Tónlistarhátíðin Óperudagar hefst á morgun, sunnudag 23. október, og stendur til 5. nóvember. „Óperudagar er hátíð klassískra söngvara og þeirra samstarfsfólks.

Tónlistarhátíðin Óperudagar hefst á morgun, sunnudag 23. október, og stendur til 5. nóvember.

„Óperudagar er hátíð klassískra söngvara og þeirra samstarfsfólks. Með hátíðinni viljum við skapa vettvang fyrir þennan hóp listamanna til þess að koma list sinni á framfæri,“ segir Guja Sandholt, listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Að þessu sinni er þema hátíðarinnar „auður“ og hefur það orð ýmsar skírskotanir.

Á Óperudögum verður boðið upp á um þrjátíu viðburði fyrir alla aldurshópa og á bilinu 150-200 listamenn taka þátt í þeim. Viðburðirnir fara fram í Norræna húsinu, Hörpu, Selfossi og Garðabæ, Kex hosteli, Iðnó, Grafarvogskirkju, Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, Dynjanda og Háteigskirkju.

Í ár er mikil áhersla lögð á viðburði fyrir börn og litast opnunardagskráin í Norræna húsinu mjög af því. Dagskrá verður fyrir alla fjölskylduna milli kl. 11 og 18.

Leikskólasýningin Bárur verður sýnd bæði kl. 11 og 12.30. Þar eru niður sjávarins og norræn goðafræði í forgrunni en Svafa Þórhallsdóttir tónskáld og félagar leiða börnin inn í ævintýraheim.

Þá verður haldin langspilssmiðja fyrir alla fjölskylduna með Eyjólfi Eyjólfssyni söngvara og þjóðfræðingi. Þar læra þátttakendur undirstöðuatriðin í langspilsleik, eins og stramm og plokk með álftafjöðrum. Einnig verður boðið upp á að strjúka strengina með hrosshársbogum. Því næst verða kennd vel valin lög úr þjóðlagasafni sr. Bjarna Þorsteinssonar.

Formleg opnun hátíðarinnar verður síðan haldin kl. 16 og þar verður dagskráin kynnt og frumfluttur nýr söngkvartett eftir Ásbjörgu Jónsdóttur við ljóð Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur.