Stjórnarfrumvarpi dómsmálaráðherra um útlendinga (alþjóðlega vernd) var útbýtt á Alþingi í gær. Helstu efnislegu breytingarnar lúta að heimild heilbrigðisyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga um útlendinga.

Stjórnarfrumvarpi dómsmálaráðherra um útlendinga (alþjóðlega vernd) var útbýtt á Alþingi í gær. Helstu efnislegu breytingarnar lúta að heimild heilbrigðisyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga um útlendinga. Auk þess hefur bráðabirgðaákvæði frumvarpsins, um að útlendingi yrði skylt að gangast undir Covid-19-próf í tengslum við framkvæmd ákvörðunar um frávísun og brottvísun, verið fellt út í ljósi þróunar heimsfaraldursins. Þá hefur verið fallið frá fyrirhugaðri breytingu á tilteknum undantekningum í 36. grein laganna um sérstök tengsl og sérstakar ástæður, samkvæmt greinargerð með frumvarpinu.

Þar segir einnig að við framkvæmd laga um útlendinga hafi komið í ljós að þörf er á að lagfæra, endurskoða og breyta allmörgum ákvæðum þeirra um alþjóðlega vernd svo að framkvæmd og meðferð mála sem undir þau falla sé skýr og gagnsæ. Gildandi lög um útlendinga tóku gildi 1. janúar 2017 og voru samin á árunum 2014 til 2016. Málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd hafa þróast töluvert síðan þá, bæði alþjóðlega og hér á landi. Mikilvægt þykir að aðlaga löggjöfina þeirri þróun sem á sér stað í alþjóðasamfélaginu og þeim áskorunum sem verndarkerfið stendur frammi fyrir á hverjum tíma.

„Á meðal álitaefna sem fram hafa komið undanfarin ár eru atriði sem snerta fjölgun umsókna þeirra einstaklinga sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki, málsmeðferðartími umsókna um alþjóðlega vernd, framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun, mat á hagsmunum barna og hlutverk Barna- og fjölskyldustofu við veitingu alþjóðlegrar verndar í málum fylgdarlausra barna, málsmeðferð umsókna um ríkisfangsleysi, réttindi og skyldur flóttafólks sem kemur til landsins í boði stjórnvalda og niðurfelling réttinda samkvæmt lögunum.“

Frumvarpið er nú lagt fram í fimmta sinn. gudni@mbl.is