Svavar Pétur Eysteinsson fæddist 26. apríl 1977. Hann lést 29. september 2022. Útför hans fór fram 20. október 2022.

„Gerðu bara eins og Svavar Pétur.“ Þetta heilræði móður minnar hefur hljómað svo oft í mín eyru síðastliðin 19 ár að það er orðið að eins konar máltæki milli okkar mæðgna. Að gera eins og Svavar þýðir að láta bara vaða, taka ákvörðun og vinna svo út frá henni, í stað þess að ofhugsa allt. Framkvæma hugmyndirnar sínar, af hugrekki og sjálfstrausti. Máltækið okkar mömmu hefur með árunum öðlast sífellt dýpri merkingu við það að fylgjast með Svavari raungera hugdettur sínar og andagift hverju sinni, í stað þess að hika og bíða. Ótrauður elti hann ævintýrin allt til enda, alltaf eitthvað að brasa og allra helst vildi hann verja tíma sínum í að vinna að skemmtilegum verkefnum með fjölskyldu og vinum. Þrátt fyrir að vera að eigin sögn innhverfur en ekki úthverfur valdi hann sér sviðsljósið sem leikvöll og snerti á þeim vettvangi við fjölda fólks, sem syrgir í dag kæran vin og einstakan listamann. Svavari þótti þó líka gott að vera einn, hann var góður í því eins og svo mörgu öðru. Hann skilur eftir sig djúp spor sem svo gjarnan hefðu mátt og átt að verða fleiri.

Svavar Pétur var besti vinur minn á yngri árum. Við kynntumst á fjölmiðlabraut í FB og ég heillaðist af þessum fyndna og frjálsa strák sem var svo allt öðruvísi en allir hinir. Svavar hlustaði á indíplötur en ekki útvarpið (nema stundum Gullbylgjuna), fílaði Sex Pistols en líka Sálina, kunni heilu seríurnar af The Simpsons utanbókar, var í hljómsveitum og alltaf eitthvað að leika sér og skapa. Hann gekk með húfu af systur sinni og í fötum af mér og keyrði hvíta Lödu Sport sem var löngu komin fram yfir það að geta nokkurn tímann fengið ástandsskoðun. Alltaf var hann til í að hrinda öllum hugmyndum í framkvæmd, hversu skrítnar sem þær voru, með leikgleðina og húmorinn í fyrirrúmi. Í flestum minningum mínum er hann hlæjandi, að „steikja eitthvað og grilla“.

Við fylgdumst að í gegnum háskólann en þá héldum við hvort í sína áttina. Leiðir okkar lágu þó stundum saman og þá leið mér eins og ég ætti endurfund við góðan vin. Svavar var alltaf tilbúinn að hlusta og deila skoðunum sínum og tillögum af væntumþykju. Hann var frábær félagi, frjór og skemmtilegur, fullur af sniðugum uppátækjum, gríni og bulli þó að á sama tíma mætti alveg eins eiga von á hárbeittri satíru og hnyttnum viskumolum. Fyrst og síðast var hann þó góður strákur og vel upp alinn, með blíðlegt en kímið bros og gáskafull blá augu – glaðlyndur pönkari sem elskaði menn og dýr.

Svavar Pétur hafði mikil áhrif á mig, rétt eins og flesta þá sem voru svo heppnir að verða honum samferða veginn, og ég verð ávallt og innilega þakklát fyrir okkar kynni. Fjölskyldu og vinum votta ég mína dýpstu samúð.

Þar til næst, Sæti Pé,

Ásthildur

Valtýsdóttir.

Um daginn, þegar ég var að fara í gegnum gamlar myndir af okkur Svavari, rakst ég á mynd þar sem við vorum að brasa við að stilla upp hljóðfærum og hljóðkerfi fyrir utan húsið þar sem við Birna bjuggum á Drangsnesi. Þessi mynd og þessi minning hefur setið í mér síðan, því mér finnst hún einhvern veginn svo lýsandi fyrir lífið með Svavari.

Þannig var mál með vexti að þegar Rauðasandshátíðinni 2013 hafði verið aflýst vegna óveðurs tókum við í Prins Póló-flokknum þá ákvörðun að brenna á Drangsnes þar sem við Birna bjuggum á þeim tíma. Á leiðinni tókum við þá ákvörðun að þótt einni tónlistarhátíð hefði verið aflýst væri ekki þar með sagt að helgin þyrfti að vera hátíðarlaus. Það var því ákveðið að henda í tónlistarhátíðina Pallinn 2013 á nýbyggðum palli við húsið okkar Birnu. Fram komu Borko og Prins Póló. Boðið var upp á kex og djús.

Svona var þetta einhvern veginn alltaf. Engin hugmynd of vond til að láta hana ekki verða að veruleika og það sem skipti höfuðmáli var að hafa gaman af. Þrátt fyrir að gestir hafi aðeins verið um 10 talsins, var Pallinn 2013 ein eftirminnilegasta tónlistarhátíð sem ég hef spilað á.

Þannig tókst Svavari alltaf að glæða stað og stund lífi og fjöri. Hver dagur var nýtt ævintýri og hvert augnablik var tækifæri til að steikja, grilla og gleðjast. Það skipti engu hvort við vorum á karókíbar í Tokyo, að drekka morgunkaffi í skammdeginu á Drangsnesi, í fjöruferð með krakkana í Berufirði eða að stofna ambient-hljómsveit í kjallaranum í Grundargerðinu fyrir bara örfáum vikum síðan. Það var alltaf nóg að gerast, alltaf eitthvað spennandi, skrýtið, skemmtilegt, fyndið og óvænt. Það var alltaf gleðin sem skipti máli og að velta sér ekki of mikið upp úr hlutunum. Lífið snerist um að njóta þess sem hver einasti dagur bauð upp á. Á endanum er það er sennilega það sem þetta snýst allt saman um.

Elsku Skaggi minn. Svavar Pétur, Svali skakki, Svabbi Pistols, Suawey don Skakkamanagero Schweppes. Það er risavaxið tómarúm sem þú skilur eftir þig og verkefnið okkar við að fylla það með nýjum minningum, nýju bralli, grilli og gamni verður ærið. En trúðu mér. Við ætlum að halda áfram að skemmta okkur og við ætlum að halda áfram að faðma hversdaginn og leggja upp í ný ævintýri. Þótt sporin séu þung þessa dagana þá höfum við alltaf einstaka fyrirmynd og fordæmi í þér. Og við eigum saman ótæmandi brunn góðra minninga sem við sköpuðum saman og enginn mun nokkurn tímann taka frá okkur. Þær munu ylja um ókomna tíð.

Takk fyrir samfylgdina, elsku vinur.

Takk fyrir allt ruglið, grínið og gleðina.

Takk fyrir músíkina, vináttuna, innblásturinn og æðruleysið.

„Við förum alla leið. Í nótt.“

Björn Kristjánsson.

Við Svavar Pétur kynntumst á unglingsárum okkar; vorum nágrannar og gengum í sama grunnskóla. Við höfðum báðir smitast af listabakteríu sem stakk sér niður í Breiðholtinu á þessum tíma og ráfuðum um hverfið álíka ringlaðir í leit að tjáningarformi. Hvort við bundum vonir við að læknast eða forherðast vissum við ekki. Hann hafði fundið sig í tónlist og var því kominn vel á veg en virtist strax heillast af heildarpakkanum: lagasmíðum, textagerð, ímyndarsköpun, hönnun og kynningarmálum. Og hann lék sér að þessu öllu eins og önnur séní leika sér á sínu sviði. Þótt við höfum fljótt tengst vinaböndum sem héldu alla tíð var ekki mikið um listrænt samstarf. Kannski vegna þess að ég átti ekki möguleika í hraðann. Fyrir mig að fá hugmynd er eins og að losa tungu frosna við ljósastaur: Það þarf utanaðkomandi aðstoð með heitan þvottapoka. Og það er sársaukafullt. Hugur Svavars Péturs var samfelld ljósasýning hugmynda. Það kallaði heldur á utanaðkomandi aðstoð að ná þeim á blað. En þær fóru ekki endilega með himinskautum þessar hugmyndir; þær fóru fyrst og fremst með jörðu og lýstu upp hversdagslegustu skúmaskotin. Hann sýndi okkur að líka þar leynist mannsandinn, hrár og tær.

Svavar Pétur var mikill sagnamaður og sagði frá af fádæma innlifun. Það var því óendanlega gaman að sjá Prins Póló fæðast og koma í svo eðlilegan, látlausan, hressan og kærulausan búning mörgum af skemmtilegustu eiginleikum höfundar síns: hárfínum húmor, lúmskri stríðni, orðagríni, fimmaurum og rótgrónu pönki. Svavar Pétur var sagnaskáld sem greindi þjóð sína og setti fram á sinn einstaka hátt. En það sem var kannski allra áhugaverðast og gerði hann svo heilan og fallegan er að hann var alltaf og aldrei að grínast.

Ég kveð þennan dýrmæta vin á sama hátt og hann kvaddi mig fyrir stuttu: Vertu sæl systir góð!

Elsku Berglind, Aldís, Elísa og Hrólfur.

Elsku Aldís og Eysteinn, Elsa og Þráinn.

Guð blessi ykkur.

Pétur Már Gunnarsson.