— Morgunblaði/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haustið er uppáhaldsárstíð Báru Atladóttur, hönnuðar og eiganda Brár verslunar. Að kveikja á fjölda kerta með unnustanum Juan Gabriel Silva Fernandez og elda góða súpu er lykillinn að fullkomnu haustkvöldi. Guðrún Selma Sigurjónsdóttir | gudrunselma@mbl.is

Ég er algjört heimadýr og elska að verja tíma heima hjá mér, kveikja á fullt af kertum, elda eitthvað gott og bjóða vinum eða fjölskyldu í mat. Ég er algjör súpukona og það er innprentað í mig að maður geti ekki borðað súpur á sumrin eða í sól svo ég elska þegar það fer að hausta og ég get hent í kraftmiklar súpur og haft þær í matinn heima.

Ég fyllist líka almennt meiri metnaði í eldhúsinu þegar skammdegið skellur á. Ég nenni einhvern veginn síður að elda og stússast í mat á sumrin. Besta tilfinning í heimi er að vera nýkomin úr sturtu, í hreinum náttfötum, með einhverja geggjaða súpu á hellunni, fullt af logandi kertum og smá haustlægð úti, segir Bára.

Hafa það notalegt í sófanum

„Íbúðin sem við búum í er frekar opin svo við sitjum flestöll kvöld saman í sófanum og förum yfir tölvupósta eða skilaboð sem við höfum fengið í gegnum fyrirtækin okkar. Við vinnum bæði sjálfstætt en hvort í sínu fyrirtækinu svo við hittumst bara á kvöldin og þá verjum við smá tíma saman í að stilla saman næsta dag eða dögum. Svo við sitjum flest öll kvöld eftir matinn einhvers staðar í sófanum, ég í tölvunni að vinna eða við að horfa á eitthvað saman. Við vorum reyndar líka að klára að smíða draumarúmgaflinn okkar í sumar og settum hann upp. Því er ég farin að eyða meiri og meiri tíma upp í rúmi á kvöldin að svara skilaboðum og tölvupóstum.

Vinnunnar vegna eru Bára og unnusti hennar mikið á þeytingi en á haustin ná þau aðeins að slaka á heima fyrir. „Síðustu tvö ár höfum við eytt vorum og sumrum á ferðalagi á sendibíl fullum af vörum úr Brá verslun og sett upp pop-up-markaði um allt land. Við höfum svolítið tekið haustin í að slaka aðeins á og undirbúa okkur fyrir jólatörnina sem byrjar alltaf fyrr og fyrr,“ segir Bára en hún rekur einnig fyrirtækið Heimafínt með unnustanum Gabriel sem sérhæfir sig í sérsmíðuðum og klæddum húsgögnum. „Það er nóg að gera hjá okkur báðum þessa dagana – enda allir annaðhvort að gera fínt heima hjá sér eða að finna sér ný föt fyrir árshátíðirnar sem eru fram undan.“

Skemmtilegra að klæða sig á haustin

Það blundar enginn farfugl í Báru. Hún kann vel að meta að búa á Íslandi á haustin og veturna. „Ég bjó í Köben í eitt ár þegar ég var tvítug en það telst nú varla með þar sem veðrið þar er ekki ósvipað því hér heima. Ég hef enga löngun til þess að búa í landi þar sem er til dæmis alltaf sól eða alltaf svipað veður. Uppáhaldsárstíðin mín er haustið. Það eru svo fallegir litir í náttúrunni, skemmtilegra að klæða sig á morgnana og ég persónulega hef meiri metnað í eldhúsinu á þessum tíma sem mér þykir ekki leiðinlegt.

Hvað ætlar þú að gera skemmtilegt í vetur?

„Borða nóg af súpum, brenna fullt af kertum og reyna að ná sem bestum tökum á því að baka gott brauð. Ég ætla að fara í leikhús og svo ætlum við að fjölskyldan að skella okkur til Köben í smá aðventuferð í desember sem ég er hrikalega spennt fyrir!“

Einföld og sérlega ljúffeng

tómatsúpa með ristuðum tómötum

Svolítil olía

1 laukur

4-5 hvítlauksgeirar

9 stórir tómatar

2 dósir Mutti-tómatar

1 tsk. þurrkað timían

1 bolli ferskt basil

2 kjúklingateningar

salt og pipar

1 tsk. sykur

rúmlega hálfur bolli rjómi

Hitið ofninn í 200 gráður.

Skerið níu tómata í tvennt eða þrennt (fer eftir stærð).

Skellið þeim á bökunarplötu og sullið smá olíu, salti og pipar yfir.

Bakið tómatana í klukkutíma eða þar til þeir eru orðnir vel eldaðir og gegnumsósaðir!

Setjið smá olíu, lauk, hvítlauk og timían í pott og brúnið aðeins.

Setjið svo tvær dósir af Mutti-tómötum í dós út í pottinn ásamt heilum bolla af fersku basil.

Kryddið með salti og pipar eftir smekk.

Látið malla í 5 til 10 mínútur á pönnunni.

Bætið tveimur bollum af vatni og báðum kjúklingateningunum út í og leyfið að malla í um 30 mínútur.

„Ég mæli með að skella töfrasprota ofan í til þess að blanda öllu saman í silkimjúka blöndu. Ég bæti svo í lokin smá rjómaslettu út í en það má alveg sleppa því. Það er svo algjörlega geggjað að gera grillsamlokur með osti til þess að dýfa í súpuna! Hún verður alltaf betri því lengur sem hún fær að malla,“ segir súpukonan Bára.