Full samstaða var um það meðal allra fimm nefndarmanna peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að hækka meginvexti bankans um 0,25 prósentur. Nefndin hittist á fundum 3.-4. október síðastliðinn en niðurstaða hennar var kynnt fyrir opnun markaða þann 5.

Full samstaða var um það meðal allra fimm nefndarmanna peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að hækka meginvexti bankans um 0,25 prósentur. Nefndin hittist á fundum 3.-4. október síðastliðinn en niðurstaða hennar var kynnt fyrir opnun markaða þann 5. október.

Við vaxtaákvörðun, sem tilkynnt var í september, var ekki full samstaða í nefndinni. Þá lagði seðlabankastjóri til hækkun vaxta um 0,75 prósentur og var hún samþykkt en Gylfi Zoëga , einn nefndarmanna, vildi fremur ganga lengra og hækka vexti um 1 prósentu.

Í fundargerð nefndarinnar, vegna fundanna í upphafi októbermánaðar, kemur fram að bæði hafi rök hnigið að 0,25 prósenta hækkun en einnig að því að halda meginvöxtum bankans óbreyttum. Verðbólga hafi reynst minni en búist var við og að verðbólguhorfur til skamms tíma lækkað. Þá voru nefndarmenn einnig sammála um að skýrari vísbendingar hefðu komið fram á vikunum fyrir vaxtaákvörðun um að vaxtahækkanir síðustu missera væru farnar að hafa áhrif á almenna eftirspurn og umsvif á lánamarkaði.

Meginvextir Seðlabankans eru nú 5,75% . Þann 23. nóvember næstkomandi mun peningastefnunefnd kynna síðustu vaxtaákvörðun sína á árinu 2022 en nefndin hefur hækkað vexti á öllum fimm fundum sínum það sem af er þessu ári. Nemur uppsöfnuð hækkun ársins 3,75 prósentum.