Magnús B. Jóhannesson
Magnús B. Jóhannesson
Magnús B. Jóhannesson: "Vindlundur Storm Orku getur verið hluti af lausninni."

Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Stefnt er að 55% samdrætti í losun til ársins 2030 og kolefnishlutleysi 2040.

Þegar slík markmið eru sett þá vaknar spurningin: hvernig náum við þessum markmiðum?

Til að átta sig á stöðunni er rétt að skoða losun koltvísýrings (CO 2 ) frá íslensku hagkerfi. Vegna Covid-áhrifa er rétt að miðað við ástandið fyrir Covid og því verður árið 2018 fyrir valinu. Stærstu aðilarnir í losun koltvísýrings innan hagkerfis Íslands árið 2018 á ársgrundvelli eru flugsamgöngur annars vegar, með um 2.384 þúsund tonn, og hins vegar framleiðsla málma, með um 1.769 þúsund tonn, sjá mynd.

Hver er þá lausnin?

Ljóst má vera af þessu að lausnin hlýtur að beinast að þeim tveimur greinum sem losa mest. En hvernig er hægt að gera það?

1) Lausnin fyrir flugsamgöngur sem nú er unnið að felst í íblöndun svokallaðs Synthetic Aviation Fuel (SAF) í þotueldsneyti sem minnka á kolefnisfótspor flugs umtalsvert. Evrópusambandið hefur sett íblöndunarkvóta nú þegar sem kallar á um 2% íblöndun frá árinu 2025 sem eykst upp í 63% árið 2050. Talið er að SAF minnki kolefnisspor um allt að 90%, svifryk um 90% og brennistein um 100%. (Heimild: Airbus.)

SAF er framleitt með raforku, til dæmis grænni raforku frá vindlundi Storm Orku á Hróðnýjarstöðum. Því miður hefur stofnun ríkisins staðið í vegi fyrir vindlundi félagsins og tafið verkefnið um mörg ár. Á sama tíma gengur mjög erfiðlega að sækja virkjunarleyfi fyrir græna raforku og er afgreiðslutími rammaáætlunar um 14 ár að meðaltali og níu verkefni sem loks fengu afgreiðslu í ramma 3 (R3) sem samþykktur var í vor höfðu verið til umfjöllunar rammaáætlunar í 23 ár.

2) Hinn hluti lausnarinnar felst í að fanga útblástur frá málmframleiðslu. Tæknilega er hægt að fanga koltvísýring frá iðnaðarframleiðslu. Sem dæmi þá hefur Orka náttúrunnar rekið föngunarverkefni á Hellisheiði um árabil undir merki Carbfix. Ánægjulegt er að vita til þess að málmframleiðslufyrirtæki á Íslandi stefna nú þegar að þessu.

Á það skal bent að SAF og annað rafeldsneyti sem mögulega verður hluti orkuskipta á Íslandi þarf margt hvert á íblöndun koltvísýrings að halda. Föngun koltvísýrings frá málmframleiðslu skapar því tækifæri fyrir málmframleiðendur á að selja koltvísýring sem fangaður er til innlendrar rafeldsneytisframleiðslu sem styður við endurvinnslu og hringrásarhugmyndafræði.

Til að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum er mikilvægt að ráðast að rót vandans. Slíkt býður upp á ýmis tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf og vinnur vel með markmiðum Íslands í loftslagsmálum og orkuskiptum því líklegt er að rafeldsneyti framtíðarinnar þurfi á einhverjum koltvísýringi að halda.

Vindlundur Storm Orku getur verið hluti af lausninni og getur framleitt hér heima SAF eða annað rafeldsneyti til notkunar innanlands en til þess þarf að bæta leyfisveitingaferlið verulega. Það skýtur skökku við að stjórnvöld setji sér háleit markmið í loftslagsmálum en stofnanir ríkisins vinni svo gegn þeim sem geta komið með lausnirnar og tefji leyfisveitingaferlið svo árum skiptir.

Er ekki kominn tími til að gera getur?

Meira á www.okkarhlid.is

Höfundur er frkv.stj. Storm Orku.