Guðrún Svanfríður Stefánsdóttir (Fríða) fæddist 21. mars 1926 á Sigríðarstöðum í Flókadal. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Siglufirði 8. október 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Jósefsdóttir, f. 25. ágúst 1888 á Steinavöllum í Flókadal, d. 10. desember 1954, og Stefán Aðalsteinsson, f. 10. september 1884 á Kambi í Deildardal í Skagafirði, d. 12. maí 1980. Fríða var fjórða yngst 14 systkina en hin eru: Jóhann Helgi, f. 1909 d. 1994, Guðlaug Ólöf, f. 1910, d. 2003, Helga Anna, f. 1912, d. 1990, Jósef Svanmundur, f. 1914, d. 1935, Sigrún, f. 1916, d. 2006, Sigríður Helga, f. 1917 d. 2008, Albert Sigurður, f. 1918, d. 1924, Anna Þorbjörg Jóhanna, f. 1921, d. 1935, Jakobína Kristín, f. 1923, d. 2019, Albert Sigurður, f. 1925, d. 1944, Jóna Guðbjörg, f. 1927, d. 2014, Sigurður Jón, f. 1929, d. 2012, og Gísli Rögnvaldur, f. 1932, d. 1990.

Fríða ólst upp á Sigríðarstöðum fyrstu fjögur árin, til 1930, síðan í Sigríðarstaðakoti og gekk hún þar í öll bústörf og vakti það sérstaklega athygli í sveitinni hversu lagin hún var við að slá með orfi og ljá. Árið 1946 flutti hún ásamt foreldrum sínum til Siglufjarðar og bjó þar alla tíð. Á Siglufirði vann hún meðal annars við síldarsöltun, fiskverkun og var matráður.

Fríða eignaðist fimm börn, þau eru: Albert Sigurður Rútsson, f. 14. maí 1946; Anna Kristín Runólfsdóttir, f. 7. júlí 1952, maki Bradley Gordon Zeuge; Stefán Árni Friðgeirsson, f. 17. júlí 1954, maki Sigríður Helga Karlsdóttir; Hulda Jakobína Friðgeirsdóttir, f. 9. maí 1960, maki Gestur Hansson; og Arna, f. 15. apríl 1968. Afkomendur Fríðu eru 36 talsins.

Sambýlismaður Fríðu var Friðgeir Árnason vegavinnuverkstjóri, f. 28. október 1905 í Skagafirði, d. 1984. Síðar bjó Fríða með Þór Herbertssyni, f. 29. desember 1929, d. 2020.

Fríða var virk í félagsstarfi eldri borgara á Siglufirði og söng m.a. í kór eldri borgara.

Útför Fríðu verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag, 22. október 2022, og hefst athöfnin klukkan 13, streymt verður frá útförinni á vefslóðinni:

https://youtu.be/vKu8cxaVjAc

Fríða á sérstakan sess í bernskuminningum okkar. Samband systranna, mömmu og hennar, gerði Fríðu mjög nákomna okkur.

Við munum þær í eldhúsinu heima þegar nýjustu danslagatextarnir voru dregnir upp úr skúffu og þær sungu saman; Við gengum tvö og Draumur fangans. Raddir þeirra geymast enn djúpt í huganum. Eða þegar við örkuðum um bæinn á miðjum aðfangadegi jóla með sleða í eftirdragi og færðum öllum okkar nánustu jólagjafir og kort. Við minnumst kviknandi jólaljósanna og birtunnar í augum hennar þegar hún kvaddi okkur, börnin hennar Jónu systur, og lagði epli í snjóuga prjónavettlinga okkar.

Fríða var að eðlisfari glaðsinna og gamansöm og það var jafnan mjög þægilegt að vera nálægt henni og glettast. Líklega var það skopskyn hennar og hláturmildi sem löðuðu fram þessa eftirsóknarverðu nærveru.

Líf Fríðu var ekki alltaf dans á rósum, var fátæk verkakona lengst af en auðnaðist að eiga langt og gott ævikvöld við batnandi hag. Þá eignaðist hún, ásamt Þór sambýlismanni sínum, lítinn sumarbústað í Fljótum. Þar undu þau í sveitinni sinni þar sem aftansólin speglast í Miklavatni. Síðustu orðin sem Fríða sagði, tveimur dögum fyrir andlátið, voru tengd Fljótum. Gestur tengdasonur hennar talaði til hennar þar sem hún lá í svefnmóki og sagðist hann vera að fara inn í sveit til að reka geitur frá bústaðnum og taka upp kartöflur. Þá opnaði hún augun og sagði lágt: „Má ég ekki koma með?“ – leit svo að glugganum þar sem við blasti kaldranalegt haust í fyrstu snjóum – „nei annars, ætli ég bíði ekki eitthvað með það?“

Fríða, Guðrún Svanfríður, eins og hún hét fullu nafni, var ein af fjórtán börnum Kristínar Jósefsdóttur og Stefáns Aðalsteinssonar sem bjuggu á mörgum kotbýlum í Flókadal í Fljótum. Síðast á Sigríðarstöðum, þokkalega góðri jörð sem Jóhann sonur þeirra hafði byggt upp. Þau fluttust til Siglufjarðar árið 1946 og þar settust einnig að flest börnin þeirra sem upp komust – mörg þeirra áttu þó eftir fara suður. Sigríðarstaðasystkinin voru í aldursröð: Jóhann, Guðlaug, Helga, Svanmundur, Sigrún, Sigríður, Albert eldri, Anna, Jakobína, Albert yngri, Svanfríður, Jóna, Jón og Gísli – þetta kærleiksríka og glaðsinna fólk sem svo gaman var að vera nálægt þegar þau hittust.

Með fráfalli Fríðu eru þau öll horfin á braut og okkur finnst að lokið sé ákveðnum þætti í lífi okkar.

Kær kveðja til allra afkomenda Fríðu.

Alda og Örlygur (Ölli).