Mótmæli Hælisleitendur hafa mótmælt því að fólki úr þeirra hópi sé vísað úr landi. Sumir sem er hafnað fá endurkomubann sem gildir í minnst tvö ár.
Mótmæli Hælisleitendur hafa mótmælt því að fólki úr þeirra hópi sé vísað úr landi. Sumir sem er hafnað fá endurkomubann sem gildir í minnst tvö ár. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Útlendingastofnun segir að það fari eftir þeirri málsmeðferð sem umsókn fær hvort umsækjanda um vernd sé vísað brott í kjölfar synjunar eða ekki.

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Útlendingastofnun segir að það fari eftir þeirri málsmeðferð sem umsókn fær hvort umsækjanda um vernd sé vísað brott í kjölfar synjunar eða ekki. „Umsækjendur sem fá umsókn sína afgreidda í forgangsmeðferð fá brottvísun og endurkomubann samhliða ákvörðun um synjun og er ekki veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar. Í forgangsmeðferð eru meðal annars afgreiddar umsóknir sem taldar eru bersýnilega tilhæfulausar en til þeirra teljast alla jafna umsóknir frá ríkisborgurum ríkja á lista yfir örugg upprunaríki,“ segir í svari stofnunarinnar. „Umsækjendur sem er synjað í öðrum tegundum málsmeðferðar fá frávísun frá landinu og tækifæri til að yfirgefa það sjálfviljugir. Fari þeir ekki innan þess frests sem veittur er til sjálfviljugrar heimfarar getur brottvísun komið til álita.“

Hafi einstaklingi verið birt ákvörðun um brottvísun og endurkomubann eru upplýsingar um það skráðar í Schengen-upplýsingakerfið. Það er rafrænt og tengt sameiginlegu upplýsingakerfi á Schengen-svæðinu. Endurkomubann getur verið varanlegt eða tímabundið. Það skal að jafnaði ekki gilda skemur en í tvö ár og nær yfirleitt til alls Schengen-svæðisins. „Reyni einstaklingur með skráð endurkomubann að ferðast inn á Schengen-svæðið koma upplýsingar um bannið fram við landamæraeftirlit og er þá heimilt að meina viðkomandi landgöngu.“

Umsækjendur sem er synjað vegna þess að þeir hafa þegar fengið vernd í öðru landi fá yfirleitt ekki brottvísun heldur frávísun. Þeir hafa í flestum tilvikum fengið dvalarleyfi í öðru Schengen-ríki á grundvelli verndarinnar. Þess vegna er ekki hægt að beita endurkomubanni sem nær til alls Schengen-svæðisins. Útlendingastofnun segir mögulegt að ákvarða endurkomubann aðeins til Íslands. Ekki er virkt vegabréfaeftirlit innan Schengen-svæðisins því myndi slíkt endurkomubann ekki koma í veg fyrir að viðkomandi gæti ferðast aftur til Íslands.

Ef endurkomubann er fyrir hendi hefur lögreglan heimild til að vísa viðkomandi frá við komu til landsins. Sú heimild myndi þó falla niður ef viðkomandi óskaði eftir alþjóðlegri vernd á landamærunum. Íslensk stjórnvöld yrðu þá að taka afstöðu til umsóknar aðilans jafnvel þótt það hefði verið gert áður.

Útlendingastofnun segir að meðferð endurtekinna umsókna um vernd fari að nokkru leyti eftir því hvaða málsmeðferð umsækjandi fékk þegar hann sótti fyrst um vernd hér. „Sæki einstaklingur um vernd sem áður hefur verið synjað í forgangsmeðferð er umsóknin metin bersýnilega tilhæfulaus og afgreidd á ný í forgangsmeðferð. Ákvörðun um synjun er vísað beint til framkvæmdar hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra og kæra frestar ekki réttaráhrifum,“ segir Útlendingastofnun.

„Sæki einstaklingur um vernd sem skömmu áður hefur fengið efnislega niðurstöðu í fyrri umsókn um vernd er heimild í lögum um útlendinga til að afgreiða málið í forgangsmeðferð. Þá fær viðkomandi alla jafna brottvísun og endurkomubann með synjun um vernd í skjótri málsmeðferð hjá Útlendingastofnun. Ef viðkomandi kærir ákvörðunina frestast réttaráhrif hennar þó sjálfkrafa og fær viðkomandi að dvelja hér á landi þar til hann fær niðurstöðu í mál sitt hjá kærunefnd útlendingamála.

Annir í landamæragæslu

Efla þarf lögreglu á landamærum til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Mjög hefur fjölgað málum hjá lögreglu á landamærum Íslands sem tengja má skipulagðri brotastarfsemi. Þetta kemur fram í stöðumati greiningardeildar ríkislögreglustjóra 2022, sem ber yfirskriftina Skipulögð brotastarfsemi.

Tilraunum til fíkniefnainnflutnings á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað mikið. Oft eru brotahópar að nýta sér neyð einstaklinga. „Umsækjendum um alþjóðlega vernd hefur fjölgað mikið. Þetta er fólk í viðkvæmri stöðu sem er hætta á að skipulagðir brotahópar hagnýti, t.d. með smygli og mansali. Alþjóðleg löggæsluyfirvöld hafa varað við því að skipulagðir hópar nýti sér aðstöðu þeirra einstaklinga sem eru í viðkvæmri stöðu,“ segir í stöðumatinu.