Skuldafen Fyrirséð er að ÍL-sjóður muni skila gegndarlausu tapi næstu áratugi. Því ráða alvarleg mistök sem gerð voru við fjármögnun sjóðsins í upphafi nýrrar aldar. Áætlað er að árlegt tap hans muni nema 18 milljörðum króna.
Skuldafen Fyrirséð er að ÍL-sjóður muni skila gegndarlausu tapi næstu áratugi. Því ráða alvarleg mistök sem gerð voru við fjármögnun sjóðsins í upphafi nýrrar aldar. Áætlað er að árlegt tap hans muni nema 18 milljörðum króna. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Sú ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra að hóta lánardrottnum ÍL-sjóðs, áður Íbúðalánasjóðs, því að fyrirtækið verði sett í slitameðferð nema þeir gefi gríðarlegar fjárhæðir eftir og taki skuldbindingar þess í fangið, olli miklum titringi í fjármálakerfinu hér á landi. Margir starfsmenn lífeyrissjóða og sjóðastýringafyrirtækja vöktu nær alla aðfaranótt föstudagsins til þess að átta sig á hvaða áhrif yfirlýsing ráðherra myndi hafa á verðmyndun með skráð skuldabréf ÍL-sjóðs, þegar markaðir opnuðu aftur í gærmorgun.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Sú ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra að hóta lánardrottnum ÍL-sjóðs, áður Íbúðalánasjóðs, því að fyrirtækið verði sett í slitameðferð nema þeir gefi gríðarlegar fjárhæðir eftir og taki skuldbindingar þess í fangið, olli miklum titringi í fjármálakerfinu hér á landi. Margir starfsmenn lífeyrissjóða og sjóðastýringafyrirtækja vöktu nær alla aðfaranótt föstudagsins til þess að átta sig á hvaða áhrif yfirlýsing ráðherra myndi hafa á verðmyndun með skráð skuldabréf ÍL-sjóðs, þegar markaðir opnuðu aftur í gærmorgun.

Leituðu fyrirtækin m.a. ásjár Kauphallar Íslands og var það meining sumra að stöðva ætti viðskipti með skuldabréfin, svo mikil óvissa væri komin upp varðandi vænt uppgjör þeirra. Kauphöllin steig ekki svo róttækt skref en setti bréfin á athugunarlista „með vísan til óvissu varðandi útgefandann og verðmyndun bréfanna,“ eins og Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, orðaði það í svari til mbl.is.

Bjarnagreiði við landsmenn

Gagnrýnin lýtur þó ekki aðeins að upplýsingagjöf, eða skorti á henni, heldur þeirri ákvörðun ráðherra að skáka í skjóli takmarkaðrar ríkisábyrgðar og losa ríkissjóð þannig undan því að standa skil á skuldbindingum sem stofnun í hans nafni stofnaði til fyrir tæpum tveimur áratugum síðan.

„Málið er sett fram af fjármálaráðherra eins og hann sé að gera landsmönnum einhvern greiða með þessum gjörningi. Í raun og veru er ríkissjóður með þessu að reyna að fara í vasa almennings. Þetta er tilraun til þess að ganga í sparnað almennings, sparnað sem sem liggur í lífeyrissjóðum og verðbréfasjóðum sem eru í eigu landsmanna,“ segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Gildi lífeyrissjóði, einum stærsta lífeyrissjóði landsins. Ekki liggur fyrir nákvæm greining á því hverjir lánardrottnar ÍL-sjóðs eru, eða hvernig tjón þeirra af fyrirhugðum aðgerðum mun skiptast. Þekkingarmaður á fjármálamarkaði segir þó í samtali við Morgunblaðið að tjón lífeyrissjóða af aðgerðinni muni nema ríflega 100 milljörðum króna. Það jafngildir öllum nettó lífeyrisgreiðslum inn í sjóðina í heilt ár. Þær voru 109 milljarðar á árinu 2021.

Ábendingar hafa sömuleiðis borist um að allmargir lífeyrissjóðir hafi búið við þrönga tryggingafræðilega stöðu þegar kom inn á árið 2022. Sú staða hafi síst batnað við mikið fall á flestum fjármálamörkuðum síðustu mánuði. Þeir muni því í mörgum tilvikum þurfa að lækka réttindi sjóðfélaga sinna á á nýju ári, en lög kveða á um hvernig það skuli gert. Ákvörðun fjármálaráðherra hafi því í einhverjum tilvikum ýtt viðkomandi sjóðum yfir bjargbrúnina og að þeir eigi engin tromp uppi í erminni lengur til að koma í veg fyrir réttindaskerðingu sjóðfélaga.

Engin viðskipti voru með skuldabréf ÍL-sjóðs í Kauphöll í gær og er það sagt til marks um að engin eftirspurn sé eftir því að kaupa þau í þeirri óvissu sem uppi er núna. Hins vegar hækkaði ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréfum og í lengri endanum nam hækkunin meira en 100 punktum. Þá var þátttaka í útboði ríkisbréfa, á vettvangi Lánamála ríkisins, sem fram fór í gær, afar dræm. Engum tilboðum var tekið í flokknum RIKB 28 1115 og tilboðum fyrir fjárhæð 2.430 milljónir var tekið í flokknum RIKB 24 0415.

Rýrir trúverðugleika ríkisins

Davíð Rúdólfsson segir í samtali við Morgunblaðið að ákvörðun fjármálaráðherra sé til þess gerð að valda óþarfa usla á markaði og rýra trúverðugleika ríkissjóðs.

„Þessi hótun um að beita lagasetningarvaldi Alþingis til að keyra ÍL-sjóð í þrot er til þess fallin að rýra traust og trúverðugleika ríkissjóðs fram á veginn. Þessi vegferð er líklega til að draga úr trausti fjármálamarkaðarins á öllum framtíðarútgáfum með ábyrgð ríkissjóðs,“ segir Davíð.