Alma Levy Ágústsdóttir fæddist 24. ágúst 1929. Hún lést 13. október 2022. Útför fór fram 21. október 2022.

Alma á Ósum, sem alltaf var kölluð svo áður en hún flutti með manni sínum Jóni að Þorfinnsstöðum, var einstök manneskja, alltaf glöð og létt í lund og tók hlutunum með æðruleysi.

Hún ólst upp á Ósum, var ættleidd og fékk þá ættarnafnið Levy. Ég hefi þekkt Ölmu alla ævi en Hlíf frá því að hún flutti norður og var í miklu uppáhaldi hjá okkur. Oft var komið við á Þorfinnsstöðum hjá henni og Jóni þar sem kátt var á hjalla. Eftir að þau hættu búskap fluttu þau í húsið „Svaninn“ á Hvammstanga og eftir að Jón lést fyrir nokkrum árum bjó hún þar ein uns hún flutti á spítalann. Svo vildi til að Jón fæddist í þessu sama húsi.

Við komum oft í heimsókn í Svaninn og voru það gleðistundir og margt spjallað. Eftir að hún flutti á spítalann reyndum við alltaf að líta þar inn hjá henni og voru þær heimsóknir mjög gefandi.

Síðasta skiptið var 13. september síðastliðinn og var þá mjög af henni dregið. Okkur hafði þá dottið í hug að kveða fyrir hana eftirfarandi vísur sem ég samdi til hennar og gerðum það:

Ævilanga okkur þér

yndislegust kynni þakka,

stöðugt lífið streymir hér

stöku eina læt nú flakka.

Þegar okkur burtu ber

beint á fínar himnaslóðir

kemur þá af sjálfu sér

að sælir hittast vinir góðir.

Við hittum hana ekki aftur. Þetta var eins og lokakveðja, sem og reyndist vera, en ómeðvitað. Gleður okkur að hafa náð að þakka henni fyrir allt.

Svo vildi til að sama dag og hún dó vorum við stödd á spítalanum og höfðum í huga að líta við hjá henni að því loknu, sem skiljanlega varð ekki úr.

Ótal minningar mætti rifja upp en ekki rúm hér. Þó mætti taka eina stutta með.

Vorið 1967 eða '68 fórum við Kristleifur félagi minn úr KR norður á gæsaveiðar og vorum á jeppa með bílstjóra. Var farið til baka á sunnudegi, þá skollin á norðanhríð og heiðin lokuð og kolófær, en við létum ekki slíka smámuni hindra.

Alma átti tíma í bakaðgerð í Reykjavík og lá á að komast suður en fékk enga ferð, fór með okkur. Keyra þurfti mikið utan vegar, sem tók langan tíma og hoppaði bíllinn oft harkalega. Hún sat aftur í og varð því vel vör við og hlýtur að hafa fundið mjög til í bakinu.

Aldrei heyrðist orð frá henni um það og vorum við að grínast með að líkalega þyrfti hún ekki að fara í aðgerð, þetta gerði sama gagn.

Jóhannes sonur var líka með, þá fjögurra ára, og lét ekkert á sig fá. þetta var glannalegt með tvo vanhæfa aðila í stórhríð. En sjálfstraustið var óbilandi.

Alma hafði þann sið mörg síðustu ár að hafa svokallað Fríðukaffi 1. mars til að halda upp á afmæli Fríðu systur sinnar sem þá var látin. Bakaði hún pönnukökur í minningu hennar, vorum við sem og Lilla og Siggi fastagestir.

Kalt er haustið, hússins sólarljómi,

horfinn er að Alvaldsdómi,

litum bregður loft og jörð og sær.

Móðir systir kona kvenna sómi,

Kalt er lífið horfinn allur blómi,

drúpir sveit, en hnípir höfðingsbær.

Glóðheit tár þér grátnir vinir færa.

Guð þér launi dyggð og trú.

(M. Joch)

Sendum innilegustu samúðarkveðjur til allra aðstandenda.

Hlíf og Agnar.