Alþjóðamál Rúmenski sagnfræðingurinn Radu Albu-Comanescu segir að Ísland og Rúmenía þurfi að glíma við sömu vandamál í alþjóðamálum.
Alþjóðamál Rúmenski sagnfræðingurinn Radu Albu-Comanescu segir að Ísland og Rúmenía þurfi að glíma við sömu vandamál í alþjóðamálum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is „Jaðarsvæði [eins og Ísland og Rúmenía] eru oft mjög svipuð,“ segir sagnfræðingurinn Radu Albu-Comanescu, en hann er lektor í Evrópufræðum við Babes-Bolyai-háskólann í Rúmeníu. Hann flutti erindi um samskipti Rúmena og Úkraínumanna í Safnahúsinu í gær á sérstakri ráðstefnu á vegum rannsóknasetursins EDDU við Háskóla Íslands, en ráðstefnan fjallaði um stríðsfrásagnir með áherslu á Úkraínustríðið, alþjóðlegar krísur og baráttu um þjóðarminni, út frá sjónarhóli bæði rúmenskra og íslenskra fræðimanna.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Jaðarsvæði [eins og Ísland og Rúmenía] eru oft mjög svipuð,“ segir sagnfræðingurinn Radu Albu-Comanescu, en hann er lektor í Evrópufræðum við Babes-Bolyai-háskólann í Rúmeníu. Hann flutti erindi um samskipti Rúmena og Úkraínumanna í Safnahúsinu í gær á sérstakri ráðstefnu á vegum rannsóknasetursins EDDU við Háskóla Íslands, en ráðstefnan fjallaði um stríðsfrásagnir með áherslu á Úkraínustríðið, alþjóðlegar krísur og baráttu um þjóðarminni, út frá sjónarhóli bæði rúmenskra og íslenskra fræðimanna.

Þetta er í annað sinn sem Albu-Comanescu sækir landið heim, og segist hann sjá mikil líkindi á milli Íslands og Rúmeníu. „Við fórum fyrir þremur árum á safn um þjóðsögur, og þar sá ég að hefðbundnar skreytingar á gömlum íslenskum heimilum eru mjög svipaðar slíkum skreytingum í Rúmeníu enda eru sterkari menningartengsl á milli þjóðanna en okkur grunar.“

Albu-Comanescu segir stundum að hann eigi í rökræðum við franska og þýska fræðimenn og prófessora um þá skilgreiningu sem feli í sér að þeirra lönd séu miðdepill Evrópu. „Ég segi þá við þá, að stundum eru „jaðarsvæðin“ svokölluðu þungamiðjan, því þar gerast hlutir sem hafa áhrif á „miðjuna“ og neyðir ríkin þar til að bregðast við. Þetta er stöðugt samtal. Stundum eru „miðjusvæðin“ í raun á jaðrinum.“

Ekki alltaf gott að eiga granna

Rúmenía og Úkraína deila landamærum og þjóðirnar tvær hafa verið nágrannar um langt skeið. Það að vera nágranni er þó ekki alltaf jákvætt í sögu Evrópu. „Samband okkar við Úkraínu nær aftur margar aldir, jafnvel áður en Úkraína var þekkt undir því nafni,“ segir Albu-Comanescu.

„En við getum sagt að þegar þeir urðu hluti af fyrst rússneska keisaradæminu og svo Sovétríkjunum, hafi ímynd Rúmena af Úkraínu verið, ef ekki hlutlaus, þá frekar neikvæð,“ segir hann og bætir við að það hafi stafað af ýmsu, m.a. deilum um landsvæði, sem ekki sé hægt að skrifa alfarið á Úkraínumenn.

Albu-Comanescu minnir á að í kjölfar síðari heimsstyrjaldar hafi Sovétríkin tekið nokkur landsvæði af Rúmeníu, og annars vegar búið til Moldóvu og hins vegar látið Úkraínu fá nokkur svæði. „Og þá skipti litlu máli fyrir Rúmena að þau svæði voru að meginstofni byggð Úkraínumönnum. Frá okkar sjónarhóli græddu Úkraínumenn á þessu.“

„Helstu fjendurnir“

Í kjölfarið á falli Sovétríkjanna hafi síðan komið upp deilur um landgrunn og lögsögumörk ríkjanna við Svartahaf. „Árið 1997 undirrituðum við nágrannasamkomulag við Úkraínu þar sem Rúmenía lýsti því yfir að hún gerði ekki neinar landakröfur á hendur Úkraínu,“ segir Albu-Comanescu. Spurningin um Svartahaf var hins vegar skilin eftir og látin í dóm Alþjóðadómstólsins í Haag, sem ákvað að lokum árið 2009 að dæma Rúmeníu í vil. „Um 80% af því svæði sem deilt var um var afhent Rúmeníu,“ segir Albu-Comanescu, og bætir við að þáverandi forsætisráðherra Úkraínu, Júrí Jekhanurov, hafi jafnvel lýst því yfir að Rúmenar væru helstu fjendur Úkraínu.

Albu-Comanescu segir aðspurður að vissulega virki slík yfirlýsing hjákátleg í dag í ljósi alls þess sem síðan hafi gengið á. „En frá okkar sjónarhóli voru þeir eins og lítið Rússland,“ segir hann. „Við vissum af tengslunum milli Kænugarðs og Moskvu og tilhneigingu þeirra í bæði efnahagsmálum og menningu að halla sér frekar að Rússlandi,“ segir Albu-Comanescu og bætir við að um nokkurs konar kyrrstöðu hafi verið að ræða vegna falls Sovétríkjanna.

Hann segir að á sama tíma og Rúmenar færðust nær Vesturlöndum, hefðu Úkraínumenn gert nokkrar tilraunir til slíks hins sama. „En þær gengu aldrei upp, og þeim fylgdi aldrei nein viðleitni til að bæta samskiptin við Rúmeníu,“ segir Albu-Comanescu.

„Það var aldrei nein vinátta. Í besta falli viðurkenndum við tilvist þeirra, að þeir væru á gráu svæði, í togstreitu milli vesturs og austurs, en að það væri ekki okkar vandamál.“ En svo kom innrásin.

„Það kom okkur sjálfum á óvart, ekki síst hvað samfélag okkar var tilbúið að opna sig og hinn algjöri skortur á óvild gagnvart Úkraínumönnum þegar við opnuðum landamæri okkar fyrir þeim, “segir Albu-Comanescu.

Hann segir að á þeim tæpu átta mánuðum sem stríðið hafi staðið yfir hafi um 2,5 milljónir Úkraínumanna flúið til Rúmeníu, og þar af hafi um ein milljón ákveðið að vera áfram í Rúmeníu, en aðrir annað hvort snúið til baka til Úkraínu eða ákveðið að halda áfram til annarra Evrópuríkja.

„Þetta var óhugsandi,“ segir Albu-Comanescu, sem nefnir að hann hafi heimsótt Úkraínu eftir innrásina. „Ég skynjaði þarna samstöðuna, þrautseigjuna. Þeir eru ótrúlega samstilltir, mjög stoltir, gríðarlega hugrakkir. Nær allir í Rúmeníu líta nú upp til þeirra.“

Keisarinn reyndist klæðalaus

Albu-Comanescu segir aðspurður að samskiptin við Rússa hafi sömuleiðis beðið mikinn hnekki við innrásina og að óvíst sé hvernig staðan verði að stríði loknu. Hann segir að Rúmenía hafi áður haft mikinn áhuga á því að eiga ágæt samskipti við Rússland, þar sem menn hafi trúað þeim áróðri sem kom frá Moskvu um styrk Rússlands. „En nú er búið að svipta þeirri hulu af. Við höfum séð herinn hrynja, við höfum séð mýtuna um hinn öfluga rússneska hermann algjörlega lagða í duftið af stríðinu. Við erum í áfalli yfir að hafa trúað á draug sem var aldrei til staðar.“

Á móti kemur að Rússland sé enn mikið kjarnorkuveldi, en að vera Rúmena í Atlantshafsbandalaginu dragi úr óttanum sem fylgi því. „Þannig að Rússland hefur jafnvel misst það pólitíska mikilvægi, sem gerði það þýðingarmikið að viðhalda menningartengslum.“ Keisarinn hafi þannig reynst klæðalaus.

Rúmenar séu jafnvel reiðir út í sjálfa sig fyrir að hafa eytt svona miklum tíma í samskiptin við Rússa, og þau skilaboð sem nú berist frá Frakklandi og Þýskalandi um að enn sé hægt að byggja upp tengsl við Rússland falli lítt í kramið.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafi til að mynda reitt marga í Mið- og Austur-Evrópu til reiði þegar hann sagði að nú þyrfti að búa til nýjan „arkítektúr trausts.“ Albu-Comanescu segir að enginn í Mið- og Austur-Evrópu myndi taka svona til orða og að Frakkar og Þjóðverjar hafi misst mikinn trúverðugleika, fyrir að sýna að þeir líti ekki Rússa raunsæjum augum.

„Evrópuþingmaðurinn Radek Sikorsky frá Póllandi sagði nýlega í þýska utanríkisráðuneytinu að „við höfum enga ástæðu til að treysta dómgreind ykkar lengur,“ og það eru líklega bestu skilaboðin sem hægt er að senda núna til Berlínar og Parísar,“ segir Albu-Comanescu. Á sama tíma glími ríki Mið- og Austur-Evrópu við þann vanda að þau hafi aldrei haft meiri ítök í Evrópu en nú, og þurfi að stíga varlega til jarðar.

Eigum við sömu vandamál

Albu-Comanescu segir að lokum að þegar hann flaug hingað hafi hann áttað sig á því hversu lítil Evrópa er í raun. „Ísland og Rúmenía eru oft sögð hvort á sínum endanum á landakorti Evrópu, en það sem sést á landakortinu er ekki allt sem er til. Við erum hluti af mjög flókinni heimsálfu og þurfum að kljást við sams konar vandamál, hvort sem okkur líkar betur eða verr.“

Hann bætir við að sigur Rússa myndi kalla á ágengari hegðun þeirra á norðurslóðum. „Það er alltaf einhver næstur á listanum þeirra,“ segir hann. Svíþjóð og Finnland hafi sent skýr skilaboð með umsókn sinni um inngöngu í Atlantshafsbandalagið um þörfina á að styrkja það í norðurátt. „Bæði ríki okkar búa því í sama heimspólitíska veruleika, við sömu heimspólitísku hættuna frá ríki, sem gekk aldrei í gegnum 20. öldina.“