Xi Jinping virðist enn ætla að treysta tök sín

Xi Jinping, leiðtogi Kína, mun væntanlega standa með pálmann í höndunum þegar 20. þingi kínverska kommúnistaflokksins lýkur nú um helgina, valdameiri en nokkru sinni fyrr.

Leiðtogar kínverska kommúnistaflokksins eru valdir til fimm ára í senn. Xi hefur þegar setið í tvö tímabil og yrði þetta því þriðja tímabilið hans við völd.

Kveðið var á um það í kínversku stjórnarskránni að leiðtogi flokksins mætti aðeins sitja í tvö tímabil. Árið 2018 kom Xi því til leiðar að það ákvæði yrði fjarlægt. Nú gilda engin mörk. Því hefur verið haldið fram að Xi ætli sér að vera við völd til 2037. Þá verður hann 84 ára gamall.

Xi nýtti fyrstu fimm ár sín við völd til að losa sig við helstu keppinauta og tryggja tak sitt á valdataumunum. Undanfarin fimm ár hefur síðan orðið mikill viðsnúningur á stjórnarfarinu í landinu. Markmiðið er að tryggja völd flokksins.

Í valdatíð Xis er Kína orðið að alltumlykjandi eftirlitsríki, sem ekki á sér hliðstæðu nema í skáldskap. Njósnastofnanir gömlu ráðstjórnarríkjanna þorðu vart að láta sig dreyma um að geta stundað það eftirlit, sem nú fer fram með almenningi í Kína.

Allt andóf er kveðið niður með harðri hendi. Grófasta dæmið er meðferðin á Úígúrum í Xinjiang-héraði. Kínversk stjórnvöld hafa ofsótt þá og er talið er að um ein milljón manna sé í fangabúðum. Markmiðið er að þurrka út menningu þeirra.

Það sama hefur verið uppi á teningnum í Hong Kong, þótt harkan sé ekki jafnmikil. Þar er markmiðið að uppræta allar lýðræðistilhneigingar.

Stjórnvöld vakta netið af hörku og reyna að kæfa alla óþægilega umræðu í fæðingu. Oft eru hlutir umorðaðir á spjallsíðum til að komast fram hjá ritskoðuninni. Andófsmenn eiga ekki sjö dagana sæla. Xi hefur hins vegar lagt áherslu á að auka velmegun og jafnt og þétt fer þeim fækkandi, sem búa við fátækt.

Faðir Xis, Xi Zhongxun, var einn af forkólfum byltingarinnar, en féll í ónáð hjá Maó, var sviptur öllum sínum vegtyllum og sendur til starfa í dráttarvélaverksmiðju. Í menningarbyltingunni var hann síðan fangelsaður og niðurlægður.

Xi Jinping var sendur út á land í þorpið Liangjihae til að læra af bændum. Vistarverur hans þar eru nú safn.

Þótt kommúnistaflokkurinn hefði útskúfað fjölskyldu hans sóttist Xi eftir því að ganga í hann. Hann mun hafa sótt um í tíu skipti áður en innganga hans var loks samþykkt. Haft er eftir honum að trú sem glatist og finnist á ný sé sterkari en nokkuð annað. Í skjölum bandaríska sendiráðsins í Peking, sem lekið var til Wikileaks, er haft eftir vini Xis að til að lifa af hafi hann orðið „rauðari en þeir rauðu“.

Nú hefur Xi leitt flokkinn í tíu ár. Hann er valdamesti maður Kína og einhverjir kynnu að halda því fram að hann væri valdamesti maður heims. Honum er líkt við Maó, en þótt hann ætli að tryggja völd flokksins hyggst hann þó ekki skapa sama glundroðann og Maó með stökkinu stóra og menningarbyltingunni.

Xi ætlar að tryggja að kommúnistaflokkurinn í Kína fari ekki sömu leið og sá rússneski þegar Mikhaíl Gorbatsjov var við völd. Hann vill ekkert með vestræn gildi hafa, algild réttindi eða frjálsa fjölmiðla. Ekki er að sjá að neitt geti komið í veg fyrir að Xi verði áfram leiðtogi kínverska kommúnistaflokksins. „Hugsun Xi“ er meira að segja orðin hluti af kínversku stjórnarskránni.

Ekki gengur þó allt að óskum í veldi hans. Xi ákvað, þegar kórónuveirufaraldurinn hófst, að bregðast hart við og setja allt í lás í hvert skipti sem veiran greindist. Það hefur sett kínverskt efnahagslíf úr skorðum og áhrifin af því finnast langt út fyrir landsteinana.

Í tíð Xis hefur dregið úr frelsi í efnahagslífinu. Hann treystir ekki einkaframtakinu og vill ekki að þar verði menn svo valdamiklir að þeir geti skákað flokknum. Nú er svo komið að erlend fyrirtæki hugsa sig tvisvar um áður en þau efna þar til skuldbindinga. Ef ekki tekst að efna loforðið um vaxandi velmegun mun það veikja Xi.

Hvað sem því líður er hann þó traustur í sessi og mun halda áfram að hlaða undir áhrif og ítök Kína um heim allan á meðan völd flokksins verða áfram treyst heima fyrir. Þeir sem mögla munu ekki eiga sjö dagana sæla.