Í framboði Penny Mordaunt sat fyrir svörum í þingsalnum í vikunni.
Í framboði Penny Mordaunt sat fyrir svörum í þingsalnum í vikunni. — AFP/Breska þingið/Jessica Taylor
Ráðherrann Penny Mordaunt varð í gær fyrst til þess að tilkynna um framboð sitt í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins, en framboðsfrestur rennur út á mánudaginn.

Ráðherrann Penny Mordaunt varð í gær fyrst til þess að tilkynna um framboð sitt í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins, en framboðsfrestur rennur út á mánudaginn. Sagði Mordaunt að hún vildi „nýtt upphaf, sameinaðan flokk og forystu sem fylgdi þjóðarhag.“

Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra, var hins vegar enn sagður njóta mests stuðnings meðal þingmanna Íhaldsflokksins, þó hann hefði ekki formlega gefið kost á sér. Sajid Javid og Dominic Raab, sem báðir sátu í ríkisstjórn með Sunak, lýstu yfir stuðningi sínum við hann í gær.

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra, þykir þó enn líklegur til þess að gefa kost á sér, en hann var í gær á leiðinni heim til Bretlands eftir stutt leyfi við Karabíska hafið.

Stóra spurningin er sögð vera sú hvort Johnson geti fengið 100 þingmenn til þess að styðja framboð sitt, en það er þröskuldurinn sem framámenn í Íhaldsflokknum hafa ákveðið fyrir framboð.

Bandamenn Johnsons segja að hann sé sá eini sem geti afstýrt afhroði í næstu þingkosningum, en skoðanakannanir nú benda til þess að Íhaldsflokkurinn myndi glata tveimur af hverjum þremur þingsætum sínum ef kosið væri nú.

Varnarmálaráðherrann Ben Wallace tók af skarið með það í gær að hann myndi ekki bjóða sig fram, og sagðist aðspurður hallast að stuðningi við Johnson. Hann sagði þó að Johnson þyrfti enn að svara ýmsum spurningum vegna þeirra hneykslismála sem bundu endi á forsætisráðherratíð hans, en siðanefnd þingsins rannsakar nú hvort Johnson hafi logið að þinginu um veisluhöld í Downingstræti 10.