Barátta Valsararnir Alexander Már Júlíusson og Tjörvi Týr Gíslason taka hressilega á ÍR-ingnum Róbert Snæ Örvarssyni í gærkvöldi.
Barátta Valsararnir Alexander Már Júlíusson og Tjörvi Týr Gíslason taka hressilega á ÍR-ingnum Róbert Snæ Örvarssyni í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handboltinn Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.

Handboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals unnu afskaplega öruggan tíu marka sigur á nýliðum ÍR, 35:25, þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Origo-höllinni að Hlíðarenda í gærkvöld. Þrátt fyrir lokatölurnar gaf fyrri hálfleikur það alls ekki til kynna að leiknum myndi ljúka með þetta auðveldum sigri Vals. Var hann enda í járnum og leiddi ÍR með einu marki, 14:13, í leikhléi. Í síðari hálfleik sýndu Valsmenn hins vegar styrk sinn og sigldu fram úr Breiðhyltingum.

Valur er þar með áfram á toppi deildarinnar með 12 stig að loknum sjö leikjum. ÍR er með 4 stig í 11. og næstneðsta sæti.

*Magnús Óli Magnússon átti stórleik fyrir Val þar sem hann skoraði níu mörk.

*Motoki Sakai kom ógnarsterkur inn af bekknum í mark Vals og varði 11 skot. Var hann með 52,4 prósent markvörslu.

*Arnar Freyr Guðmundsson fór þá fyrir ÍR og skoraði átta mörk.

*Ólafur Rafn Gíslason í marki ÍR varði 13 skot.

Selfoss vann sömuleiðis einstaklega öruggan tíu marka sigur, 34:24, þegar KA kom í heimsókn austur fyrir fjall.

Selfyssingar gáfu þegar í stað tóninn með því að komast í 6:1 eftir tæplega átta mínútna leik. Í leikhléi var staðan 21:12. Reyndist síðari hálfleikurinn því nokkurs konar formsatriði fyrir heimamenn, sem eru nú í 4. sæti.

*Markahæstir í liði Selfoss voru þeir Einar Sverrisson, Sigurður Snær Sigurjónsson, Ísak Gústafsson og Guðjón Baldur Ómarsson, allir með sex mörk.

*Vilius Rasimas fór á kostum í marki Selfyssinga og varði 18 skot, sem gerir 48,6 prósent markvörslu.

*Einar Rafn Eiðsson var markahæstur í liði KA með fimm mörk.

Fram og Grótta skildu jöfn, 29:29, er þau mættust í Framhúsi í Úlfarsárdal.

Leikurinn var kaflaskiptur en Grótta var þó með forystuna stærstan hluta leiksins. Þegar skammt var eftir komst Grótta í 29:25 og virtist eiga sigurinn vísan. Fram skoraði hins vegar fjögur mörk í röð og knúði fram jafntefli.

Fram er nú í 2. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Val.

*Luka Vukicevic var markahæstur í liði Fram með átta mörk.

*Daníel Örn Griffin skoraði einnig átta mörk fyrir Gróttu og Lúðvík T. Bergmann Arnkelsson var skammt undan með sjö mörk.

*Einar Baldvin Baldvinsson varði 14 skot í marki Gróttu.