Hrædd Malignant er skemmtilega klikkuð.
Hrædd Malignant er skemmtilega klikkuð. — Ljósmynd/New Line Cinema
Í október hef ég ekki náð að horfa á jafnmargar hryllingsmyndir og ég hefði viljað en þó hefur mér tekist að horfa á þær nokkrar. Til að mynda tvær frá síðasta ári sem ég missti af þá. Þær eru Malignant og Spiral: From the Book of Saw .

Í október hef ég ekki náð að horfa á jafnmargar hryllingsmyndir og ég hefði viljað en þó hefur mér tekist að horfa á þær nokkrar. Til að mynda tvær frá síðasta ári sem ég missti af þá.

Þær eru Malignant og Spiral: From the Book of Saw . Fyrst ber að nefna Malignant . Hún er einfaldlega geggjuð. Á góðan hátt.

Hún telst kannski ekkert þrekvirki í kvikmyndasögunni þar sem hugmyndin er einkar langsótt en það breytir því þó ekki að hún er stórkostleg skemmtun. Það, hversu ýkt myndin er, er henni til tekna. Hún minnir á klikkaðar hryllingsmyndir níunda og í sumum tilfellum tíunda áratugs síðustu aldar. Það hjálpar til að kvikmyndagerðarfólkið nálgast sturlað handritið af virðingu þar sem myndin er afar vel gerð og leikarar vinna einkar vel úr því sem þeim er gefið. Þá nennir maður ekkert að agnúast út í ýmsa hluti sem hefðu getað látið mann hugsa: „Þetta er nú meira ruglið, þetta er glatað.“ Í stað þess hugsar maður: „Þvílíkt rugl, þetta er snilld!“

Hvað Spiral varðar er þessu þveröfugt farið. Þar er handritið klikkað en á slæman hátt. Það er einfaldlega ekki heil brú í neinu og leikstjórn og leikur eftir því. Chris Rock veldur ekki „alvarlegu“ hlutverki sínu. Það að píra augun endurtekið gerir mann ekki að alvarlegum leikara.

Gunnar Egill Daníelsson

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson