Magnús Örn Sölvason fæddist 3. nóvember 1980. Hann lést 23. september 2022.

Magnús Örn var jarðsunginn 3. október 2022.

Elsku besti frændi.

Aldrei hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að skrifa minningargrein um þig svona stuttu eftir að ég skrifaði minningargrein um hann afa okkar. Grein sem ég man að þú hrósaðir mér fyrir og ég man það svo vel hvað mér þótti vænt um það hrós frá þér. Óhjákvæmilega munu þessar minningargreinar skarast að hluta því minningarnar sem mér þykir vænst um eru frá tímum okkar saman í sveitinni yndislegu og ekki síst á Böltanum í Svínafelli með ömmu og afa.

Það var alltaf svo gaman hjá okkur þegar ég var sendur í pössun til ömmu og afa, þegar mamma og pabbi þurftu að bregða sér af bæ. Hjá ykkur var maður í góðum höndum og alltaf höfðum við nóg fyrir stafni. Okkur leiddist aldrei. Það voru ófáar ferðirnar farnar niður eftir Skógarlæknum í Svínafell þar sem við fylgdum hvor sínum heimasmíðaða bátnum sem afi okkar hafði hjálpað okkur að smíða. Bátarnir urðu sífellt fleiri með árunum og flestir fengu þeir nafn frá bátunum úr gamla Útvegsspilinu sem spiluðum svo oft.

Það voru líka margir handboltaleikirnir sem við spiluðum á ganginum í Böltanum og þá var spilað upp í 100, hvorki meira né minna. Það er ótrúlegt að innréttingarnar á ganginum hafi komið þokkalega heilar út úr þessum hamagangi í okkur og enn ótrúlegra að við höfum aldrei verið skammaðir fyrir lætin í okkur.

Einnig vorum við duglegir við að glíma á túninu fyrir framan Böltann. Afi kenndi okkur nefnilega svokallaða bændaglímu. Í seinni tíð rifjuðum við oft upp þessar glímur og hvað þær hefðu örugglega verið tignarlegar eða kannski hitt þó heldur, tveir pattaralegir strákar að glíma út á miðju túni og afi að fylgjast með álengdar, glottandi út í annað.

En þrátt fyrir hamagang þá man ég ekki eftir því að það hafi nokkurn tímann slest upp á vinskapinn. Oft fundum við okkur þó rólegri viðfangsefni. Oft sátum við hlið við hlið upp í rúmi með Tinnabækurnar og lásum þær saman. Þar áttum við alltaf okkar sömu persónur í bókinni og lásum upphátt fyrir þær með tilheyrandi leikrænum tilburðum. Ég las alltaf fyrir Tinna en þú last alltaf fyrir Kolbein kaptein með miklum tilburðum og stundum öfundaði ég þig af því hvað þú varst góður í því og hvað þú lifðir þig inn í hlutverkið. Þú hafðir nefnilega lúmskt gaman af því að leika og kom það ennþá betur í ljós þegar við fórum að taka þátt í leikritum sem sett voru upp í Nesjaskóla þegar við vorum þar. Að sjálfsögðu vorum við herbergisfélagar á heimavistinni þar og ekki minnkaði vin- og frændskapurinn við það og einnig eru margar góðar minningar þaðan.

„Jæja pési“, eins og þú sagðir svo oft við mig og ég hafði svo gaman af, þá er komið að kveðjustund. Það er erfitt að kveðja svona góðan vin og frænda. Þú skilur eftir þig dóttur þína, hana Vigdísi Hrefnu, sem ég vona að ég fái að kynnast betur og fylgjast með í framtíðinni. En góðar minningar ylja og gott til þess að hugsa að núna ertu aftur kominn til ömmu og afa þar sem þú áttir líklega þín bestu ár.

Hvíldu í friði, elsku frændi og vinur. Þín verður sárlega saknað.

Þinn frændi og vinur,

Björgvin Óskar.