Frá 18. öld Handrit að konunglegri tilskipun 1776 ber með sér að reynt hafi verið að gera textann skiljanlegri alþýðu manna.
Frá 18. öld Handrit að konunglegri tilskipun 1776 ber með sér að reynt hafi verið að gera textann skiljanlegri alþýðu manna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hugtökin þrjú í fyrirsögninni er að finna í íslensku tungumálalögunum frá 2011. Þar segir í 10. grein: „Mál það sem er notað í starfsemi ríkis og sveitarfélaga eða á vegum þeirra skal vera vandað, einfalt og skýrt.

Hugtökin þrjú í fyrirsögninni er að finna í íslensku tungumálalögunum frá 2011. Þar segir í 10. grein: „Mál það sem er notað í starfsemi ríkis og sveitarfélaga eða á vegum þeirra skal vera vandað, einfalt og skýrt.“ Það er sjálfsögð krafa til stjórnvalda að málfar sé skýrt og skiljanlegt í öllu regluverki um réttindi og skyldur borgaranna. Fyrirtækjum í miklum samskiptum við almenning, t.d. tryggingafélögum, gagnast einnig að huga að skýrleika í allri framsetningu þótt ekki sé sú krafa til einkaaðila lögfest. Vísa má til samkeppnishæfni, kynningar og almannatengsla, að ógleymdri heilbrigðri skynsemi og samfélagsábyrgð.

Alþingi og forsætisráðuneytið hafa löngum hvatt til skýrrar málnotkunar í opinberum gögnum, sbr. leiðbeiningar í Reglum um frágang þingskjala og prentun umræðna (Alþingi 1988) og Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa (forsætisráðuneytið 2007). Viðleitnin er ekki ný af nálinni. Á vef Þjóðskjalasafnsins er pistill um uppkast að konunglegri tilskipun á íslensku um fiskveiðar og verslun (1776). Breytingar í skjalinu sýna að reynt var að gera textann skiljanlegri þeim sem myndu heyra hann lesinn upp á manntalsþingum, t.a.m. varð yfirbevísaður sannfærður o.s.frv.

Lagaákvæðið um skýrt mál gæti endurspeglað útbreidda hugmynd í málsamfélaginu um óskýra opinbera texta og stofnanamál og að úrbóta væri þörf. Sú skoðun hefur verið sett fram að tilkoma ákvæðisins 2011 eigi að hluta til sömu rætur og umræður eftir efnahagshrunið 2008 um nauðsyn aukins gagnsæis í stjórnsýslu. Þá mátti m.a. heyra raddir um að lög og reglur yrðu að vera á venjulegri íslensku sem fleiri en lögfræðingar gætu botnað í. En vísast má lagaákvæðið 2011 um skýrt mál þó einfaldlega helst rekja til þess að við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af sænsku lögunum frá 2009. Þar segir í 11. grein: „Språket i offentlig verksamhet ska vara vårdat, enkelt och begripligt.“

Rannsókn á því hvernig almenningi gengur að skilja dæmigerða löggjöf (sjá grein í Orði og tungu 2022) benti til þess að fólk skildi inntakið að langmestu leyti. Sumir þátttakendur áttu þó til að efast um eigin skilning á því sem þeir lásu svart á hvítu. Þegar einhverjum gekk treglega að komast í gegnum tiltekna lagagrein fólst vandinn helst í tvennu. Annað voru langar málsgreinar með aukasetningum, og hitt voru viss lögfræðiorð (t.d. varnarþing ), ásamt gömlu orðfæri á borð við firnari niðji („afkomandi sem er fjarlægari að ættartengslum“).

Í erfðaþætti Grágásar er t.a.m. fjallað um nánustu niði og firnari menn . Þótt hér sé góður vitnisburður um samfellu í íslensku lagamáli kárnar gamanið ef fólk vill kanna réttindi sín en strandar á orðafari sem er handan við daglegt tungutak. Hér kemur gjaldfrjálsa vefgáttin málið.is að góðu haldi. Þar tekur örskotsstund að finna og fræðast um varnarþing , firnari og niðja .

Ari Páll Kristinsson ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is

Höf.: Ari Páll Kristinsson ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is