Stjórnmál Ég brenn fyrir því að fólk fái, óháð efnahag og aðstæðum, að njóta allra lífsins gæða. Jafnaðarstefnan á að höfða til hins breiða hóps úti í þjóðfélaginu, segir Guðmundur Árni í viðtalinu, hér staddur heima í Hafnarfirði.
Stjórnmál Ég brenn fyrir því að fólk fái, óháð efnahag og aðstæðum, að njóta allra lífsins gæða. Jafnaðarstefnan á að höfða til hins breiða hóps úti í þjóðfélaginu, segir Guðmundur Árni í viðtalinu, hér staddur heima í Hafnarfirði. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Skýr stefna, trúverðugleiki og sjálfstraust fólksins í forystusveit til að koma góðum málum í framkvæmd. Þetta er pólitík í hnotskurn og engin geimvísindi,“ segir Guðmundur Árni Stefánsson. „Já, ég trúi því að ég geti lagt flokknum mínum, Samfylkingunni, og nýjum formanni hennar lið. Þótt fráfarandi forysta hafi gert margt gott tala tölur sínu máli. Á engan hátt er viðunandi að í hverjum alþingiskosningum á eftir öðrum sé flokkur jafnaðarmanna með fylgi í kringum 10%. Þessu verður að breyta.“

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Skýr stefna, trúverðugleiki og sjálfstraust fólksins í forystusveit til að koma góðum málum í framkvæmd. Þetta er pólitík í hnotskurn og engin geimvísindi,“ segir Guðmundur Árni Stefánsson. „Já, ég trúi því að ég geti lagt flokknum mínum, Samfylkingunni, og nýjum formanni hennar lið. Þótt fráfarandi forysta hafi gert margt gott tala tölur sínu máli. Á engan hátt er viðunandi að í hverjum alþingiskosningum á eftir öðrum sé flokkur jafnaðarmanna með fylgi í kringum 10%. Þessu verður að breyta.“

Eitt leitt af öðru

Guðmundur Árni Stefánsson á rætur sínar í gamla Alþýðuflokknum. Hann var á árunum 1986 til 1993 bæjarstjóri í Hafnarfirði. Eftir það ráðherra og þingmaður í allmörg ár. Tók meðal annars þátt í stofnun Samfylkingarinnar um aldamót þar sem fjórir flokkar á vinstri vængnum voru sameinaðir. Árið 2005 fór hann til starfa í utanríkisþjónustunni og var sendiherra víða um heim. Kom aftur inn í stjórnmálin fyrr á þessu ári. Var, að undangengnu prófkjöri, í efsta sæti á lista Samfylkingar í Hafnarfirði síðastliðið vor hvar flokkurinn jók verulega við fylgi sitt í kosningum og fékk fjóra fulltrúa í bæjarstjórn.

„Í fyrravetur stóð ég á tímamótum. Þurfti að taka ákvörðun um hvort ég ætlaði að vera í utanríkisþjónustunni til starfsloka eða snúa mér að golfinu og slíku. Niðurstaðan varð hins vegar sú að ég ákvað að fara í bæjarmálin hér í Hafnarfirði, sem ég þekki vel frá gamalli tíð. Síðan þá hefur eitt leitt af öðru,“ segir Guðmundur Árni.

Barátta og kærleikur

Núverandi forystusveit Samfylkingar er á útleið og Kristrún Frostadóttir er ein í framboði sem næsti formaður flokksins. Á síðustu vikum hefur svo gerst, segir Guðmundur Árni, að margir hafa haft samband við hann. Sagt að í forystu flokksins þurfi að vera breidd og skorað á hann að bjóða sig fram til varaformennsku.

„Sumir hafa sagt að ekki væri verra að í forystusveit væri meðal annarra gamall refur með reynslu bæði af stjórnsýslu og pólitík. Ég hlustaði á þessi sjónarmið og fleiri og hugsaði síðan sem svo að úr því ég væri kominn út í bæjarmálin hér í Hafnarfirði væri allt í lagi að stíga skrefi lengra. Jú, og það er gaman að njóta eftirspurnar í pólitík en ekki bara framboði,“ segir Guðmundur Árni. Bætir við að skoðanir sínar og Kristrúnar Frostadóttur fari saman í flestu, enda þótt bakgrunnur þeirra sé ólíkur og mannsaldur á milli í árum. Kjarni málsins sé sá að þau aðhyllist bæði grunnstef jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag.

„Jafnaðarstefna er meira en pólitískt andartak heldur lífsskoðun. Rauð rós í krepptum hnefa vísar meðal annars til baráttunnar og kærleika. Inntak stefnunnar er meðal annars að fólk eigi sjálft að ráða örlögum sínum, jafnrétti að ríkja á öllum sviðum og samstaða með þeim sem eiga undir högg að sækja. Ég brenn fyrir því að fólk fái, óháð efnahag og aðstæðum, að njóta allra lífsins gæða. Jafnaðarstefnan á að höfða til hins breiða hóps úti í þjóðfélaginu.“

Alltaf barist fyrir sterku velferðarkerfi

Kannanir sýna að Samfylkingin á talsvert fylgi meðal háskólamenntaðra, sem Guðmundur Árni segir ánægjulegt, en flokkurinn hafi hins vegar að nokkru misst tengslin við launafólk. Þau þurfi að styrkja.

„Jafnaðarmenn hafa alltaf barist fyrir sterku velferðarkerfi, sem verður ekki til úr engu. Í blönduðu hagkerfi fylgjast að velferð og atvinnulíf. Í þess þágu hafa jafnaðarmenn alltaf verið í fararbroddi hvað varðar frelsi og alþjóðleg tengsl. Séu þau ekki fyrir hendi blasir einangrun við. Í stefnu okkar felst líka að vera sverð og skjöldur almannahagsmuna. Ég dreg því enga dul á mikilvægi þess að við jafnaðarmenn komumst aftur í ríksstjórn og getum þar komið hugsjónum okkar í framkvæmd. Ég trúi því líka að tími okkar í Samfylkingunni sé aftur að renna upp, því núverandi ríkisstjórn er óstarfhæf og í ruglinu. Getur þó ekki dáið. Vinstri-grænir engjast um í samstarfinu, en þora ekki í kosningar þegar fylgið mælist í lágmarki. Sjálfstæðismönnum tekst í þessari ríkisstjórn að halda sig við kjötkatlana, rétt eins og leikurinn er til gerður. Sama má kannski segja um Framsókn sem er flokkur valdsins. Vinnur til vinstri og hægri eins og vindar blása hverju sinni.“

Hugur, heilsa, vilji og kraftur

Sem stendur hefur Guðmundur Árni einn lýst yfir framboði til varaformanns í Samfylkingunni, en kosning fer fram á landsfundi flokksins 28. og 29. október.

„Nei, að hella mér aftur út í pólitíkina var alls ekki samkvæmt langtímaáætlun. Sama má segja um framboð til varaformanns, hverjar sem lyktir þess verða á landsfundi. Framtíðin er því óráðin, svo sem hvort ég stefni aftur á landsmálin. Að minnsta kosti eru þrjú ár til næstu alþingiskosninga. En ef hugur, heilsa, vilji og kraftur verða til staðar þá útiloka ég ekkert.“

Heitið sé Jafnaðarflokkur

Gjarnan er hermt að þau sem fyrr á tíð fylgdu Alþýðuflokki að málum hafi ekki fundið sína fjöl í Samfylkingu. Sumir segja raunar að setja þurfi gamla flokkinn aftur á flot. Þessa umræðu þekkir Guðmundur Árni, en hann er formaður flokksins sem aldrei var lagður niður.

„Nei, við förum ekki aftur af stað með Alþýðuflokkinn. Tilvist hans í dag er bara sagnfræði. En um þessar vangaveltur segi ég að fyrst eftir stofnun Samfylkingar fann ég ekkert bil milli fólks í þingflokknum. Einu mátti gilda hvort það kom úr Kvennalista, Alþýðubandalagi, Þjóðvaka eða Alþýðuflokki. Ég er raunar viss um að meirihluti Íslendinga er jafnaðarmenn í hjarta og fyrir bæjarstjórnarkosningar hér í Hafnarfirði sl. vor notaði ég hugtakið oft til að koma því á framfæri fyrir hvað flokkurinn stæði,“ segir Guðmundur Árni og að lokum:

„Samfylkingin var bráðabirgðanafn. Er þess utan frekar náttúrulaust og ógagnsætt. Nöfn eiga að senda skilaboð um innihald. Reyndar hefur síðan verið bætt við í nafnið Jafnaðarflokkur Íslands, sem gerð er tillaga um á flokksþingi að verði alfarið heiti flokksins. Ég styð þá hugmynd.“