— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veturinn er mættur með öllum sínum töfrum. Þegar þessi árstíð kemur skiptir máli að fólk sé tilbúið fyrir kaldara veðurfar sem getur haft áhrif á líkama og sál.

Veturinn er mættur með öllum sínum töfrum. Þegar þessi árstíð kemur skiptir máli að fólk sé tilbúið fyrir kaldara veðurfar sem getur haft áhrif á líkama og sál. Það er hægt að gera ýmislegt til að ýta andanum upp annað en að liggja meðvitundarlítil/l með símann sinn í höndunum og skrolla þangað til lífsviljinn gufar smám saman upp.

Árið 2008 lagði gömul og góð vinkona ríka áherslu á að undirrituð byrjaði á einhverju fyrirbæri sem kallaðist Facebook. Ég skildi ekki tilganginn með þessu en lét tilleiðast því þessi gamla góða vinkona, sem er með skemmtilegustu manneskjum veraldar, sannfærði mig um að stuðið væri þarna. Ekki vildi ég missa af fjöri ef það var einhvers staðar í boði.

Fyrst um sinn vissi ég ekkert hvað ég ætti að gera þarna, hvað ég ætti að segja, en smám saman jókst virknin og sjálfstraustið. Hlaðið var í hvern misgáfulega statusinn á fætur öðrum. Mikilvægasta uppfærslan á Facebook var líklega þegar fyrirbærið fór að bjóða fólki upp á að sjá inn í glugga fortíðar, með svokölluðum minninga-hnappi. Það líður ekki sá dagur að ég renni ekki yfir minningar liðinna ára í boði þessarar öndunarvélar og hugsi: „Hvað var ég að spá?“

Hver statusinn á fætur öðrum er svo hræðilega vandræðalegur að mig sundlar. Einstaka sinnum gerist það þó að eitthvað fyndið hefur fengið að fljóta þarna með og þá hlæ ég upphátt. Þeir sem voru fyndnir í öndunarvélinni í gamla daga eru flestir ennþá mjög fyndnir, ekki allir samt. Ég hef eftir fremsta megni reynt að halda í þessa skemmtilegu einstaklinga en í stað þess að skiptast á bröndurum í öndunarvélinni reyni ég að sjá framan í fólk. Tala við það og verja með því tíma þar sem við getum hlegið og grátið saman. Ef síminn er með í för er hans tilgangur helst að mæla vegalengdir í gönguferðum eða taka ljósmynd sem fer í minningabankann.

Flestir statusar í öndunarvél fortíðarinnar snúast um mont. Mont yfir nákvæmlega engu sem vert var að monta sig af. Inn á milli eru skilaboð frá fólki sem hefðu betur átt heima í einkaskilaboðum. Svo var nú reyndar svolítið fyndið þegar fólk ætlaði að fletta einhverju upp á þessum stórhættulega vettvangi en póstaði óvart nafninu sem slegið var inn. Þetta gerðist helst um nætur. Ég man vel þegar kona nokkur var stödd á bar og hafði fengið þráhyggju fyrir karlkyns eintaki sem hún taldi að væri efni í framtíðarmaka. Þegar hún vaknaði um morguninn, skítþunn og ómöguleg, blasti martröðin við. Hún hafði póstað nafninu hans 18 sinnum á vegginn sinn. Nokkru síðar hætti hún að fara á bari að næturlagi og fór í áfengismeðferð.

Nú, um 14 árum síðar, hefur þessi miðill yfirtekið tilveruna og svo hafa fleiri miðlar bæst við svo við þurfum örugglega aldrei að vera ein með eigin hugsunum. Það versta gæti líka gerst; okkur gæti farið að leiðast, og það viljum við alls ekki. Foreldrar þessa lands hafa áhyggjur af samfélagsmiðlanotkun barnanna sinna. Það er skiljanlegt. Við sem foreldrar getum þó ekki sett stífar reglur fyrir þau yngri ef við getum ekki farið eftir þeim sjálf.