Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, hafa að undanförnu velt upp hugmyndum um breytingar á deildakeppninni í fótbolta með það fyrir augum að ungir leikmenn sem eru að berjast um sæti í liðum í...
Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, hafa að undanförnu velt upp hugmyndum um breytingar á deildakeppninni í fótbolta með það fyrir augum að ungir leikmenn sem eru að berjast um sæti í liðum í efstu deild fái fleiri tækifæri til að spila.

Sigurður vakti máls á því að hann væri með unga leikmenn í sínum hópi sem erfitt væri að halda í leikformi því ekki væri hægt að lána þá í neðri deildir án þess að missa þá þar með í hálft eða heilt tímabil.

Í Noregi og víðar fá félög í efstu deild að senda varalið sín í þriðju og fjórðu efstu deild. Eflaust myndu flest lið í efstu deild vilja koma á slíku fyrirkomulagi en ólíklegt er að það fengi brautargengi á KSÍ-þingi vegna andstöðu félaga í neðri deildum.

En er þá ekki upplagt að finna leiðir til að breyta fyrirkomulagi á útláni leikmanna? Heimila liðum í 1. deild og neðar að vera með tiltekinn fjölda lánsmanna úr efstu deild í sínum röðum, sem eru gjaldgengir, svo framarlega sem þeir hafa ekki komið við sögu í efstu deild síðustu vikuna eða svo?

Eða vera með venslasamninga milli félaga á þann hátt að hvert lið í efstu deild megi vera með eitt venslafélag í neðri deild þar sem leikmenn geta færst á milli eftir ákveðnum skilyrðum? Þetta myndi eiga við um bæði Íslandsmót karla og kvenna.

Þetta fyrirkomulag myndi gefa miklu fleiri ungum leikmönnum tækifæri til að spila meistaraflokksleiki í hörkukeppni og halda þeim í betri leikæfingu allt keppnistímabilið í stað þess að gera ekkert annað en að æfa og sitja á bekknum.