Öflugur Daninn Adama Darboe lék vel fyrir Stjörnuna í sigrinum á ÍR í Subway-deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og skoraði 22 stig.
Öflugur Daninn Adama Darboe lék vel fyrir Stjörnuna í sigrinum á ÍR í Subway-deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og skoraði 22 stig. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Körfuboltinn Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Njarðvík vann öruggan 23 stiga sigur á Tindastóli, 91:68, þegar liðin mættust í 3. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gærkvöldi.

Körfuboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is Njarðvík vann öruggan 23 stiga sigur á Tindastóli, 91:68, þegar liðin mættust í 3. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gærkvöldi.

Eftir jafnan fyrsta leikhluta stungu Njarðvíkingar einfaldlega af og leiddu með 15 stigum, 52:37, í leikhléi. Í þriðja leikhluta juku heimamenn enn á kvalir gestanna af Sauðárkróki og leiddu mest með 30 stigum, 81:51, að honum loknum. Lítið var skorað í fjórða og síðasta leikhluta og löguðu Stólarnir aðeins stöðuna áður en yfir lauk.

Njarðvík hefur nú unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni en Tindastóll hefur unnið einn og tapað tveimur.

Bandaríkjamaðurinn Dedrick Basile var stigahæstur í leiknum með 25 stig fyrir Njarðvík og gaf hann einnig átta stoðsendingar.

Litháinn Adomas Drungilas var stigahæstur hjá Tindastóli með 17 stig, auk þess sem hann tók átta fráköst.

Stjarnan sneri taflinu við

Stjarnan gerði þá góða ferð í Breiðholtið og hafði betur gegn heimamönnum, 92:80.

ÍR byrjaði leikinn betur og leiddi með fimm stigum, 46:41, að loknum fyrri hálfleik. Í þriðja leikhluta var jafnræði með liðunum til að byrja með en þegar leið á hann tók Stjarnan stjórn á leiknum, gekk svo enn frekar á lagið í fjórða og síðasta leikhluta og vann að lokum sanngjarnan 12 stiga sigur.

Stjarnan hefur nú unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni á meðan ÍR hefur unnið einn og tapað tveimur.

Eistinn Martin Paasoja var stigahæstur í leiknum með 26 stig fyrir ÍR auk þess sem hann gaf tíu stoðsendingar. Ragnar Örn Bragason var rétt á eftir með 25 stig.

Daninn Adama Darboe var stigahæstur í liði Stjörnunnar með 22 stig og skammt undan var hinn bandaríski Robert Turner með 21 stig og 9 fráköst. Litháinn Julius Jucikas skoraði 18 stig og tók 13 fráköst.