Svava Bjarkadóttir fæddist 14. ágúst 1991. Hún lést 4. október 2022. Útför fór fram 20. október 2022.

Elsku Svava, það er svo sárt að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur. Yndislega mágkona mín en samt svo miklu meira en það. Þú varst mér eins og systir, sú sem ég gat alltaf leitað til og varst alltaf til staðar fyrir okkur Amilíu. Þú varst okkar stoð og stytta.

Ég man alltaf eftir sumrinu þegar ég kynntist þér, þegar þú og Hreiðar voruð að byrja saman. Þú komst inn í líf okkar á erfiðum tímum og það sem situr mér efst í huga er hvernig þú hélst utan um okkur systkinin og passaðir upp á okkur.

Ég er svo þakklát fyrir allan þann tíma sem ég og Amilía fengum með þér og þær minningar sem mynduðust. Öll ferðalögin okkar saman. Stundirnar sem við deildum með börnunum okkar.

Okkar stundir þar sem við vorum bara við tvær saman að spjalla, hvort sem það var í síma, heima eða bara í sófanum í Plié.

Allur undirbúningurinn hjá okkur síðustu mánuði fyrir brúðkaupið þitt og Hreiðars. Það að þú treystir mér fyrir öllu og vildir alltaf mitt álit verð ég ævinlega þakklát fyrir.

Það sem ég á eftir að sakna þessara stunda með þér og að geta ekki spjallað við þig elsku Svava.

Við Amilía munum sakna þín og ég lofa að halda minningu þinni á lofti fyrir Hreiðar Geir og fyrir yndislegu börnin ykkar Klöru Lind, Aldísi Evu og Hektor Orra. Megi Guð styrkja ykkur og aðra ástvini í þessari miklu sorg. Hvíl þú í friði.

Kristín Björg

Jörundsdóttir.

Elsku yndislega vinkona mín er fallin frá langt fyrir aldur fram. Að sjá á eftir vinkonu sinni á besta aldri í blóma lífs síns er svo ósanngjarnt og sárt og sýnir hvað lífið getur verið hverfult. Ég á erfitt með að koma öllum hugrenningum mínum í orð í þessari miklu sorg. Svava var fastur punktur í lífi mínu og vinkvennanna enda traust vinkona.

Við vorum menntaskólavinkonur. Síðan þá höfum við vinkonurnar verið með mánaðarlegan saumó sem var í algjörum forgangi hjá okkur öllum að mæta í. Samverustundir okkar einkenndust af hlátursköstum, kósíheitum, matargræðgi og þessu yfirburðatrausti sem ríkir í sannri vináttu. Enda var allt látið flakka og þarna komum við saman til að losa um tilfinningar okkar sem við nutum að geta rætt hver við aðra. Gleðin var allsráðandi og minnist ég þess hversu margar góðar frásagnir komu frá Svövu. Alltaf sagði hún nokkrar sögur af Aldísi prakkara sem kom okkur öllum sífellt í hláturskast því hún er svo uppátækjasöm og mikill grallari. Frásagnir af Klöru voru í öðrum dúr þar sem hún spilaði þetta móðurhlutverk með mömmu sinni og hjálpaði oft með yngri systkini sín og sýndi mikla ábyrgð. Hektor var svo litla mömmugullið sem bræddi mömmu sína alla daga. Það kom svo vel fram í „snöppum“ frá henni heima í fæðingarorlofinu og í samtölum okkar. Börnin hennar og Hreiðars voru henni allt og stoltið leyndi sér ekki. Svava og Hreiðar áttu fallegt samband og ég man hversu stolt Svava var þegar hún sagði okkur frá trúlofuninni. Við ískruðum af spenningi og grandskoðuðum hringinn enda hafði hún beðið með eftirvæntingu eftir að setja hring á fingur sér. Það fór ekki á milli mála að þarna væri um alvöruást að ræða.

Umræðuefni eins og fjölskyldan, brúðkaup, barneignir, ferðalög, fasteignir, Love Island, Kardashian-fjölskyldan og konungsfjölskylda Bretlands dúkkuðu iðulega upp í saumó ásamt góðu slúðri. Án Svövu okkar verða saumó aldrei eins en við munum halda minningu hennar lifandi um ókomna tíð enda kemur hún alltaf til með að vera hluti af okkur.

Ég minnist þess þegar ég gaf yngri drengnum mínum Theódór Helga nafnið sitt og ég spurði Svövu: „Hvað finnst þér um nöfnin?“ Þá kom glott á mína og heiðarleiki hennar skein svo skýrt í svarinu: „Mér finnst Helgi mjög fallegt ... en þú veist hvað mér finnst um þessa Th-samsetningu, Laufey mín.“ Ég mun sakna þess að fá þessi heiðarlegu en settlegu svör sem gerðu vináttuna algjörlega ekta.

Svava mín, ég er fyrst og fremst þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með þér og allar þær minningar sem sköpuðust sem ég geymi í hjarta mínu. Það er sárt að hugsa til þess að við gátum ekki farið saman í þrítugsafmælisferðina okkar en við stelpurnar munum gera það eins og þú hefðir viljað og þráðir svo heitt. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að kveðja þig en þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu.

Elsku Hreiðar, Klara Lind, Aldís Eva, Hektor Orri og fjölskylda, missir ykkar er mikill og sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hugur minn er hjá ykkur á þessum sáru og erfiðu tímum.

Þín vinkona,

Laufey Rún I.

Að láta gott af sér leiða, skipta sér af, gefa þeim rödd sem þess þurfa, valdefla og virkja eru leiðarstef í tómstunda- og félagsmálafræðunum. Við sem vinnum við að mennta fólk á þessu mikilvæga sviði búum við þau forréttindi að kynnast, bæði í leik og starfi, ungum og efnilegum einstaklingum á þessu sviði. Ungt fólk sem hefur þann einlæga ásetning að ganga til góðs. Fólk sem mótast, verður sérfræðingar og fagfólk, fer út í lífið, tekst á við áskoranir í faginu og setur mark á umhverfi sitt. Vinkona okkar og kollegi Svava Bjarkardóttir var einn þessara einstaklinga og á þessari vegferð. Svava var hluti af öflugum útskriftarhópi árið 2015. Lokaverkefni hennar, „Hvernig geta skipulagðar tómstundir stutt við skilnaðarbörn“, er metnaðarfullt og vandað innlegg í mikilvæga umræðu. Gott framlag til fræðanna. Svava gekk svo sannarlega til góðs þó svo að vegferðin hafi verið óbærilega stutt. Fyrir kynnin og samferðina erum við þakklát. Sorgin er nístandi og það er algerlega óskiljanlegt hve þetta spilverk tilverunnar getur verið ósanngjarnt. Hugur okkar er hjá börnum, unnusta, ættingjum og vinum Svövu, sorg þeirra er mikil. Þeim vottum við okkar dýpstu samúð og biðjum alla góða vætti að vernda og vaka yfir á þessum erfiðu tímum. Minning um góða manneskju lifir.

Árni, Eygló,

Jakob og Vanda.

Hvernig á maður að sætta sig við að setjast niður og skrifa minningargrein um vinkonu sína aðeins 31 árs gamla? Síðustu dagar hafa einkennst af mikilli sorg og söknuði en líka af þakklæti og minningum. Það er svo margt sem við brölluðum saman þessi 17 ár sem við höfum verið vinkonur.

Leiðir okkur lágu saman í Digranesskóla í 9. bekk, ég nýkomin í skólann þegar þú komst líka. Við urðum strax góðar vinkonur og höfum haldið sambandi síðan. Við vorum búnar að þekkjast í nokkra mánuði þegar þú komst með mér og mömmu til Costa del Sol, sú ferð er mér afar dýrmæt. Útskriftarferðin til Tyrklands er ógleymanleg ásamt vinkonuferðinni til Edinborgar.

Svava var einstök manneskja. Frábær vinkona, alltaf tilbúin að hjálpa fólkinu í kringum sig, góðhjörtuð, skemmtileg og falleg. Svava var alltaf ótrúlega dugleg og ákveðin og auðvitað var hún sú fyrsta í okkar hópi til að kaupa sér bíl, þótt hún hafi fengið bílpróf með þeim síðustu af okkur. Það er ógleymanlegt þegar hún sendi mér sms þegar hún keypti bílinn, ég þá erlendis: „Ég keypti bíl í dag, graan lancer.“ Ég var himinlifandi og sagði mömmu að Svava hefði keypt sér gran lancer-bíl, við vorum lengi að átta okkur á hvaða tegund þetta var og ég spurði Svövu, sem hristi hausinn yfir vinkonu sinni og að þetta væri „gráan Lancer“, þá hafði hún ekki sett kommu í sms-ið og ég misskildi þetta! Við hlógum að þessu endalaust og gerðum grín að þessu í mörg ár.

Allar minningarnar okkar eiga svo stóran sess í hjarta mínu, sem er mölbrotið. Ég verð ævinlega þakklát fyrir saumaklúbbinn sem við héldum einu sinni í mánuði, þeir verða tómlegir án þín. Ég mun lifa á þessum minningum um ókomin ár og vona að þær púsli hjartanu mínu saman hægt og rólega, þótt það verði aldrei heilt aftur.

Ég fór alltaf til Svövu til þess að fá álit, því Svava var hreinskilin og sagði nákvæmlega það sem henni fannst. Þetta er dýrmætur eiginleiki í vinkonu. Hver á núna að segja mér að fötin sem ég sé í séu alltof litrík? Eða hrista hausinn yfir því að halda upp á öll tilefni sem gefst og „bjóða öllu þessu fólki“?

Elsku besta Svava mín, ég sakna þín svo sárt. Ég syrgi allar minningarnar sem við áttum eftir að eiga, ég syrgi fyrir Hreiðar Geir að fá ekki að verða samferða þér lengur, ég syrgi fyrir börnin þín sem alast upp án bestu mömmu í heimi, því það var það sem einkenndi þig svo sterkt, að vera mamma. Ég syrgi fyrir okkur öll að fá ekki meiri tíma með þér.

Elsku Hreiðar Geir, Klara Lind, Aldís Eva, Hektor Orri, fjölskylda og vinir Svövu. Mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra. Höldum fast í minningarnar um yndislegu Svövu okkar.

Minning þín stendur eftir hér,

er vindur hvín, finnst ég heyra í þér.

Það er sárt að kveðja elsku hjartans vina mín,

en með þungum harm ég kveð þig um sinn.

(Sverrir Bergmann)

Ég elska þig, alltaf.

Þín vinkona,

Tanja Rut

Hermansen.

Það er með miklum trega sem við kveðjum Svövu Bjarkadóttur. Það voru þungar fréttir sem okkur bárust þriðjudaginn 4. október um að Svava okkar væri látin. Svava hóf störf hjá okkur í Hofsstaðaskóla haustið 2015, þá nýútskrifuð úr félags- og tómstundafræðum. Hún var samviskusöm, hæglát en ákveðin, glaðlynd og mjög stolt móðir Klöru Lindar. Hún féll vel inn í starfsmannahópinn og var mjög umhugað um nemendur, átti auðvelt með að setja sig í spor þeirra. Hún hafði ekki hátt, en hafði sterka rödd á vinnustaðnum. Hún brann fyrir að vinna með börnum og gerði það vel. Með árunum varð hún staðráðin í því að verða kennari og hóf nám samhliða starfi til þess að afla sér kennsluréttinda.

Hún vann lengst af sem stuðningsfulltrúi en tók að sér umsjónarkennslu í 1. bekk í upphafi árs 2021. Um haustið vantaði umsjónarkennara í 5. bekk og þá steig Svava fram og tók það verkefni að sér sem er lýsandi fyrir áræðnina sem hún bjó yfir. Hún sinnti umsjónarkennslunni vel og er mikil sorg í nemendahópnum. Svava sinnti mörgum nemendum á starfsferlinum sem hafa minnst hennar með hlýju og þakklæti síðustu daga. Ekki er sorgin minni meðal starfsmanna skólans. Hún átti marga góða vini í hópnum og hefur skólahaldið einkennst af miklum söknuði ásamt þeirri ringulreið sem á sér stað í hugsunum okkar þar sem spurningin hljómar, hvernig gat þetta gerst?

Á þessari stundu er hugur okkur þó fyrst og fremst hjá börnunum hennar Klöru Lind, Aldísi Evu og Hektori Orra sem og Hreiðari Geir, sambýlismanni hennar og barnsföður. Við vottum fjölskyldu og vinum, okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

Þín augu mild mér brosa

á myrkri stund

og minning þín rís hægt

úr tímans djúpi

sem hönd er strýkur mjúk

um föla kinn

þín minning björt.

(Ingibjörg Haraldsdóttir)

Skólastjórnendur Hofsstaðaskóla,

Arnheiður Ösp Hjálmarsdóttir, Bergljót Vilhjálmsdóttir, Hafdís Bára Kristmundsdóttir, Margrét Erla Björnsdóttir og Margrét

Einarsdóttir.

Þung eru skrefin í dag þegar við þurfum að kveðja elsku Svövu okkar. Hver hefði trúað því að við ættum eftir að setjast niður og skrifa minningargrein um unga konu sem átti allt lífið fram undan með yndislega Hreiðari Geir sínum og börnunum þremur þegar þér er kippt úr lífi þeirra eins og hendi sé veifað.

Þegar þú komst inn í líf Hreiðars varstu kletturinn hans og varst honum allt. Þið voruð svo samrýnd og gerðuð allt saman og nutuð þess að vera með litlu krílunum ykkar. Þið voruð farin að skipuleggja brúðkaupið ykkar sem átti að vera í ágúst á næsta ári og lífið blasti við ykkur.

Við kveðjum í dag elsku Svövu sem var einstök manneskja, ljúf, góð og yndisleg. Við þökkum fyrir frábæru stundirnar sem við áttum með þér í gegnum árin og yljum okkur við góðar minningar.

Elsku Hreiðar Geir, Klara Lind, Aldís Eva, Hektor Orri, foreldrar, tengdaforeldrar og systkini, missir ykkar er mikill og sendum við ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góði guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg. Hvíl í friði elsku Svava, minning þín er ljós sem lifir.

Þegar þú ert sorgmæddur,

skoðaðu þá aftur hug þinn og

þú munt sjá að þú

grætur vegna þess,

sem var gleði þín.

(Kahlil Gibran)

Ólafía, Magnús,

Guðmundur, Oddný

og börn.

Elsku besta gullkonan mín! Ég á engin orð til að lýsa síðustu dögum og get enn ekki komist yfir þá staðreynd að þú sért farin frá öllum þeim sem sakna þín svo sárt! Á sama tíma er ég þakklát fyrir allar stundirnar okkar í kvennastyrk, í vinnunni og þær stundir sem við náðum að skála. Allan tímann sem við eyddum í að skoða barnaföt á netinu, senda hvor annarri góð tilboð og sannfæra okkur um að kaupa falleg föt á börnin okkar. Ég er þakklát fyrir myndirnar og minningarnar sem eftir sitja.

Þú varst ein af þeim traustustu og bestu sem alltaf var hægt að leita til og alltaf með bestu ráðin. Þú dæmdir aldrei, sýndir svo mikinn skilning og kærleik. Þú varst skipulagsdrottning af bestu gerð með allt á hreinu, besta mamman, svo mikil fyrirmynd í einu og öllu.

Nú nýlega var ég stödd í London þar sem ég labbaði um drottningarsvæðið og fór í „high tea“. Ég hugsaði svo sterkt til þín en ég þekki fáa sem elska allt tengt bresku drottningunni meira en þú gerðir! Eins og þú sagðir orðrétt í einu myndbandi sem við eigum eftir eina samveruna: „Ég er ávallt drottningin, sama hvað“. Það eru orð að sönnu! Takk fyrir allt, elska þig ávallt.

Þín gullkona & „workwife“,

Hafrún Lilja

Elíasdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku kæra Svava.
Ég mun alltaf elska þig og ætla alltaf að horfa upp til himins og hugsa til þín.
Elska þig.
Amilía Ýr
Kristínardóttir.