Forstjóri Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, segir rekstur fyrirtækisins vera á uppleið. Fyrirtækið hafi verið endurskipulagt.
Forstjóri Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, segir rekstur fyrirtækisins vera á uppleið. Fyrirtækið hafi verið endurskipulagt. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, tekur á móti blaðamanni í Rauða herberginu hjá Vodafone. Þaðan er útsýni yfir borgina og sundin.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, tekur á móti blaðamanni í Rauða herberginu hjá Vodafone. Þaðan er útsýni yfir borgina og sundin.

Yngvi var ráðinn forstjóri í sumar sem leið eftir að Heiðar Guðjónsson lét af störfum af heilsufarsástæðum og seldi hlut sinn í félaginu.

Yngvi hafði þá verið rekstrarstjóri Sýnar í nokkur ár, samhliða Heiðari, ásamt setu í aðalstjórn félagsins í tæplega tvö ár.

Samtalið hefst á að ræða bakgrunn Yngva sem er 45 ára gamall og útskrifaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Starfaði hjá Alfa Framtaki

„Ég starfaði hjá Alfa Framtaki áður en ég kom til Sýnar en var lengst af hjá Össuri. Ég stýrði þar meðal annars upplýsingatækni og ferlaumbótum og leiddi þar stór umbreytingarverkefni en ferill minn hjá Össuri spannaði í tveimur tímabilum rúmlega tíu ár,“ segir Yngvi.

Spurður hvernig áherslur hans hafi birst í stóli forstjóra segist Yngvi hafa haldið áfram þeirri vegferð að efla þjónustu félagsins.

Umbyltu vöruúrvalinu

„Við höfum umbylt vöruúrvalinu. Við kynntum til sögunnar Fjölskyldupakkann á síðasta ári sem vöndlar saman Stöð 2 og Stöð 2+ við allsherjarþjónustu í fjarskiptum. Við erum hér til að þjónusta viðskiptavini og DNA fyrirtækisins lá í tækni. Það er uppruninn. Þannig að við höfum verið að breyta því og erum nú meira viðskiptavinamiðuð og leitumst við að þjónusta viðskiptavini sem best. Meðal annars með hagstæðari skilmálum um uppsagnir og með því að brjóta áskriftarpakka upp í minni einingar þannig að fólk geti komið inn í lægri verðpunkta. Til dæmis er hægt að kaupa áskrift að Stöð 2 plús á 3.990 krónur og nálgast þannig streymisveitu með nánast öllu okkar efni. Þeirri áskrift er nú hægt að segja upp innan mánaðar en það var ekki hægt áður,“ segir Yngvi.

Sögulega góður árangur

– Skilar þetta auknum tekjum?

„Já, til dæmis í Stöð 2 Sport sem gengur mjög vel. Við erum líka með mjög góðan áskriftargrunn í bæði Stöð 2 og Stöð 2+ sem stendur á sögulegan mælikvarða mjög hátt. Þannig að við erum ánægð með það.“

–Það hafa orðið breytingar á stjórn félagsins í ár. Er það skeið að baki? Eru hlutirnir farnir að skýrast?

„Já, ég á von á því. Einkafjárfestar hafa sýnt okkur mikinn áhuga síðustu mánuði og það er að mínu áliti komið til af því að margir telja félagið undirverðlagt á markaði. Ég deili því og tel að við séum með gríðarlega gott fyrirtæki i höndunum. Sýn er félag sem á innviði, rekur fjarskiptaþjónustu og öflugustu fjölmiðla landsins, auk þess að eiga öflugt upplýsingatæknifyrirtæki. Verkefni okkar er að lýsa styrkleikum okkar fyrir markaðnum og bæta reksturinn enn frekar þannig að félagið njóti sanngjarnar verðlagningar.“

Góður stuðningur frá stjórn

– Hefurðu fengið skilaboð frá stjórninni varðandi þína framtíð ?

„Já. Ég hef fengið góðan stuðning.“

– Þið vinnið vel saman og þú ert öruggur með að vera áfram ?

„Já. Við höfum sömu markmið. Þau vilja arðsemi fyrirtækisins sem mesta og að félaginu gangi vel á hlutabréfamarkaði. Ég deili því.“

– Nýju fjárfestarnir eru nú með meirihluta í stjórninni og alls 57% atkvæða að baki sér. Er rætt um að það skapi yfirtökuskyldu?

„Nei. Þessir aðilar eru ekki að vinna saman, eftir okkar bestu vitund ... Það hefur verið mikill áhugi frá einkafjárfestum á síðustu vikum, í framhaldi af kaupum Gavia Invest, sem hafa að öllum líkindum kosið með breytingum og auknu vægi einkafjárfesta í stjórn. Það er ekki sami hlutur og að menn séu að vinna saman.“

Hluthöfum hefur fjölgað

– Kann þessi aukni áhugi að birtast í fjárfestingu í félaginu?

„Við vorum með um 300 hluthafa síðustu áramót, sem er of lítið fyrir félag sem skráð er á markað. Þeim hefur fjölgað töluvert með aðkomu einkafjárfesta að félaginu og eru nú um 400. Við vonum þó auðvitað að þeim fjölgi enn frekar og það er okkar verkefni að gera félagið að enn meira spennandi fjárfestingarkosti til að svo megi verða.“

– Haft var eftir Heiðari í Frjálsri verslun í vor, áður en hann hætti, að mikil verðmæti væru fólgin í innviðum félagsins. Hafið þið frekari áform um sölu innviða?

„Það er búið að tilkynna um einkaviðræður og áreiðanleikakönnun sem er í gangi við Ljósleiðarann á sölu á burðarneti. Enn sem komið er eru ekki áform um neina aðra innviði í sölu en félagið er ríkt af innviðum, til dæmis í farsímakerfi.“

Ætla að kynna innviðina betur

– Þannig að hugsanlega er þetta ekki endastöðin? Kemur til greina að selja aðra innviði síðar, ef áhugi væri fyrir hendi á markaði?

„Það eru klárlega innviðir í fyrirtækinu sem við ættum að skerpa betur á fyrir markaðnum hverjir eru.“

– Er fyrirtækið á góðu skriði?

„Já, við erum búin að vinna saman að mikilli endurskipulagningu. Ef litið er þrjú ár aftur í tímann, þegar Heiðar kom hingað inn, þá var ákveðinn órói, ákveðið ástand, búið að kaupa eignir 365, miklar væntingar til þeirra eignakaupa en þær áætlanir gengu ekki eftir. Á tímabili voru tíðar afkomuviðvaranir og árangur félagsins ekki nægilega góður. “

– Það skeið er að baki?

„Já, staðan er góð núna.“

Hugsuðu reksturinn upp á nýtt

– Hvað hefur breyst? Hvað réði úrslitum um að það er að baki?

„Það þurfti algjörlega að hugsa grunnreksturinn upp á nýtt hvað varðar vörur, verðlagningu og hreinlega allt kostnaðarlíkanið, tengja saman tekjur og gjöld og við þurftum að einbeita okkur betur að framlegð. Þannig höfum við haldið rekstrarkostnaði niðri, á sama tíma aukið tekjurnar og þar með snúið tapi í hagnað,“ segir Yngvi.

Stjórnin tekið breytingum

Miklar breytingar hafa orðið á stjórn Sýnar í ár.

Á aðalfundi félagsins í mars voru þau Hjörleifur Pálsson, Páll Gíslason, Petrea I. Guðmundsdóttir, Jóhann Hjartarson og Sesselja Birgisdóttir kjörin í stjórn. Hjörleifur var stjórnarformaður en hann hafði setið í stjórn Sýnar í um áratug og því fylgt Heiðari Guðjónssyni, þá forstjóra og stærsta hluthafanum, í gegnum mikið breytingaskeið. Heiðar greindi í ár frá veikindum og seldi í kjölfarið hlut sinn í félaginu.

Með því komu inn nýir fjárfestar. Nánar tiltekið keypti fjárfestingafélagið Gavia Invest hlut í félaginu á 2,6 milljarða en meðal eigenda voru Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, og Jón Skaftason. Jón var sagður í forsvari fyrir Gavia. Þá keyptu hjónin Hilmar Þór Kristinsson og Rannveig Eir Einarsdóttir hlut í Sýn fyrir 1,3 ma. en greint var frá kaupunum í byrjun ágúst.

Kynjakvóti setur mörk

Samkvæmt lögum og samþykktum Sýnar þurfa að minnsta kosti 40% stjórnarmanna að vera af hvoru kyni. Af því leiðir að í fimm manna stjórn þurfa að vera að lágmarki tveir karlar eða tvær konur.

Þessi regla kom við sögu í stjórnarkjörinu 31. ágúst þegar nýju fjárfestarnir sóttust eftir meirihluta í félaginu. Fulltrúar þeirra voru Jón, Reynir og Hilmar Þór en aðeins Jón náði kjöri (sjá graf). Hluti skýringarinnar er áðurnefndur kynjakvóti en á grundvelli hans náðu Petrea og Sesselja kjöri þrátt fyrir að fá aðeins 1% atkvæða hvor um sig. Fyrir vikið voru fjórir stjórnarmenn af fimm fulltrúar annarra hluthafa, þ.e.a.s. lífeyrissjóða. Jóhann og Páll fengu flest atkvæði en Petrea varð stjórnarformaður.

Væri ekki í takt við hluthafa

Nýju fjárfestarnir töldu stjórnarkjörið ekki endurspegla hluthafahópinn. Kosið var á ný til stjórnar í fyrradag og náðu Jón, Hákon Stefánsson og Páll kjöri. Jóhann fór hins vegar úr stjórn. Hákon er viðskiptafélagi Reynis, stofnanda Creditinfo. Þá náði Rannveig Eir Einarsdóttir kjöri en hún er eiginkona Hilmars Þórs. Með kjöri hennar hafa nýju fjárfestarnir meirihluta í stjórn og er Jón nýr stjórnarformaður.

Leiða má líkur að því að ef Helen Neely hefði ekki boðið sig fram í fyrradag hefðu atkvæði dreifst með öðrum hætti en raunin varð. Það er að segja að lífeyrissjóðir hafi greitt Sesselju fleiri atkvæði en ella til að tryggja kjör hennar, eftir brotthvarf Petreu og samkeppni frá framboðum Rannveigar Eirar og Helen. En Petrea dró, að eigin sögn, framboð sitt til baka vegna þrýstings frá Orkuveitunni. Eiginmaður hennar, Benedikt K. Magnússon, er framkvæmdastjóri fjármála hjá Orkuveitunni.

Langt yfir 30% markinu

Jón og Hákon voru saman með alls 48% atkvæða í kjörinu og ef Rannveig Eir er talin með er hlutfall nýrra fjárfesta 57% (sjá graf). Nýju eigendurnir eru því langt yfir því 30% lágmarki sem kveðið er á um í lögum um yfirtökuskyldu, sem getur meðal annars lýst sér í samvinnu um beitingu atkvæðisréttar einstakra aðila til að ná yfirráðum í skráðu félagi.

Spurður hvort úrslit stjórnarkjörsins þýði að nýr meirihluti hafi yfirtökuskyldu á félaginu, í krafti þess að hafa fengið samtals 57% atkvæða, bendir Hákon Stefánsson, forstjóri InfoCapital, á að Gavia Invest eigi um það bil 16% hlut í Sýn. Hafi ætlunin verið að taka yfir félagið í krafti 30% eignarhlutar „hefði líklegast verið farið í þá vegferð strax“. „Það er ekki stefnan,“ segir Hákon.

Studdu stjórnarmenn

Samkvæmt frétt á vef Viðskiptablaðsins greiddi Gildi, sem á 14% hlut í Sýn, Jóhanni 40% atkvæða sinna, Páli 40% og Sesselju 20%. LSR, sem á 8,2% hlut í Sýn, greiddi Jóhanni 49% atkvæða sinna, Páli 49% og Sesselju 1%. Þá hafi Birta, sem á 5,1% hlut í Sýn, greitt Jóhanni 30% atkvæða sinna, Páli 40% og Sesselju 30%. Öll voru þau stjórnarmenn fyrir kosninguna.