa, rúður brotnuðu og aurinn flæddi inn og skemmdi tækjabúnað og innanstokksmuni. Eftir flóðið var trukkurinn fluttur til Reyðarfjarðar þar sem reynt var að moka sem mestri drullu út úr honum. Að sögn Helga fylltust fjögur fiskikör af aur sem samanlagt taka um fjögur tonn. Björgunarsveitin varð fyrir milljóna tjóni, sem ekki hefur verið endanlega gert upp.

Bílastjarnan í Reykjavík hefur haft trukkinn í viðgerð síðustu mánuði og eftir er að reka smiðshöggið. Vinnan var það langt komin að hægt var að hafa hann til sýnis við Hörpu. Helgi vonast til að trukkurinn komi aftur austur seinna á árinu.

Björgunarsveitin hafði verið með trukkinn í tæp tvö ár þegar flóðið féll en honum var breytt í vélsmiðju á Seyðisfirði þannig að hann nýttist Ísólfi sem alhliða björgunartæki. Eftir flóðið hefur sveitin aðeins haft Nissan Patrol-jeppa og vélsleða en þegar útköll hafa orðið á Fjarðarheiði hefur öflugur björgunarsveitarbíll verið til taks frá Egilsstöðum. „Það verður gott að fá trukkinn aftur heim, við höfum getað notað hann í hvað sem er, verið fjölnota verkfæri ef svo má segja,“ segir Helgi að endingu.