Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Hryssan þetta heiti ber. Hetja kvikmyndanna er. Vínsopi það vera má. Vel á lofti megum sjá. Helgi R. Einarsson leysir gátuna þannig: Frekar stygg er Stjarna mín. Stjörnur myndir prýða.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Hryssan þetta heiti ber.

Hetja kvikmyndanna er.

Vínsopi það vera má.

Vel á lofti megum sjá.

Helgi R. Einarsson leysir gátuna þannig:

Frekar stygg er Stjarna mín.

Stjörnur myndir prýða.

Staupi í er stjarna vín.

Stjörnur um hvolfin líða.

Magnús Halldórsson á þessa lausn:

Heitið Stjarna hryssan bar,

í Hollívúdd finnst múvístar.

Rónum stjarnan alkunn er,

upp á himins brautum fer.

Sigmar Ingason svarar:

Við stallinn stendur Stjarna kembd og

þvegin

Stjörnum mörgum hvíta tjaldið hampar

Stjarna í glas með þökkum oft er þegin

Þung sigla ský þótt skíni himinlampar.

Guðrún B. á þessa lausn:

Hryssa heitir Stjarna,

hún er stjarna barna.

Stjarna: lögg í staupum.

Stjarna: jörð á hlaupum.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Stjarna hryssu heiti er.

Humphrey Bogart stjarna sú.

Stjarna vín mun vera hér.

Varpar stjarna ljóma nú.

Þá er limra:

Það var angist og uppnám hjá konum,

og ekki nema að vonum,

þegar filmstjarna ein

kyssti afgamla Svein

og andlitið datt af honum.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Óðardís mér lagði lið

lausa stund að nýta,

gátu til að glíma við

getur hér að líta:

Nú finna skal á fljóti vað.

Finna á dúk svo megum það.

Hluti víst á hespu er.

Höfuðsynd, sem varast ber.

Sr. Helgi Sveinsson kvað svo;

Komdu og sýndu sæmd og rögg

sól er í miðjum hlíðum.

Dagsins glymja hamarshögg,

heimurinn er í smíðum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is