[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir fæddist 22. október 1982 á Siglufirði þar sem lognið á lögheimili, að sögn Hönnu, og ólst hún þar upp. „Þetta var rólegt og frjálst samfélag og allir úti á kvöldin að leika.

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir fæddist 22. október 1982 á Siglufirði þar sem lognið á lögheimili, að sögn Hönnu, og ólst hún þar upp. „Þetta var rólegt og frjálst samfélag og allir úti á kvöldin að leika. Ég æfði gönguskíði á veturna og fótbolta á sumrin.“

Hanna gekk í grunn- og gagnfræðaskóla á Siglufirði og byrjaði framhaldsskólagönguna í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. „Þar bjó ég á heimavist og svo síðar hjá stórfrænku minni og föðursystur, Guðrúnu Sölvadóttur, og fjölskyldu. Ég tók mér pásu frá námi og fór til Suður-Spánar, nánar tiltekið Nerja í Andalúsíu, í spænskunám ásamt æskuvinkonu minni, Söndru Finnsdóttur, sem hefur frá því verið traustur ferðafélagi. Enda má segja að við höfum lært meira á lífið en sjálfa spænskuna þessa sex mánuði sem við dvöldum úti.“

Árið 2005-2006 lagði Hanna stund á nám í grafískri hönnun við Istituto Lorenzo de' Medici í Flórens á Ítalíu. Hún útskrifaðist sem snyrtifræðingur frá Snyrtiakademíunni árið 2012 og lauk námi í miðlun og almannatengslum við Háskólann á Bifröst í september síðastliðnum. „Ég gerði rannsókn um áhrif síldarstúlkna á jafnréttis- og kjarabaráttu kvenna. Þegar þær áttuðu sig á því hvílík verðmæti þær voru með í höndunum og höfðu eitthvað um það að segja þá risu þær upp og kröfðust betri kjara og öðluðust fjárhagslegt sjálfstæði med síldinni. Það eru kannski fyrst og fremst þau áhrif sem skiptu gríðarlegu máli fyrir konur.“

Eftir útskrift frá Snyrtiakademíunni hóf Hanna störf á Snyrtistofunni Gyðjunni í Skipholti en flutti svo heim á æskuslóðirnar og hefur rekið Snyrtistofu Hönnu allt til dagsins í dag. „Ég er mikil flökkukind, hef alltaf verið eitthvað að þvælast og ætlaði til Danmerkur. En ég var hérna heima yfir sumar og þá var komin dálítil pressa á mig hvort ég ætlaði ekki að setja upp stofu hér á Siglufirði og ég dreif mig í það og sé ekki eftir því. Það er ótrúlega fínt að vera með snyrtistofu hér, maður þekkir nánast hvern einasta viðskiptavin og myndar góð og persónuleg tengsl við þá.“

Hanna hefur tekið að sér ýmsa aukavinnu samhliða snyrtingunni, m.a. unnið við verkefni í framleiðslu á sjónvarpsþáttunum Ófærð, unnið við kennslu í Grunnskóla Fjallabyggðar og verið kosningastjóri 2016 og 2018. Hún hefur verið með leiðsögn fyrir erlenda ferðamenn og unnið sl. fimm ár sem síldarstúlka í söltunarsýningum á Síldarminjasafni Íslands.

Hanna hefur alltaf haft áhuga á málefnum sem snerta samfélagið og stjórnmálum almennt, en hún var komin í Sjálfstæðisflokkinn um tvítugt. Hún hefur tekið að sér setu í ýmsum nefndum innan sveitarfélagsins og situr nú sem aðalmaður í félagsmálanefnd Fjallabyggðar. Hún er í stjórn Systrafélags Siglufjarðarkirkju ásamt því að vera í stjórn Sjálfstæðisfélags Siglufjarðar og í stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins á Norðurlandi eystra. Hún tók þátt í alþingiskosningum 2021 og sveitarstjórnarkosningum 2022.

Hún hélt erindi um skáldkonuna Ólöfu á Hlöðum í Ljóðasetri Íslands á Siglufirði. „Ég féll svo rosalega fyrir henni af því mér fannst hún yrkja ljóð sem ná djúpt inn í sálina og saga hennar var svo mögnuð. Svo verð ég með erindi fyrsta laugardag í nóvember á vegum Fræðamannafélags Siglufjarðar um rannsóknina sem ég gerði í námi mínu við Háskólann á Bifröst um áhrif síldarstúlkna.“

Áhugamál Hönnu eru mörg en þau helstu eru ferðalög, skíði og fjallgöngur. „Svo eru vina- og fjölskyldustundir mikilvægar því það er jú það dýrmætasta sem maður á. Ég ferðaðist ekki mikið í sumar af því ég var í náminu. Ég fór í klassískt íslenskt frí til Tenerife, en ég er ekki alveg sú týpa, kýs frekar framandi slóðir eins og Taíland og Balí eða sögufrægar borgir en þetta er allt gott í bland.“ Næsta ferðalag hennar er til Edinborgar í nóvember með saumaklúbbnum. „Við fljúgum frá Akureyri með Niceair sem er alveg frábær möguleiki.“

Hanna hélt upp á afmælið um síðustu helgi. „Þá kom óvænt æskuvinkona mín frá Kanada í partíið og við ætlum að fara saman ásamt fleiri vinkonum á afmælistónleika Gumma í Sálinni sem haldnir verða í kvöld.“

Fjölskylda

Systkini Hönnu eru Sigurjón Hrafn Ásgeirsson, f. 24.5. 1984, sjómaður á Siglufirði; Guðni Brynjólfur Ásgeirsson, f. 17.10. 1993, landslagsarkitekt í Ósló, og Katrín Elva Ásgeirsdóttir, f. 24.9. 1995, leikskólaliði á Siglufirði.

Foreldrar Hönnu eru hjónin Ásgeir Ingvar Sölvason, f. 8.4. 1960, bílstjóri, og Erla Gunnlaugsdóttir, f. 26.7. 1959, skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar. Þau eru búsett á Siglufirði.